3022 - Trump og Biden

Ruglandi skammstafanir. ÖSE er það venjulega kallað á íslensku. Og á að þýða Öryggis og samvinnustofnun Evrópu. Á ensku er þessi stofnun yfirleitt kölluð OSCE (Organization for Security and Co-operation in Europe) Þetta eiga auðvitað allir að vita, þó er ekki víst að allir geri það. A.m.k. hefur þetta stundum vafist fyrir mér. Alls ekki er hægt að ganga út frá því að allar skammstafir séu íslenskaðar með þessum hætti. Til dæmis veit ég ekki til að nafn stofnunarinnar NATO (North Atlandic Treaty Organization) sé íslenskað með þessum hætti. Svipað er að segja um Alþjóða Gjaldeyrissjóðinn og Amerísku Geimferðastofunina og eflaust margar fleiri stofnanir og samtök. Íslenskir blaðamenn ætlast stundum til að lesendur þeirra séu sérfræðingar í skammstöfunum. Svo er þó ekki. Hjá vönduðum erlendum blöðum er skammstöfun yfirleitt útskýrð í sem allra stystu máli í byrjun greina sem fjalla um þessar stofnanir. Það mættu íslenskir blaðamenn einnig gera. Sjálfsagt yrðu sumir leiðir á því að fá mjög oft sömu tugguna, en við því er ekkert að gera. Þeir skilnings-sljóu eiga líka sinn rétt.

Hef greinilega verið byrjaður á bloggi um daginn og er að hugsa um að láta þessa byrjun halda sér. Hinsvegar er nokkuð langt síðan ég bloggaði síðast svo það er kominn tími til að ganga frá þessu. Þar að auki eru Bandarísku forsetakosningarnar mjög að nálgast svo það er að verða hver síðastur með að spá um úrslit þar. Ég er ekki að hugsa um að breyta neitt spá minni um það að Biden muni sigra. Held meira að segja að sigur hans verði nokkuð öruggur og að Trump nuni viðurkenna ósigur sinn vandræðalaust og þessar kosningar verði ekki eins sögulegar og sumir búast við.

Segja má að Trump hafi allt kjörtímabilið verið að vinna að þessum ósigri sínum. Jafnvel er hægt að halda því fram að hann verði úrslitunum feginn. Hafi raunar ekki einu sinni búist við því sjálfur að sigra fyrir fjórum árum síðan. Hann mun því bætast í hópinn með Bush eldri og Carter sem eins tímabils forseti núna á seinni árum. Eins og Bush hefur sína afsökun fyrir þessu í Ross Perot og Carter í gíslatökunni í Teheran hefur Trump sína afsökun í Covid-19 faraldrinum. Kannski hefur samt ekkert af þessu haft úrslitaáhrif. Að minnsta kosti vil ég álíta að grunnurinn að ósigri Trumps felist í skapgerð hans sjálfs, öðru fremur.

Miðað við hve langt er síðan ég bloggaði síðast er ekki líklegt að ég bloggi frekar um Trump og ættum við báðir að vera nokkuð ánægðir með það. Ekki er samt líklegt að ég frétti af ánægju Trumps, enda má segja að vandræðalaust sé að spá á sama hátt og flestar skoðanakannanir gera. Þeir sem varkárastir eru hafa samt einhvern fyrirvara á því að spá Biden sigri, en það geri ég ekki. Hef heldur ekki úr háum söðli að detta því eflaust taka ekki margir mark á þessu.

IMG 5398Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þegar undirritaður var blaðamaður á Mogganum var fullt heiti skrifað fyrst í frétt ásamt skammstöfuninni í sviga og hún notuð eftir það í fréttinni. cool

Dæmi: Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE), Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS), Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS).

Þegar fullt heiti er skrifað á hins vegar ekki að skrifa Öryggis- Og Samvinnustofnun Evrópu, Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn og Samband Íslenskra Samvinnufélaga.

Íslenskar stafsetningarreglur eru ekki eins og þær ensku í þessum efnum.

Þar að auki á að skrifa "íslenskur" en ekki "Íslenskur" og "bandarískur" en ekki "Bandarískur".

Hins vegar eru þetta ekki svokallaðar "íslenskar" gæsalappir en þær eru nú orðnar verðmæt útflutningsvara. cool

Ekki á heldur að byrja setningu eða málsgrein á tölustöfum en sú regla er ekki lengur í heiðri höfð í íslenskum fréttaskrifum og viðurlög við því ættu að sjálfsögðu að vera hjól og stegla.

Í bloggskrifum sínum setur Ómar Ragnarsson alltaf punkt á eftir fyrirsögn og viðurlögin ættu að vera tveggja ára fangelsisvist með reynslulausn eftir eitt ár. cool

Breyta á lögum um mannanöfn hér á Íslandi, enda fer Alþingi fyrr eða síðar eftir öllu sem undirritaður leggur til, sem engum ætti að koma á óvart.

Ómar Ragnarsson situr hins vegar eftir með sárt ennið og bossann eftir allar flengingarnar. cool

Þorsteinn Briem, 2.11.2020 kl. 14:30

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þú ert nú dálítið einstrengingslegur og dómgjarn, Steini minn. Kannski hefur þú alveg efni á því. Feitletrunina mættir þú alveg spara svolítið, svo ég finni nú einnhvað að.

Ómar Ragnarsson var reiður og rak þig í burtu. Ekki láta það samt stjórna öllu sem þú gerir.

Hvað mannanöfnin snertir mætti skrifa margt og mikið um þau. Breytingin sem Lilja boðar er ekki eingöngu af því góða.

Það eru þar að auki engin lög til um það hvernig réttritun á að vera. Auðvitað reyna flestir að skrifa þannig að sem flestir skilji, en þar fyrir utan mega menn auðvitað skrifa eins og þeir vilja.

Mér Þykir í alvöru vísurnar þína ótrúlega góðar, sumar hverjar. Aðrar eru aftur á móti algert bull, finnst mér.

Sæmundur Bjarnason, 2.11.2020 kl. 16:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband