25.8.2007 | 00:55
101. blogg
Ef ég mundi lesa allt sem á mínar fjörur rekur og áhugavert getur talist mundi ég ekki gera margt annað, varla hafa tíma til þess að sofa.
Fangaráðið er því að finnast sem flest lesefni ekki mjög áhugavert. Þetta ráð hef ég notað lengi og er t.d. að mestu hættur að lesa dagblöðin og steinhættur að kaupa svoleiðis rugl. Tímarit kaupi ég yfirleitt aldrei. Tek þau stöku sinnum að láni á bókasöfnum en finnst þó varla taka því. Samt sem áður safnast alltaf að manni bækur og annað lesefni í stórum stíl. Á bókasafnið fer ég reglulega, bæði Bókasafn Kópavogs og Borgarbókasafnið. Í seinni tíð er ég þó farinn að taka færri bækur að láni hverju sinni en áður. Með því móti verða sektargreiðslur lægri ef ég gleymi að skila í tíma, sem auðvitað kemur fyrir.
Fór í gær í bókaskipið og endaði með að kaupa nokkrar bækur þar. Eyddi þó ekki nema 3600 krónum. Ein bókin var svo stór að hún er hiklaust með stærstu bókum heimilisins. Geographica heitir hún eða eitthvað þessháttar. Mér finnst tilbreyting að fara á bókamarkað sem þennan. Þarna er fullt af bókum sem maður hefur aldrei séð áður, en í Perlunni finnst mér að maður sé alltaf að skoða sömu bækurnar ár eftir ár. Þar eru bækur að vísu flestar á íslensku, en þarna voru þær næstum allar á ensku.
Strákur í Hveragerði var aldrei kallaður annað en Jón bensín. Af hverju hann var kallaður það hef ég ekki hugmynd um. Eitt sinn þegar einhverjir strákar voru að rífast og kljást sagði Jón: "Verið ekki að akneytast þetta." Ég skildi þetta ósköp vel, en man að margir viðstaddir könnuðust alls ekki við sögnina "að akneytast." Mamma Jóns var ljósmóðir. Gott ef hún hét ekki Herdís.
Mamma notaði oft sagnirnar að mævængja og stígstappa sem gátu haft dálítið svipaða og ákaflega augljósa merkingu. Ég held þó að þær séu ekki í orðabókum. Mamma sagði líka alltaf kvittering en ekki kvittun og það þótti mér skrýtið.
Mamma saumaði yfirleitt öll föt á okkur. Ég veit svosem ekki með vissu hvort þannig var hjá mörgum öðrum, en ég man að mér þótti mikil upphefð í því þegar ég fékk í fyrsta sinn að fara í skólann í skyrtu sem keypt hafði verið í búð.
Ég man líka eftir því þegar ég fékk í fyrsta sinn síðbuxur sem voru keyptar í búð og gott ef það voru ekki fyrstu síðbuxurnar sem ég eignaðist. Á sama tíma var mér gefin lítil greiða sem var eins og byssa í laginu. Hún var gerð úr hörðu plasti og brotnaði fljótlega mér til mikillar sorgar, þegar ég var að veltast um á túninu heima.
Mamma var ein af þeim sem hiklaust var hægt að segja um að félli aldrei verk úr hendi. Ég man einu sinni eftir að hafa séð hana lesa í bók. Þá bók hafði ég keypt á bókamarkaði og gefið henni. Þetta var bókin Þúsund ára sveitaþorp" eftir Árna Óla, en sú bók er um Þykkvabæ og þaðan var mamma.
Kannski hef ég keypt þessa bók í Listamannaskálanum. Þar man ég fyrst eftir þeim árlegu bókamörkuðum sem enn eru haldnir við miklar vinsældir. Já, ég er víst að verða svona gamall. Ég man líka eftir því þegar brennivínsflaskan kostaði 170 krónur gamlar.
Nú rignir og kartöflugrösin í Þykkvabæ eru víst fallin. Heyrt hef ég um mann sem fluttist á suðlægari slóðir og sagði eitthvað á þessa leið þegar hann hafði verið þar um tíma: Það er alltaf sama andskotans blíðan, sólskin dag eftir dag. Engin tilbreyting í veðrinu." Kannski Bjarni geti bráðum farið að segja eitthvað svipað. Ég held samt að kuldi og frost muni heimsækja okkur hér á Íslandi þegar veturinn skellur á.
Kannski ætti maður að fara að hvíla sig á þessu bloggi. Þetta verður smátt og smátt að ávana og á endanum getur maður eflaust talið sjálfum sér trú um að þetta sé það sem lesendurnir vilja. Vel getur þó verið að það séu einkum ættingjar sem skoða þetta blogg og hlaupi einmitt yfir þessar árans hugleiðingar.
Þó ég lesi jafnan heilmikið af bloggum er því ekki að leyna að mun skemmtilegra er að skrifa þau. Einkum þegar maður er búinn að skrifa meira en 100 stykki.
Anna í Holti biður um fleiri sögur frá Vegamótum og vel getur verið að þær komi seinna. A.m.k. man ég eftir ýmsu þaðan.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.