3.2.2024 | 09:18
3198 - +Isak
Nú er að því komið að ég þarf eiginlega að byrja á bloggskrifum. Veit samt ekkert um hvað ég muni skrifa.
Það var þann nítjánda apríl 2015 sem Ísak Harðarson (eða einhver sem kallaði sig það) birti á Facebook eftirfarandi ljóð:
MINN HEIMUR HRUNDI LÖNGU ÁÐUR
(Tileinkað Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Geir Haarde
og þeim öflum sem hafa skapað þau og þau þjóna).
Minn heimur hrundi löngu áður:
strax við fæðingu tók við mér sundrað líf,
foreldrar ekki til staðar nema sem dauðar myndir,
engar vonir og væntingar, engar elskandi hendur
og augu, ekkert hjarta sem sló fyrir mig, engin
framtíð lá fyrir barninu í vöggunni á fæðingardeildinni.
Allt frá upphafi var ég aðskotahlutur, tákn
um mistök, brostna drauma, ég var einhver
sem þvældist fyrir, áminning um hræðilegt klúður,
óafmáanlegt merki um sneypu, örlítill púki
sem átti ekki að vera til líkast til kominn
beint úr sjálfu helvíti.
Þannig að þegar hrunið varð hálfri öld síðar,
þá hrundi í mínu tilfelli maður sem hafði fæðst sem rúst
og reynt öll þessi ár að verða að einhvers konar byggingu;
ef ekki höll, ef ekki státið einbýlishús í einhverju úthverfi
nálægt sjónum, ef ekki lítil blokkaríbúð í Breiðholti
með drapplitum gluggatjöldum og nafnskilti á hurðinni
Ísak Harðarson, eiginkona og börn
þá að minnsta kosti leiguherbergi, kjallaraskonsa með þeim
lágmarkstengslum við lífið sem fást með rennandi vatni
úr krana og útsýni út í heiminn um ódýrustu sjónvarpsstöðvarnar,
annars að minnsta kosti samþykktur hundakofi,
og ef ekki einu sinni það, þá síðasti úrkosturinn:
leyniafdrep hins smæsta í forsal hinnar komandi Paradísar.
Hrunið ykkar rústaði mig til fulls.
Þeir sem stuðluðu að því hafa í rauninni maskað endanlega
líf, sjálfsvirðingu og framtíðarvonir margra fyrir fullt og allt
og þurfa að borga fyrir með því að taka við sendiherrastöðum,
skipta um starfstitla, flytjast úr einni höllinni í aðra,
til þess að geta haldið áfram að græða sjálfsvirðinguna á daginn
og grilla á kvöldin í félagsskap djöfulsins í helvíti.
Veggir þeirra, eyru og hjörtu eru eilíflega einangruð
fyrir sálarkvölum þeirra sem þau lögðu endanlega í rúst,
á meðan fjármálakerfið þeirra endurreisir sig smám saman
eins og svartur djöfull sem sperrir hægt en ákveðið út eiturvængi sína
og gerir sig kláran til sprengjuflugs yfir næfuþunnan heim mannanna.
Ísak Harðarson 19. Apríl 2015 Fésbók.
Af einhverjum ástæðum svaraði ég þessu ljóði nokkrum dögum seinna, þannig:
ÉG VEIT EKKI NEITT
Auðvitað má margt um Hrunið segja.
Sumt verður þó aldrei sagt. Sumir þegja sem fastast.
Einhverjir töpuðu aleigunni, aðrir talsverðu.
En ég bjargaðist.
Verðum við smáfuglarnir ekki að hugga okkur við það
Að hamingjan er ekki fólgin í rúmgóðum bílskúrum, sem aldrei kemur bíll inn í
Og tvöföldum gasgrillum?
Eigum við ekki bara að sætta okkur við að peningalegum verðmætum er stolið af okkur jafnharðan.
Hvað er það sem aðskilur einskisvert líf og það sem verðmætara er? Eru þeir einskisverðari sem drukkna í Miðjarðarhafinu eða eru nægilega ólíkir okkur til að vera einskisverðir?
Hvað þá með Balkanskagastríðin fyrir skemmstu?
Er allt líf jafnmikils virði? Bæði mannlegt og dýrslegt? Jafnvel kjúklingalegt? Eða plöntulegt og skordýralegt?
Veit það ekki.
Sæmundur Bjarnason 26. Apríl 2015 (eftir að hafa lesið ljóðið hans Ísaks Harðarsonar)
Mig minnir að við höfum skipst á einhverjum tölvupósum í tilefni af þessu og að þar hafi það komið fram að ekki yrði þetta ljóð geymt. Samt hef ég haldið uppá þetta.
Á þessum tíma voru margir uppteknir af Hruninu og ekki að ástæðulausu. Sárin sem það skildi eftir munu seint gróa og kannski aldrei, frekar en þau áföll sem við Íslendingar höfum orðið fyrir, gegnum tíðina. Þó erum við heppin samanborið við marga aðra. En þetta blogg er orðið nógu langt (kannski of) og því er skást að hætta.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.