102. blogg

Ég held að upphafleg meining þeirra Moggabloggsmanna með bloggvinakerfinu hafi verið sú að menn byndust samtökum um að lesa blogg hvers annars. Ég hef reynt að gera þetta og lesa blogg bloggvina minna. Gallinn er einkum sá að það eru svo mörg önnur blogg áhugaverð líka.

Ég er hræddur um að þeir séu ekki margir sem reyna að gera sér það að reglu að lesa það sem bloggvinir þeirra hafa fram að færa. Til þess virðast bloggvinir flestra vera of margir. Einu sinni var sagt frá því hér á Moggablogginu að einhver væri kominn með hátt á annað hundrað bloggvini en þó ekki byrjaður að blogga. Þetta sannreyndi ég að var rétt.

En hversvegna í ósköpunum eru menn þá að safna bloggvinum? margir eru með myndir af þeim og þá getur þetta orðið óralöng runa. Það virðist þó ekki þurfa að hafa myndirnar og með því að hafa þær ekki verður lengdin viðráðanlegri.

Einu sinni fyrir margt löngu eignaðist ég bókina „Íslenskir málshættir". Í henni er mikill fjöldi málshátta en af einhverjum ástæðum lærði ég tvo slíka og man vel eftir þeim. Þeir voru svona: „Snælega snuggir, sögðu Finnar. Áttu andra fala." Ég er ekki viss um að allir skilji orðin í þessum málshætti. Snælega snuggir þýðir einfaldlega að það sé útlit fyrir snjókomu. Andrar eru skíði. Seinni málshátturinn er mun skiljanlegri en hann er svona: „Eigi skal bogna sagði karl og skeit standandi."

Anna í Holti skrifaði á sínu bloggi um daginn um smergelsöguna miklu svo mér ætti að vera óhætt að setja hér mína útgáfu af henni.

Já, þetta byrjaði allt með því að Einar í Holti setti ryksugumótor við gamalt smergel. Þó ég sé ekki rafmagnsfróður þá skilst mér að ryksugumótorar séu þeirrar náttúru að auka sífellt hraðann ef þeir mæta ekki mótstöðu. Venjulega er mótstaðan fólgin í loftinu sem ryksugan dælir í gegnum sig. Smergelið leitaðist hins vegar vegna þyngdar sinnar við að snúast sem hraðast.  Smergelmótorar á hinn bóginn og margir aðrir rafmótorar eru gerðir til þess að snúast á ákveðnum hraða.

Nú, nú. Smergelið snérist og snérist með sífellt auknum hraða þangað til smergelsteinninn þoldi ekki við lengur, losnaði af og yfirgaf smergelið á miklum hraða. Einar missti framan af öðrum þumalfingrinum og við lá að fleiri slys yrði. Eitt brotið af smergelsteininum virtist vegar hafa farið beina leið upp um þakið á verkstæðnu.

Ég man nú ekki eftir að hafa séð önnur verksummerki eftir þetta ævintýri en þumalfingursleysið á Einari og gatið á þakinu sem var allstórt og brotið gæti svosem hafa farið á braut um jörðu.

Svo er það frjálsíþróttamótið á Breiðabliki þar sem Erlendur í Dal fékk kringluna í hausinn.

Þegar mótið var haldið var ég að vinna í búðinni á Vegamótum. Sigurþór í Lynghaga og einhver maður með honum komu glaðhlakkalegir til mín og báðu mig að vigta nákvæmlega svarta kringlu sem þeir höfðu meðferðis. Venjulega eru kringlur þær sem notaðar eru á íþróttamótum ekki svartar heldur með viðarlit. Maðurinn sem var með Sigurþóri átti þessa forláta kringlu sjálfur. Þeir sögðu að rétt væri að vigta hana nákvæmlega því hvorki meira né minna en Íslandsmet hefði verið sett með henni fyrir stuttu síðan.

Ég man að kringlan reyndist eitthvað lítilsháttar þyngri en það sem þeir sögðu að væri lágmarksþyngd karlakringlu samkvæmt reglugerðum og voru þeir ánægðir með það.

Það var svo ekki fyrr en seinna, sem ég frétti af því að Elli hefði fengið þessa sömu kringlu í hausinn á mótinu. Annars man ég að það var hávaðrok þegar þetta var, enda svífur kringla sem kastað er á móti vindi þeim mun lengra sem rokið er meira. Engar reglur eru til um mótvind bara um meðvind.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband