3048 - Navalny

Sagt er að Navalny muni snúa aftur til Rússlands næstkomandi sunnudag. Þetta er dálítið vandræðalegt fyrir Putin sem þarf að fara í gegnum kosningar í sumar og má hugsanlega ekki við miklu. Ég held nú samt að hann láti handtaka Navalny og setja í nægilega langt fangelsi til þess að hann geti ekki farið í framboð. Líklega hefur Putin vonað að hann kæmi ekkert aftur. Fróðlegt verður að sjá hvernig þetta fer.

Flestir virðast vera mjög uppteknir af því hvað muni gerast í bandaríkjunum á miðvikudaginn kemur. Þá er víst sá tuttugasti og Biden verður settur í embætti þá. Mitt hald er að þá gerist hreint ekki neitt, nema náttúrulega það sem allir vita að muni gerast. Þessa dagana virðist lítið heyrast frá Trump. Hann er sennilega að velta enn fyrir sér náðunum og þessháttar. Svo er hann vís til þess að setja auknar takmarkanir á Íran og líklegt verður að telja að Biden eigi í erfiðleikum með að afturkalla þær. Atburðir þeir sem gerst hafa undanfarna daga í bandaríkjunum verða varla til að auðvelda Biden embættisstörf sín. Þó árásin á þinghúsið komi Trump eflaust illa er ekki víst að Biden græði neitt á henni.

Sumir virðast halda að Trump hafi bara tapað í forsetakosningunum vegna kórónuveirunnar. Þetta er alrangt. Hver og einn af þeim sem til greina komu í kapphlaupinu um útnefningu demókrataflokksins hefði leikið sér að því að sigra Trump. Með eða án kórónuveirunnar. Sumir í stjórn Demókrataflokksins héldu þó að Biden hefði meiri möguleika en Sanders. Sjö eða átta milljónum fleiri atkvæði fékk hann vissulega og kannski höfðu þeir rétt fyrir sér. Bernie Sanders var manna ólíklegastur til að sigra Trump. Hann var og er hugsanlega of vinstri sinnaður fyrir almenning í þessari heimsálfu. Af hverju segi ég að engin furða sé þó Trump hafi tapað? Jú, ekki er með neinu móti hægt að gera ráð fyrir því að hann hefði fengið fleiri atkvæði þó mótframbjóðandi hans hefði verið annar. Ekki er líklegt að aðrir hefðu kosið hann en brjálaðir Trumpistar og nokkuð margir Repúblikanar. Athuga verður að þeir eru samkvæmt öllum skoðanakönnunum miklu færri en Demókratar í bandaríkjunum.

Þó bloggin hjá mér séu sífellt að styttast er það ekki vegna þess að ég sé orðinn skoðanalaus. Því fer fjarri. Á bara dálítið erfitt með að söðla um og hætta að skrifa um fréttir. Sennilega er ég einn af þeim fáu sem enn horfi á línulega dagskrá í sjónvarpinu. Að vísu horfi ég aðallega á fréttir, Kiljuna og Gísla Martein. Horfði á sínum tíma líka á Útsvar. Spurningaþættir hverskona höfða svolítið til mín. Til dæmis horfði ég á þáttinn sem Bragi Valdimar Skúlason stjórnaði ásamt einhverri konu sem ég kann nú ekki nafnið á. Kannski ætti ég að taka upp einskonar sjónvarpsgagnrýni hér á blogginu. Þó ég hafi unnið all-lengi á Stöð 2 er ég ekki áskrifandi að þeirri stöð og horfi aldrei á hana. Kannski væri það fulllítið að skrifa bara um þá fáu þætti sem mér þóknast að horfa á á ríkisstöðinni.

IMG 5073Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Næstum dauður Navalní,
nagar sínar neglur,
stungið verður steininn í,
strekktur þar á steglur.

Þorsteinn Briem, 16.1.2021 kl. 09:48

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þetta er reyndar ofstuðlun. cool

Þorsteinn Briem, 16.1.2021 kl. 10:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband