83. blogg

Um epli og kavíar.

Fyrir allmörgum árum (gæti hafa verið svona um 1990) fór ég í gönguferð eftir Laugaveginum. Já, ég er að meina Laugaveginn sem liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur.

Kannski var eitt það merkilegasta við þessa ferð að við vorum 13 saman í hóp (minnir mig endilega) og ekkert okkar hafði farið þessa leið áður. Þetta gekk nú samt allt saman vel og við komumst slysalaust á leiðarenda.

Í þessari ferð tók þátt starfsfólk af Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði og fleiri. Bróðir minn var þarna á meðal þátttakenda enda vann hann um þær mundir á Náttúrulækningahælinu og það var hann sem bauð mér með.

Árið eftir fór ég þarna aftur og í það skipti með fjölskyldu minni, systkinum, ættingjum og fleirum. Í það sinn, var það að ég held einungis ég sem hafði farið leiðina áður.

En ég ætlaði víst að skrifa um epli og kavíar. Það var í þessari ferð sem ég sá slíkar aðfarir í fyrsta sinn.

Ég held að það hafi verið við skálann í Emstrum sem ég sá þetta. Þar voru nokkrir útlendingar í hóp og þeirra á meðal stúlka um tvítugt. Hún var að borða epli sem auðvitað er ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hún hélt á opinni túpu af rauðum kavíar í annarri hendinni og eplinu í hinni.

Í hvert skipti sem hún fékk sér bita af eplinu sprautaði hún vænum slurk af kavíar á þann stað á eplinu sem hún ætlaði að bíta í. Þetta hafði ég aldrei séð áður og ákvað á stundinni að þetta þyrfti ég einhvern tíma að prófa. Einkum með hliðsjón af því að ég er þónokkuð fyrir kavíar í túpum.

Í öll þessi ár sem liðin eru, síðan þetta var, hefur þetta atvik staðið mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, en samt hefur ekki orðið úr því að ég prófaði þetta.

Þangað til fyrir fáeinum dögum. Þá vildi svo heppilega til að ég var með epli í annarri hendinni og kavíartúpu í hinni og mundi þá eftir þessu atviki.

Svona geta nú litlir hlutir kallað á langt mál og lítt merkilegar sögur spannað langan tíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband