3088 - Litast um á pokasvæðinu

Sé að ég hef gleymt einu litlu a-i í fyrirsögninni á síðasta bloggi. Kannski er fyrirsögnin ekkert lakari fyrir það. Nenni að minnsta kosti ekki að leiðrétta þetta. Nú er ég semsagt kannski búinn að fá einhverja til þess að lesa vandlegar það sem ég skrifa og þá er ekki til einskis barist. Annars er það undarlegt með mig að ég skuli oftast vera í mesta bloggstuðinu um leið og ég set það síðasta á sinn stað.

Kosningarnar er sagt að verði í september. Ætli ég kjósi ekki Píratana eins og venjulega. Annars er ekkert venjulegt í þessu sambandi, því að Píratagreyin hafa ekki verið til sem flokkur mjög lengi og ekki haft sömu tækifæri og aðrir til svindilbrasks. A.m.k. var það mamma hennar Birgittu sem átti heima vesturfrá þegar brann heima og ég var svona 9 ára gamall og Bergþóra jafnvel yngri.

Kannski kosningunum verði frestað vegna Covid eins og svo mörgu öðru. Covidið gæti svo sannarlega breytt miklu varðandi kosningarnar. Ætli það sé ekki öll stjórn farin á þessari super-flensu sem grasserað hefur bæði hér og annarsstaðar að undanförnu. Hugsanlega verða það einvörðungu stóru lyfjafyritækin sem græða á þessu öllu saman. Og auðvitað stórveldin Kína og Bandaríkin. Eru annars fleiri stórveldi til? Hver veit nema Kata og Bjarni ákveði að hætta með öllu við þessar ónauðsynlegu kosningar og taki bara Trump-inn á þetta.

Nú er ég einu sinni enn byrjaður á „intermittent fasting“. Það reyndist nokkuð vel í fyrra. Í byrjun Covid, en ég hætti um síðustu áramót og fór að éta eins og svín. Að þessu sinni breytti ég svolítið tímasetningum frá því sem áður var, en það ætti ekki að valda stórkostlegum vandræðum. Á jafnvel von á að léttast talsvert.

Þó ég versli oft við Bónus hér á Akranesi reyni ég alltaf að sneiða hjá pokasvæðunum. Ég er nefnilega svo gamall að mér finnst betra að láta starfsfólkið vinna vinnuna sína. Auðvitað er ekki sjálfsagt að starfsfólkið fái ekkert að hvíla sig. En er sjálfsagðara að eigendur búðarinnar græði sem allra mest? Kannski eru allar aukakrónurnar notaðar í það að hafa vörurnar sem ódýrastar. Þetta er, sýnist mér, heimspekilegt vandamál, sem gott væri að fá ráðningu á.

IMG 4647Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband