3194 - Sætsúpan köld

Þegar ég var í skóla, fyrir svona sjötíu árum, var alltaf safnast saman á ganginum uppi á lofti og sungið. Að sjálfsögðu söng ég ekkert, enda vita laglaus. Textana lærði ég samt, því ég átti á margan hátt létt með að læra og fékk venjulega fremur háar einkunnir.

Söngur allur og hverskonar tónlist hefur samt verið mér alla tíð að mestu lokuð bók. Um það ætlaði ég ekki að fjölyrða hér, heldur um textana.

Man að ég hreifst allnokkuð af einföldum og skiljanlegum textum Þorsteins Erlingssonar einsog t.d. þessum:

Heyrðu snöggvast Snati minn
snjalli vinur kæri.

Óþarfi hinn mesti þótti mér samt hjá höfundinum að vera að blanda jólunum í þetta, því mér fannst „jólakaka“ bara vera jólakaka og ekkert koma jólunum við. Þannig var það á mínu heimili að jólakökur voru á boðstólum jafnt á helgidögum sem rúmhelgum dögum.

Eitt af þeim kvæðum sem við sungum á loftinu undir stjórn Hróðmars Sigurðssonar var þannig að í miðju kvæðinu voru þessar ljóðlínur:

Var það útaf ástinni ungu sem ég ber
eða var það feigðin sem kallaði að mér?

Þetta með feigðina olli mér miklum heilabrotum. Auðvitað vissi ég mætavel hvað feigð þýddi en við okkur krakkana var aldrei rætt um dauðann og af þessu fékk ég þá hugmynd að svokölluð ást væri stórhættuleg. Eimir jafnvel enn eftir af þessum skilningi.

Annars var það einskonar íþrótt hjá okkur strákunum að snúa útúr vinsælum kvæðum og dægurlagatextum. Ég man t.d. eftir þessum:

Nú blikar við sólarlag sætsúpan köld.

Eða:

Í vor kom ég sunnan með sólskin í nýra
og þambaði á leiðinni hálfflösku af spíra.

Og

Hvað er svo glatt sem góðtemplarafundur.....o.s.frv.

Nú er best að hætta, því ég er víst kominn á vafasamar slóðir.

IMG 3540Einhver mynd.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband