3071 - Laugargerði

Einu sinni var ég prófdómari við Laugargerðisskóla á Snæfellsnesi. Þar var bannað að brúka tyggjó. Ég man að ég reifst við Friðrik skólastjóra um þetta bann. Mér þótti það mesti óþarfi. Hann vildi hinsvegar halda því fram að með þessu væri krökkunum haldið frá ýmsu sem verra væri. Nú er svo komið að ég mundi sennilega fallast á rök skólastjórans hvað þetta snertir. Að sumu leyti eru þetta sömu sjónarmiðin og eru varðandi neysluskammtana á eiturlyfjum. Það veldur mikilli úlfúð á Alþingi. Ég er samt ekki að halda því fram að þetta sé með öllu sambærilegt. En svolítið skylt er það.

Hér (að minnsta kost úti á svölum) er komið sumar. Hitinn er mikill þar og ef ekki væri hægt að opna yrði alltof heitt. Svo er allt að grænka hér. Grasið og fleira. Aspartrén eru þó lítið farin að laufgast. Sennilega hefur ekkert næturfrost gert hér undanfarnar nætur.

Áslaug er búin að klippa mig eftir kúnstarinnar reglum og mætti sennilega segja að ég væri sveinstykkið hennar að því leyti. Áður en við förum í reisuna í næsta mánuði er eins gott að vera búinn að æfa sig svolítið.

Ég var andvaka í nótt, eins og venjulega. Áður en að því kom, dreymdi mig allskonar vitleysu. Fannst ég vera í einhverju partýi, þar sem mikið var drukkið. Bílferðir voru útum allar trissur og þessháttar því tilheyrandi og mikið sem gekk á.

Sagt er að Trump-flokkurinn (sem líklega er Repúblikanaflokkurinn) sé að undirbúa valdatöku í Bandaríkjunum árið 2024. Ennþá held ég að enginn hafi látið í ljós efa um að Dónaldurinn geti boðið sig fram þá. Satt að segja held ég að það geti verið tvíeggjað sverð fyrir hann að bjóða sig fram aftur þá. Jafnvel repúblikanar kynnu að vera búnir að fá leið á honum um það leyti. Fjölyrði ekki meira um hann núna. Er ekki þess virði.

IMG 4868Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband