90. blogg

Það að blogga

 

Mig minnir að það hafi verið Erlingur Brynjólfsson á Selfossi sem eitt sinn fyrir allmörgum árum kallaði bloggið sitt svolítið yfirlætislega: "Svona á að blogga." Þá var hann safnvörður í Húsinu á Eyrarbakka og var í tiltölulega fámennum hópi manna sem bloggaði reglulega.

Nú kallar hann bloggið sitt "Ég og sú kampagráa" en í millitíðinni hét það "Fréttir úr feðgabyggð" og kannski hefur það haft fleiri nöfn í áranna rás. Núorðið skrifar hann mest um köttinn sinn eða kettina réttara sagt því sú kampagráa tók uppá því á gamals aldri að eignast eitt stykki kettling. Sonur hans er aftur á móti orðinn safnvörður í Húsinu á Eyrarbakka. Já, ég hef lesið bloggið hans samfellt í mörg ár og finnst hann skemmtilegur.

Annars er gríðarlega vinsælt að blogga um blogg. Það virðist vera um að gera fyrir bloggara að þykjast hafa vit á öllum sköpuðum hlutum. Upplagt beskeftigelse fyrir besservissera af öllum gerðum. Enda eru besservisserar fjölmennir meðal bloggara. Þeir fullyrða jafnan allan andskotann og það er sjaldgæft að vitleysurnar séu reknar ofan í þá. Þó kemur það fyrir og er verulega skemmtilegt.

Aðrar gerðir af bloggurum eru t.d. listaspýrurnar. Þeir sem á annað borð hafa gaman af að skrifa eru gjarnir á að blogga. Rithöfundar eiga oft góða spretti á blogginu. Einn slíkan rakst ég á um daginn. Jón Steinar Ragnarsson heitir hann og kannski hefur hann aldrei gefið út neina bók, en hann skrifar eins og sá sem valdið hefur. Að vísu endurnýtir hann sumar sögurnar en það er allt í lagi.

Sumir skrifa næstum ekkert nema um það hvað þeir taka sér fyrir hendur þann daginn og líta á þetta sem ofur venjulega dagbók. Svo er alls ekki. Bloggið er svo miklu meira en dagbók. Menn geta eiginlega látið bloggið vera það sem þeim sýnist. Það er mjög gaman að skrifa svona fyrir allan heiminn. Að sjálfsögðu veit ég að það eru ekki ýkja margir sem lesa þetta rövl í mér, en það er sama. Væri ég að skrifa dagbók þá mundi ég ekki reikna með að nokkur ætti eftir að lesa það. A.m.k. afar fáir. En allir munu alltaf hafa aðgang að því sem maður lætur frá sér fara á bloggi. Gúgli sjálfur tekur það meira að segja til handargagns. Það er að vísu hægt að breyta bloggi eftirá og sumir gera það, en aldrei hefur reynt á það hjá mér og ég er efins um að ég mundi treysta mér til þess. Ætli ég mundi ekki heldur reyna að skrifa mig frá því sem ég hefði áður skrifað.

Svo er náttúrlega alveg upplagt að nota bloggið sem vettvang til að láta meðlimi stórfjölskyldunnar vita hvað er að gerast svona almennt og yfirleitt. Hverjir eru að fara að gifta sig. Hverjir eru að fara til útlanda. Hverjir eru að skipta um vinnu, o.s.frv. Og það eru margir sem gera það.

Margir nota bloggið líka eins og ég, þ.e. vaða elginn viðstöðulaust um alla skapaða hluti. Það eina sem ég reyni að passa mig á er að skrifa ekki langar færslur og helst ekki margar á dag. Svo verður bara að ráðast hvað af því sem ég er að velta fyrir mér kemst á blað.

Mér finnst eðlilegt að endurminningar skipi veglegan sess í því sem ég skrifa. Eflaust eru sumir af þessum lesendum sem ég þó hef, einkum að sækjast eftir því. Ættingjar mínir sumir vilja líka eflaust fylgjast með því sem er að gerast hjá mér og mínum. A.m.k. ímynda ég mér það.

Teljararæksnið er alltaf að halda því fram að svo og svo margir hafi skoðað bloggið mitt og nefnir jafnvel fjölda IP talna í því sambandi. Mér dettur þó ekki í hug að trúa þeirri vitleysu. Meðan engir nenna að kommenta á bullið í mér þá hef ég enga trú að þeir séu margir sem lesa þetta. Ég veit um fáeina og ég er alveg ánægður með að vera að blogga fyrir þá. Og svo sjálfan mig og möppuna uppi í hillu að sjálfsögðu.

Stundum fer heilmikil umhugsun í bloggið, en stundum lítil. Sumt er auðvelt að skrifa um, en erfitt um annað. Stundum þarf ég heilmikið að snurfusa textann eftirá og stundum lítið.

Það virðist enn vera svo að moggabloggurum sé að fjölga. Ef maður lítur á nýjustu bloggin getur maður séð að alla daga bætast einhverjir við. Suma daga reyndar ekki nema svona þrír til fjórir en aðra daga allt upp í tíu eða fimmtán. Hvað verður um alla þessa bloggara? Ég geri svosem ráð fyrir að mikið af þessu sé bara eitthvert fikt,

Athyglisverð er líka færsla sem Salvör Gissurardóttir skrifar í dag um nýjung sem Morgunblaðið er að hleypa af stokkunum og digg.com.

 

Annars er ég að fara í brúðkaup á morgun. Guðný Rós dóttir Bjössa bróður er að fara að gifta sig að Fitjum í Skorradal og þangað stendur til að við förum. Þetta ætti að geta orðið ágætisferð. Langt síðan ég hef komið í Skorradalinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband