91. blogg

 

Nú er nokkuð um liðið síðan ég bloggaði síðast og mér finnst eins og ég sé hálfpartinn að bregðast þessum fáu lesendum mínum með því að skrifa þó ekki eitthvað.

Ég er ekki tilbúinn með neitt sérstakt og læt kannski bara  nægja að segja svolítið af fjölskyldunni.

Á laugardaginn var fórum við upp í Skorradal þar sem Gunðný Rós var að gifta  sig. Athöfnin fór fram úti undir berum himni og það var sýslumaðurinn eða fulltrúi hans sem framkvæmdi vígsluna. Veislan á eftir var ágæt þó fólk þyrfti að bíða svolítið eftir kjötinu. Á eftir því var kaffi og  kökur. Það var farið að skyggja þegar við fórum af stað heimleiðis.

Ingibjörg systir var að ámálga það við mig að ég léti setja á DVD format 8 m/m kvikmyndir sem ég tók á sínum tima. Ég tók nú aldrei mikið af myndum m.a. vegna þess að ég átti aldrei almennilegar græjur og þar að auki voru filmurnar óheyrilega dýrar. Ég man samt eftir því að ég á mynd sem tekin var þegar Atli og Bjarni voru litlir og fjölskyldan bjó í húsinu Bræðraborg, sem er vestur í þorpi (Hveragerði). Þar sjást aðstoðarskólameistarinn og  þingmaðurinn leika sér í sandkassa og þegar þeim sinnast eitthvað endar það með því að meistarinn lemur þingmanninn með tilþrifum.

Bjarni er nú bráðum búinn að vera í hálfan  mánuð erlendis. Ekki getur hann þó strax farið að leita sér að vinnu. Það er samt að mér skilst nokkuð öruggt að hann fær fimm ára  dvalarleyfi, en gæti þurft að bíða eftir því í nokkrar vikur.

Benni er að koma sér æ betur fyrir í Helluvaðsíbúðinni og Jói Hafdísar er búinn að vera í eintómu basli í næstum allt sumar vegna misheppnaðrar aðgerðar á hné og sér ekki enn fyrir endann á því.

 

Þetta er nú aðallega fyrir þá sem ekki lesa kommentin. Um daginn skrifaði ég dálítið um veruna á Vegamótum. Síðan hefur svosem ýmislegt komið upp í hugann. Eitt er það sem Anna í Holti minnti mig á í kommentum við færsluna um daginn. Það var þegar við fengum Bjarna til að fara skríðandi útað Langholtsrétt og aftur til baka. Eitthvað átti hann að fá borgað fyrir þetta afrek, sem ég bjóst við að væri nánast óframkvæmanlegt. Bjarni sneri á mig að einu leyti. Ég vissi að eymsli í hnjám yrðu helsta vandamálið en Bjarni útbjó einskonar hnjáhlífar úr gúmmíi og batt þær á sig. Vegalengdin frá Vegamótum að Langholtsrétt og til baka er sennilega svona 3 - 4 kílómetrar og Bjarni mátti ekki standa upp til að hvíla sig á leiðinni og ef bílar mundu stoppa fyrir honum þar sem hann væri skríðandi í vegkantinum mátti hann bara jarma. Í sem allra stystu máli lauk þessu þannig að Bjarni kláraði sína píslargöngu og var vel að verðlaununum kominn.

Bjarni lét sér yfirleitt fátt fyrir brjósti brenna. Eitt sinn þegar við vorum í heimsókn að Velli í Hvolhreppi hjá Jóni bróður Áslaugar þá gerði hann sér leik að því að imponera krakkana á bænum með því að éta ánamaðka og flugur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Hahahaha   Ég var búin að gleyma því að hann mátti bara jarma.  Frábært !

Anna Einarsdóttir, 16.8.2007 kl. 12:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband