31.8.2007 | 00:55
107. blogg
Árið 1970 gaus í Heklu.
Reyndar var gosið ekki í toppi Heklu eins og venjulegast er í gosum þar, heldur var þetta í hlíðum Heklu, svokölluðum Skjólkvíum.
Ég man ekki hve lengi gosið stóð en við Áslaug og strákarnir vorum í heimsókn hjá Ingu og Herði meðan á gosinu stóð. Ákveðið var að fara að gosinu og skoða herlegheitin.
Hörður átti Landrover jeppa þegar þetta var og á honum var farið. Ég geri fastlega ráð fyrir að krakkarnir þeirra hafi líka verið með í för.
Þetta varð talsvert söguleg ferð. Ekki var lögreglan eða neinir aðrir að flækjast fyrir okkur. Allir sem áhuga höfðu á gátu farið að gosinu og eins nálægt því og þeir vildu. Þetta notfærðum við okkur út í æsar og fórum miklu nær gosinu en líkur eru á að okkur hefði annars verið leyft.
Þegar við komum þarna að var hraunrennslið búið að hálffylla lítið dalverpi. Bíllinn komst nokkuð auðveldlega að því svæði þar sem hraunið hafði runnið inn í dalverpið og virku gígarnir sem þá voru tveir voru varla meira en í svona eitt til tvöhundruð metra fjarlægð frá staðnum þar sem við vorum.
Þegar komið var að hraunjaðrinum skammt frá gígunum voru allir drifnir út úr bílnum. Ekki er nokkur vegur að lýsa því með orðum hvernig var að koma svona nálægt raunverulegu eldgosi. Örugglega er ekki hægt að lýsa því með myndum heldur. Öll skilningarvitin voru undirlögð. Hljóðin voru t.d. engu lík og jörðin titraði undir fótum okkar. Lyktin lá yfir öllu og sjónin var óviðjafnanleg.
Gígarnir vöktu að vonum mestu athyglina. Úr þeim slettist bráðið hraun hátt í loft upp og greinilega bættist sífellt við hraunið. Samt var allt með friði og spekt þarna og ekki mikill æsingur í fólki. Nokkrir tugir manna höfðu safnast saman til að horfa á þetta sjónarspil. Krakkarnir sem voru með okkur í bílnum voru dauðhrædd við allan djöfulganginn (undirganginn, lyktina og hljóðið) og á myndum má sjá að þau eru hálfgrátandi eftir að hafa verið rifin út úr bílnum.
Ég man eftir að hafa gengið spölkorn út á hraunið þarna við lítinn fögnuð sumra í hópnum, enda var það ekki skynsamlegt. Hraunið var kannski ekki mjög heitt efst, en ef litið var niður mátti hvarvetna sjá glitta í bráðinn hraunmassa.
Þarna á brúninni var talsverður hópur bíla af ýmsum gerðum. Nokkrir ákváðu að fara niður í dalverpið og þeirra á meðal Hörður. Dalbotninn var sléttur og harður og þar mátti keyra þónokkur hundruð metra meðfram hraunjaðrinum.
Síðan ókum við svotil alveg að hrauninu þar sem það vall fram seigfljótandi að neðanverðu en svart og gráleitt og að verulegu leyti storkið að ofan. Eftir því sem neðri hluti hraunjaðarins vall fram hrundi efri hluti hans ofan á og kom jafnan svolítið á eftir.
Við ákváðum nú að fara alveg að hraunjaðrinum með skóflu sem var í bílnum og ná okkur í smábita af glóandi hrauni. Líklega var það ég sem var ákafastur í þessu. Ég man vel eftir því að hitinn frá hrauninu var svo mikill að mig logsveið í andlitið. Til þess að komast nægilega vel að hrauninu með skófluna fékk ég lánaða húfu hjá Ingibjörgu og skýldi með henni þeim hluta höfuðsins sem að hrauninu sneri. Með þessu móti tókst mér að ná smáslettu af bráðnu hrauni á skófluna en það breyttist fljótlega í heldur ljótan hraunmola sem ég held að samt hafi verið settur inn í bíl.
Á einum stað í dalverpinu var svolítið drullusvað og ég man að við töluðum um að ekki væri skemmtilegt að festa sig þarna. Þegar við komum til baka var jeppi einn samt einmitt búinn að festa sig þarna. Verið var að reyna að ná bílnum upp og greinilega nokkur æsingur í fólki, því þeir sem fóru út að ýta fengu gjarnan drullubað mikið því bílstjórninn gaf hraustlega í.
Hörður var með kaðal í Landróvernum og bauðst til að draga bílinn upp. Því var vel tekið og gekk það vel. Þegar þetta var vorum við á heimleið en stoppuðum samt uppi á brúninni á dalverpinu og biðum þess að hraunið færi yfir staðinn þar sem bíllinn sat fastur. Það gerðist 20 mínútum eftir að við drógum hann upp.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Ég man eftir þessu, þótt ég hafi aðeins verið 6 ára. Fórum þarna í bíl með pabba og mömmu, afa og ömmu. Afi í Dal setti stafinn sinn í hraunið og það kviknaði í stafnum. Ég man líka að við keyrðum heim með hraunmola í farangrinum.
Anna Einarsdóttir, 31.8.2007 kl. 14:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.