58. blogg

Ég man vel eftir fyrsta bílnum sem ég eignaðist. Við Vignir keyptum hann saman af Gunnari í Álfafelli. Þetta var Wolkswagen bjalla model nítján hundruð fimmtíu og eitthvað. Afturrúðan var ekki tvískipt eins og á fyrstu módelunum en hann var með teinabremsum. Það var vegna þess að hann var framleiddur til innanlandsnota en ekki útflutnings. Um þetta leyti voru vökvabremsur komnar í flesta bíla.

Ætli þetta hafi ekki verið 1962 eða svo. Við borguðum 72 þúsund krónur gamlar fyrir þennan eðalvagn. Fyrst var rætt um 70 þúsund en þegar Gunnar sagði að einhver annar hefði viljað kaupa hann á það hækkuðum við tilboðið um heilar tvöþúsund krónur.

Seinna meir keypti ég hlut Vignis í bílnum og eftir árekstur var bíllinn sprautaður beige-litur en hafði upphaflega verið grár.

Vignir var næstum kominn útaf á bílnum í fyrsta sinn sem við fórum í reynsluakstur á honum. Hann gleymdi að rétta bílinn af þegar hann beygði inn á Breiðumörkina eftir að við höfðum farið í smáferðalag upp í Kamba.

Eitt sinn tók ég eftir því á Selfossi að loftlítið var orðið í einu dekki undir bílnum. Ég tók mig þá til og bætti lofti í dekkið, en það hefur eflaust verið of mikið, því það var eins og ég væri kominn á járnhjól þegar ég keyrði af stað.

Þennan bíl átti ég í nokkur ár. Yfirleitt keyrði ég hann með bensínið í botni enda var vinnslan ekki mikil. Þegar best lét tókst mér að koma honum í svona 120 á beinum og breiðum vegi. Athuga ber að á þessum tíma voru allir þjóðvegir malarvegir.

Næsti bíll sem ég eignaðist var Moskovits og hann keypti ég 1969 eða 1970 skömmu áður en við fluttumst á Snæfellsnesið.

 

UM NETÚTGÁFUNA (framhald)

Á árunum 1993 og 1994 gaf ég út tímaritið Rafritið sem var einkum merkilegt fyrir þá sök að það var næstum aldrei prentað út, heldur aðeins dreift sem tölvuskrá. Rit þetta er að sjálfsögðu að finna á vef Netútgáfunnar. (www.snerpa.is/net)

Á árunum 1994 til 1996 var unnið að undirbúningi Netútgáfunnar og var það einkum dóttir mín Hafdís Rósa sem það gerði. Hún átti einnig hugmyndina að nafninu. Upphaflega ætluðum við okkur að koma Netútgáfunni á fót í samstarfi við Ísmennt, sem var eitt af allra fyrstu Internetfyrirtækjum landsins. En um þetta leyti var skipulagi þess fyrirtækis breytt og ákveðið að það yrði eingöngu fyrir skóla landsins.

12. janúar 1997 tók Netútgáfan til starfa. Internetfyrirtækið Snerpa á Ísafirði sem Björn Davíðsson rak þá, veitti okkur netaðgang og netpláss eftir þörfum án endurgjalds. Nútildags þykir ekki mikið að hafa aðgang að nokkrum tugum megabæta á Netinu en á þessum tíma var það nokkurs virði.

Þegar Netútgáfan hóf starfsemi áttum við orðið í fórum okkar 4 íslendingasögur, 5 fornaldarsögur Norðurlanda, ýmis fornkvæði, Rafritið allt, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og einar 8 þjóðsögur.

Ég man að 16. nóvember (á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar) árið áður en Netútgáfan hóf starfsemi sína var heilmikið húllumhæ og stofnað til svokallaðs dags íslenskrar tungu. Það munaði ekki miklu að við værum tilbúin með að starta Netútgáfunni þá, en það tókst ekki alveg.

Allan þann tíma sem Netútgáfan starfaði, gáfum við út eitthvert efni um hver mánaðamót. Stundum meira og stundum minna eins og gefur að skilja. Meðal verka sem komu út á þessu tímabili má nefna: Biblíuna (í samstarfi við Hið íslenska biblíufélag) Njáls sögu og mikinn fjölda íslendingasagna og ýmissa fornrita, Pilt og Stúlku og Mann og Konu efir Jón Thoroddsen, Höllu og Heiðarbýlið og raunar mikið af verkum Jóns Trausta, en hann dó eins og kunnugt er, langt um aldur fram í spænsku veikinni árið 1918. Passíusálmana, Ljóðasafn Jónasar Hallgrímssonar og svo mætti lengi telja.

Framhald síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband