3095 - Ýmislegt

Í gær skrifaði ég svolítið um Talibana. Sennilega er ég talinn hægri sinnaður og draga taum þessara ofbeldismanna og vera þar að auki efasemdarmaður í loftslagsmálum. En mér er alveg sama. Mér finnst ég þurfa að skrifa um alþjóðastjórnmál, frekar en eitthvað annað. Íslensk stjórnmál þykja mér vera smáskitleg. Með þessu er ég að sjálfsögðu að setja mig á háan hest, sennilega án þess að hafa efni á því. Það er samt ágætt að geta fabúlerað óáreittur og þó fáir leggi í að svara þessu rugli í mér eru samt ótrúlega margir sem leggjast svo lágt að lesa þessi ósköp.

Enn og aftur eru amerískir (les: bandarískir) fjölmiðlar teknir að hampa Trump. Eðlilegt er að gagnrýna Biden bandaríkjaforseta, en satt að segja er mér alveg sama hvernig fólk er drepið. Hvort sem hermenn eru drepnir eða saklausir borgarar með sprengjum og aðgerðin kölluð stríð, eða að sjálfsmorðssprengjufólk og Talibanar vaði uppi álít ég að um morð sé að ræða ef fólk er drepið á þennan hátt, og geri ekki ráð fyrir að þeir sem fyrir þessu verða, greini þar á milli. Gagnrýnin á Biden beinist fyrst og fremst að því að fólk hafi ekki verið drepið á réttan hátt. Eðlilegra er talið að drepa fólk öðruvísi. Afskiptasemi um innanríkismál hefur oft verið fordæmd. Ef meirihluti Afgana vill að ofsatrúarmenn stjórni á að leyfa þeim það. Öfgamenn í trúmálum og ýmsu öðru eru víða við völd.

Kosningalög eru stórgölluð hér á Íslandi. Ekki nóg með það að kosningarétturinn sé misjafn eftir því hvar búið er, heldur borga flokkarnir sjálfum sér fyrir að vera til. Þeir stærstu fá jafnan mest. Með öllum þessum smáflokkum gætu líka 25 til 30 prósent þeirra sem þó greiða atkvæði orðið algerlega áhrifalausir. (Til hvers er annars að greiða atkvæði?) Fleira mætti telja svipaðs eðlis. En svona vilja „stóru“ flokkarnir hafa þetta og erfitt er að gera öllum til hæfis í þessu sem öðru.

IMG 4393Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband