Ég skal alveg viðurkenna það að ég hef verið latur við bloggskrif undanfarið. Ég er meira og minna að segja skilið við flesta fjölmiðla. Mér leiðast þeir. Það er helst að ég hlusti á fréttir og reyndar stundum fleira en það í útvarpi og sjónvarpi. Fréttablaðið fletti ég oft í gegnum, les samt fremur lítið þar. Flakk um lendur Internetsins hugnast mér oft sæmilega. Fésbók lit ég næstum aldrei í og bloggið hefur orðið talsvert útundan hjá mér. Bækur af ýmsu tagi safnast af einhverjum ástæðum að mér og sumar þeirra les ég. Les samt mest í Kyndlinum minum. Af bloggveitum að vera fellur mér einna best við Moggabloggið. Ég veit hverju er að búast við hjá mörgum þar og gott er að vera þar. Til dæmis kom mér það mjög á óvart að ég skuli enn vera Stórhaus þar og meðal 50 efstu þar um slóðir ennþá, þó ég skrifi afar sjaldan.
Fésbók og síminnn hefur mjög sterk tök á fólki. Einu sinni var það sjónvarpið,
Helst var ekki hægt að gera neitt nema á fimmtudögum. Sennilega hefur þetta
verið svipað þegar útvarpið byrjaði. Þá skilst mér að hafi verið hlustað með mikilli andagt. Þó ég sé nú farinn að eldast man ég ekki eftir því persónulega.
Fyrir nokkru tók ég uppá þeim óskunda að semja smásögur og birta þær í blogginu minu. (það var Jens Guð sem gaf með hugmyndina) Hugmyndin var að lengja bloggin hjá mér svolítið. Samdi eina slíka rétt áðan og læt hann flakka, en ómerkileg er hún. Ætti sennilega að vera jákvæðari og segja hana snilldarverk. En svona er hún:
Það var nú svoleiðis með hann Jón á Engi að hann svaf eiginlega ekki neitt. Um túnasláttinn tók hann söguhetjuna í Sjálfstæðu Fólki sér til fyrirmyndar og lagðist ofan á sátuna eða galtann sem um var að ræða og gætti þess að vera sem næst brúninni. Hann var varla búinn að loka augunum þegar hann bylti sér og datt niður og glaðvaknaði við það. Milli Túnaslátta notaði hann aðra aðferð. Þegar hann lagðist upp í rúm á eftir öllum öðrum glaðvaknai hann um leið og hann lagðist útaf. Það var helst að hann festi blund yfir sjónvarpinu, ef fréttirnar voru nógu leiðinlegar. Sem betur fer voru þær það oft, annars hefði Jón ekkert getað sofið. Að fréttunum loknum fékk Jón sér oftast kaffi og flóaða mjólk, ásamt þvi að hann bruddi svefntöflur ótæpilega. Læknistuskan var samt eitthvað á móti því að hann notaði svona mikið af svefntöflum.
Einu sinni um miðja nótt, þegar Jón var andvaka eins og venjulega tók hann eftir að ófreskja nokkur nálgaðist bæinn eftir nýræktinni. Honum leist fremur illa á óvættina en verra þótti honum að sjá að trakað væri á nýræktinni. Svo hann fór út og gekk á móti draugnum og hundskammaði hann. Uppvakninurinn varð skíthræddur við Jón bónda enda var hann á brókinni einni klæða og ekki frýnilegur. Fór hann þessvegna undan í flæmingi og fór eftir gömlu túni á bakvið Jón. En áleiðis að bænum hélt hann og lét ekkert stöðva sig.
Þegar afturgangan kom að bæjadyrunum fór hún rakleiðis inn og flýtti sér mjög. Þegar Jón bóndi kom að bæjardyrunum skömmu seinna fór hann snimmhendis inn í bæjargöngin og lokaði bæjardyrunum sem best hann gat á eftir sér. Því hann ætlaði svo sannarlega að taka í lurginn á draugsa, en þegar hann kom í baðstofuna var draugurinn á leiðinni út um ljórann. Því hafði Jón ekki reiknað með og gat með engu móti farið á eftir honum.
Ekki virtist afturgangan hafa gert neinn óskunda í baðstofunni, en búið var að kveikja á sjónvarpinu og stilla það á nýlega hryllingsmynd sem líklega hefur verið ætlunin að horfa á. Jón mundi ekki eftir því að hafa verið búinn að kveikja á sjónvarpinu, en ákvað samt að horfa á þessa hryllingsmynd sem búið var að velja. Hann varð svo skelkaður við það sem skeðí á hvíta tjaldinu að hann fór beina leið í rúmið og breiddi yfir höfuð.
Sofnaði síðan og bar ekki á þessum lasleika hans eftir þetta.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.