57. blogg

Jæja, þá er ég byrjaður að blogga, segir einn af nýjustu Moggabloggurunum.

Þetta eru skondin ummæli, því Egill Helgason er einn af þekktustu bloggurum landsins og hefur bloggað árum saman. En nóg um það.

Á Morgunblaðsvefnum var í gær skýrt frá því að Konungsglíman hefði verið rifjuð upp á Þingvöllum.

Frá því er sagt í ævisögu Jóhannesar á Borg að Lárus Rist (sem lengi var sundkennari í Hveragerði) og fleiri hafi í árdaga Ungmennafélags Akureyrar í byrjun tuttugustu aldar stigið á stokk og strengt heit. Lárus mun hafa strengt þess heit að synda yfir Eyjafjörð (sem hann og gerði) Einhver ónafngreindur á að hafa stigið þar á stokk og strengt þess heit að verða 100 ára gamall eða liggja dauður ella.

Minnugur þessa strengdi Jóhannes þess heit að sigra í konungsglímunni árið 1907eða heita minni maður ella. Það var Hallgrímur Benediktsson sem vann eftirminnilegan sigur í konungsglímunni og  Jóhannes var lengi eftir þetta kallaður Jóhannes minni maður.

Annars var konungskoman árið 1907 um margt  merkisatburður. Í tilefni af henni var svokölluð "Konungsbrú" gerð yfir Brúará til að kóngur gæti séð merkisfyrirbrigði það sem Geysir nefnist. Ruddur var sérstakur vegur frá konungsbrú að Geysi og sér hans enn stað. Brúin stendur einnig  ennþá og er nokkrum kílómetrum ofar við ána en brúin er yfir hana þar sem þjóðvegurinn er núna.

Fyrir fáeinum árum var ég á þessum slóðum og fór meðal annars  um "Konungsveginn" svokallaða sem nú er aðeins notaður sem reiðgata. Við dvöldum í sumarhúsi á þessu svæði og vegurinn þangað lá yfir konungsveginn.

Daginn eftir að ég lagði  leið mína þarna um rakst ég á japanskan ferðamann á rangli um veginn að sumarhúsinu. Hann spurði um konungsveginn og sýndi mér kort þar sem hann var merktur inn á. Þegar ég sýndi honum hvar vegurinn var ætlaði hann ekki að trúa mér, því ekki sáust  mikil merki um hann í landslaginu þar sem við vorum.

 

UM NETÚTGÁFUNA

Þó margir virðist álíta að það sé tiltölulega nýtilkomið að bækur séu gefnar út á Netinu, fer því fjarri að svo sé.

Það var árið 1971 sem Project Gutenberg hóf starfsemi sína og þó hægt hafi gengið til að byrja með, er það magn bóka sem nú er gefið út á vegum Gutenberg gríðarlega mikið.

Eins og mörgum er kunnugt gefur Gutenberg út bækur, sem ekki er lengur virkur höfundarréttur á, í tölvutæku formi á Netinu og eru þær tiltækar hverjum sem er án endurgjalds. Margir leggja þar hönd á plóg og eru tugir ef ekki hundruð bóka á ensku og ýmsum öðrum tungumálum gefin út í hverjum mánuði.

Uppruna Netútgáfunnar má má rekja til ársins 1990, en þá ákvað sonur minn að slá Bandamannasögu inn á tölvuna sína. Það gerði hann einkum til að æfa sig í fingrasetningu. Bandamannasögu var síðan dreift með efni sem við dreifðum á vegum PC-tölvuklúbbsins. Þar var einkum um að ræða Shareware leikjaforrit og ýmislegt þessháttar.

Árið 1992 tók vefsetrið Runeberg til starfa og einbeitti sér að útgáfu norrænna rita með svipuðum hætti og Gutenberg gaf út enska texta. Fljótlega sendi ég Bandamannasögu til Runeberg og nokkru seinna sló dóttir mín Hafdís Rósa Grænlendingasögu og Grænlendingaþátt inn á tölvu og þær sögur voru einnig sendar til Runeberg.

Framhald síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband