13.9.2020 | 22:50
3006 - Hlutabréf
Hlutabréf eru ímynduð verðmæti. Enginn raunverulegur munur er á hlutabréfamarkaði og keðjubréfafaraldri. Meirafíflskenningin er ráðandi þarna. Mikill stærðarmunur er þó á þessu tvennu. Hlutabréfamarkaðurinn er margfalt stærri og nær um allan heim og nýtur mikillar virðingar. Enda er engin hætta á að hann hrynji með öllu. Hann byggist nánast eingöngu á væntanlegum gróða. Lengi má auðvitað bjarga sér með aukinni veltu og samruna. Eignir og annað þessháttar skiptir engu eða sáralitlu máli. Allt snýst um væntingar. Íslendingar fengu góðfúslega að vera memm í hlutabréfaleiknum á veltiárunum fram að 2008 eða svo, en kunnu ekki fótum sínum forráð og því fór sem fór. Nú stendur til að beina öllum okkar kröftum í að fá að vera memm aftur. Kannski tekst það. Sennilega er mesta furða hvað við vorum fljót að standa upp aftur þrátt fyrir Hrunið. Ef til vill var það ESB að þakka. Eitt af inntökuskilyrðunum í memm-klúbbinn núna er greinilega að láta Flugfélag Íslands (sem nú um stundir er kallað Icelandair) lifa áfram. Greinilega er samt þarna um fallítt félag að ræða. Ræði ekki meira um þessi mál í bili. Þetta er mín skoðum.
Hef að undanförnu verið að lesa dálítið athyglisverða bók. Hún nefnist Hitlers Children eða eitthvað þessháttar og er eftir Gerald Posner. Um endurútgáfu er að ræða. Þessi bók kom upphaflega út um 1990 og vakti talsverða athygli þá. Bókin er byggð á viðtölum við börn nokkurra nasistaforingja sem samþykktu að ræða við Posner. Þessir menn eða nasistaleiðtogar eru þekktir úr sögunni og voru flestir líflátir (hengdir) að Nurnberg-réttarhöldunum loknum. Þeir voru oft ágætir fjölskyldufeður þrátt fyrir grimmdarverkin sem þeir frömdu í vinnunni. Það sem rak a.m.k. suma þeirra áfram var hugsanlega sókn í auðæfi og völd. Siðferði flæktist ekki fyrir þeim.
Útrætt að sinni um þessa andskota, en kannski minnist ég á þá seinna. Gyðingahatrið er á leiðinni til Evrópu aftur. Hugsanlega munu flóttamenn af öllu tagi finna mest fyrir því að þessu sinni. Útrýmingarbúðir í stíl við þær sem tíðkuðust í síðustu heimsstyrjöld eru þó tæpast á leiðinni aftur. Þó ekki væri nema vegna þess að þriðja heimsstyrjöldin verður stutt og mun á margan hátt líkjast tölvuleikjum nútímans a.m.k. frá sjónarmiði þeirra sem þátt taka í henni. Ég sagði áðan að flóttamenn mundu sennilega finna mest fyrir Gyðingahatri. Kannski er ekki rétt að kalla það Gyðingahatur, en lítill vafi er á því að heimaríkir hundar munu reyna að halda öllum flóttamönnum frá nægtaborði vestræns veruleika. Þeir eru mjög hataðir víða nú þegar.
Þriðja heimstyrjöldin mun koma. Á því er enginn vafi en hvort þangað til líða ár eða aldir er engin leið að spá fyrir um. Það eina sem kemur í veg fyrir hana nú um stundir er að sennilega mun enginn sigra í henni. Að minnsta kosti er ómögulegt að spá nokkru um það. Hvort verður á undan að valda þvílíkum ógnum í heiminum að hann verður nánast óbyggilegur þriðja heimsstyrjöldin eða loftslagskrísan er ekki hægt að segja neitt um. Jafnvel er Covid faraldurinn hugsanlega að gera það nú þegar. Ég geri mér alveg grein fyrir að heimsendaspádómar eru sérgrein þeirra sem eru á förum héðan úr heimi. Að allt fari til andskotans í framtíðinn er fyrirsjáanlegt og hefur lengi verið.
Athugasemdir
Mörlenska krónan er ímynduð verðmæti vegna mikillar verðbólgu hér á Klakanum, sem langoftast hefur verið sú mesta í Evrópu og frá síðustu áramótum hefur gengi krónunnar hrunið um 20% gagnvart evrunni.
Mörlenskir töframenn:
Um tíma var ég öryggisvörður í Seðlabankanum og sá á hverju kvöldi þegar ég var þar á vakt að skrifborð Jóhannesar Nordal, seðlabankastjóra 1961-1993 og töframanns, var þakið alls kyns útreikningum og minnismiðum.
Bankastjórar Seðlabankans voru hins vegar þrír þegar ég var þar öryggisvörður og hinir tveir voru framsóknar- og töframaðurinn Tómas Árnason og sjálfstæðis- og töframaðurinn Geir Hallgrímsson.
Geir Hallgrímsson var forsætisráðherra á árunum 1974-1978 en verðbólgan hér á Íslandi fór í um 50% árið 1975.
Tómas Árnason var fjármálaráðherra á árunum 1978-1979 og viðskiptaráðherra 1980-1983 en það ár fór verðbólgan hér í 84%.
Ekki var hins vegar að sjá að á skrifstofum Tómasar og Geirs væri nokkuð unnið, fyrir utan ræstingar.
Skrifborðin voru auð, engar bækur í hillunum, engar tölvur komnar þá og ekki nokkrar mannvistarleifar yfirhöfuð.
Alþýðubandalags- og töframaðurinn Ragnar Arnalds, átrúnaðargoð Jóns Vals Jenssonar, var hins vegar fjármálaráðherra á árunum 1980-1983.
Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og forsætisráðherra, nú á jötu sægreifanna og kominn út í móa, er einnig mikill töframaður.
Stýrivextir Seðlabanka Íslands voru komnir í 18% haustið 2008 og verðbólgan hér á Íslandi var 18,6% í janúar 2009, þegar Davíð Oddsson var ennþá seðlabankastjóri og töframaðurinn Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra.
Verðbólgan hér á Íslandi á árunum 1940-2008
Þorsteinn Briem, 14.9.2020 kl. 01:11
Hlutabréf eru ímynduð verðmæti eins og aðrir eignarhlutir í fyrirtækjum. Íslendingar hafa litla trú á eign í fyrirtækjum, og því fór sem fór og fer sem fara vill.
Össur er að mestu komið í eigu Dana.
Eignarhlutur erlendra sjóða í Marel er að nálgast 40% og fer vaxandi.
Hlutir sem lífeyrissjóðirnir selja í Högum kaupa gjarnan erlendir fjárfestar ef Samherji hefur ekki áhuga.
Tölvuleikjafyrirtækið CCP, EVE Online, var selt til Suður Kóreu.
Leigufélaginu Heimavellir, sem á 1600 íbúðir, gekk ekkert á Íslenskum hlutabréfamarkaði og var því auðveld bráð til yfirtöku af hinu Norska Fredensborg.
Og arðurinn er síðan fluttur úr landi til hinna erlendu eigenda.
Ístak, Arion Banki, Bakkavör, Kjarnavörur, HS Orka, deCODE genetics og ÍAV eru einnig dæmi um fyrirtæki sem voru í eigu Íslendinga en Íslendingar vildu ekki eiga og seldu þeim sem vildu kaupa. Erlendir aðilar gætu svo orðið stærstu kaupendur í Icelandair. Vogunarsjóðir, gjarnan kallaðir hrægammasjóðir, eru duglegir að kaupa fyrir lítið það sem Íslendingar ekki vilja eða halda verðlaus keðjubréf.
Vagn 14.9.2020 kl. 03:11
Já já, Steini minn. Ég var einu sinni öryggisvörður líka. Meðal annars hjá Landsvirkjun og kom nokkrum sinnum á skrifstofurna hjá Björgúlfi yngra í miðju hruninu. Kannaðist líka svolítið við Tómas Árnason lögfræðing. Þá hafði hann skrifstofu í Iðnaðarbankahúsinu.
Við ættum kannski að stofna FFÖ.
Sæmundur Bjarnason, 14.9.2020 kl. 07:08
Vagn. Þú hefur ekki kommentað hér fyrr svo ég muni. Ert greinilega fróður um þessi málefni. Mundi gjarnan vilja vita meira um þig.
Sæmundur Bjarnason, 14.9.2020 kl. 07:13
Þorsteinn Briem, 7.8.2020:
Icelandair er ekki nauðsynlegt til að halda uppi flugsamgöngum á milli Klakans og annarra landa en menn geta að sjálfsögðu ákveðið að leggja meira fé í fyrirtækið ef þeir eru bjartsýnir hvað snertir áhuga Mörlendinga á að fljúga til annarra landa og erlendra ferðamanna hingað til Íslands.
Og full ástæða er til þessarar bjartsýni, þrátt fyrir daglegt svartagallsraus í einangrunarsinnanum Styrmi Gunnarssyni.
Mörlenskir hægrimenn hafa aldrei haft rétt fyrir sér hvað snertir ferðaþjónustuna hér á Íslandi, sem er sá atvinnuvegur sem hér hefur skapað langmestu gjaldeyristekjurnar mörg undanfarin ár.
Og heimsbyggðin verður einfaldlega bólusett á næsta ári gegn Covid-19 og svartagallsrausinu í mörlenskum hægrimönnum og gamalmennum.
Í miðju kóvítinu lenda nú rúmlega tvö þúsund erlendir ferðamenn á Keflavíkurflugvelli á degi hverjum en árið 2012 voru þeir að meðaltali um 1.800 allt árið.
Og vegna stóraukinnar ferðaþjónustu, "fjallagrasatínslunnar", hefur verið hægt að auka hér kaupmátt um tugi prósenta en áður fyrr var oft engin innistæða fyrir launahækkunum, þannig að þeim fylgdi aukin verðbólga.
Laun eru hins vegar ekki hækkuð almennt nema vegna verkfalla eða hótana um þau og þar kemur öflug verkalýðshreyfing til sögunnar.
Og að sjálfsögðu vilja einangrunarsinnarnir Óli Björn Kárason og Styrmir Gunnarsson hafa verkalýðshreyfinguna í vasanum.
En lífeyrir þeirra hefur hækkað mikið að raungildi vegna stóraukinnar ferðaþjónustu hér á Klakanum, sem mörlenskir hægrimenn, einangrunarsinnar og gamalmenni hafa fundið allt til foráttu, eins og mýmörg dæmi sanna hér á Moggablogginu allt frá árinu 2007.
Þorsteinn Briem, 14.9.2020 kl. 08:20
28.8.2020:
"Varaseðlabankastjóri segir mikilvægt að fólk sem tekur óverðtryggð lán geri sér grein fyrir að 1% stýrivextir Seðlabanka Íslands séu ekki komnir til að vera.
Afborganir lána gætu hækkað verulega þegar stýrivextir Seðlabankans hækka á ný."
"Greiðslubyrði af 35 milljóna króna láni til 40 ára við fyrstu kaup á húsnæði gæti farið úr ríflega 140 þúsund krónum á mánuði í rétt yfir 210 þúsund ef vextir hækkuðu í það sem telja má eðlilegt ástand hér á landi."
Greiðslubyrði af 35 milljóna króna láni gæti hækkað úr 140 þúsund krónum á mánuði í 210 þúsund
Þorsteinn Briem, 14.9.2020 kl. 08:47
Það á sem sagt að vorkenna þeim sem vilja halda í mörlensku krónuna.
28.8.2020:
"Greiðslur af óverðtryggðum húsnæðislánum gætu hækkað verulega ef stýrivextir Seðlabankans þokast aftur upp á við.
Á þetta bendir Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri í samtali í Morgunblaðinu í dag.
Sífellt fleiri taka óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum, bæði þeir sem standa í húsnæðiskaupum og þeir sem endurfjármagna eldri skuldir.
Rannveig segir ánægjuefni að fólk nýti sér lækkandi vaxtastig en ítrekar að fólk þurfi að gera ráð fyrir því að greiðslur geti hækkað umtalsvert.
Þannig hafi til dæmis komið fram að "hlutlausir" stýrivextir [Seðlabanka Íslands] væru um 4,5%, eða 3,5% hærri en núverandi meginvextir bankans.
Í útreikningum, sem Morgunblaðið hefur látið taka saman og birtir eru í blaðinu í dag, gætu greiðslur af meðalhúsnæðisláni hæglega hækkað um 50% ef vaxtastig myndi hækka með fyrrgreindum hætti."
Afborganir gætu hækkað um 50%
15.5.2012:
"Á síðastliðnum 18 árum hafa stýrivextir Seðlabanka Íslands verið á bilinu 4,25% til 18%.
Bankinn hefur fjórum sinnum á tímabilinu hafið hækkunarferli sem staðið hefur frá þremur mánuðum upp í rúm fjögur ár."
Óverðtryggð lán næm fyrir vaxtahækkunum
26.8.2020:
Gengislækkun íslensku krónunnar eykur verðbólgu
28.8.2020:
Verðbólgan hér á Íslandi komin í 3,2%
Evrópusambandsríkin, til að mynda Þýskaland, Frakkland og Spánn, eru langstærsti markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafurðir og við Íslendingar flytjum einnig mest inn frá Evrópusambandsríkjunum.
Frá síðustu áramótum hefur gengi íslensku krónunnar hrunið gagnvart evrunni um 20%.
Á sama tímabili hefur gengi evrunnar hins vegar hækkað um 9% gagnvart breska pundinu og 6% gagnvart Bandaríkjadal.
Stýrivextir Seðlabanka Evrópu, sem ákveður stýrivexti á öllu evrusvæðinu, eru og hafa alltaf verið miklu lægri en stýrivextir Seðlabanka Íslands og verðbólgan hefur verið miklu minni á evrusvæðinu en hér á Íslandi.
Þorsteinn Briem, 14.9.2020 kl. 09:04
Það er í sjálfu sér hægt að segja að öll verðmæti séu ímynduð, þannig lagað. Gull er til dæmis bara verðmætt vegna þess að fólk er sammála um að það eigi að vera verðmætt. Ef verðgildið réðist bara af notagildinu væri gullverð aðeins brot af því sem það er. Og verðmæti á sumu felst í því sem það getur skilað af sér í framtíðinni. Verðmæti hlutabréfa felst í framtíðarhagnaði. Verðmæti kartöflugarðs og útsæðis felst í framtíðaruppskeru. En þetta merkir ekki að hægt sé að jafna hlutabréfum og kartöflugörðum við keðjubréf eða Ponzi-svindl. Ponzi-svindlið byggir á því að nota söluverðið til að greiða þeim arð sem þegar hafa keypt sig inn. Það er ekkert framleitt sem neinn vill kaupa. Því er öðruvísi farið með fyrirtæki og kartöflugarða.
Þorsteinn Siglaugsson, 14.9.2020 kl. 14:00
Skil það vel að þú sért skeptískur á hlutbréf ef þú hefur aldrei staðið í rekstri og aldrei fjárfest. Þannig er lífið. Fólk stendur alltaf frammi fyrir valkostum og hlutabréf byggja ekki á ímynduðum verðmætum heldur frekar því hversu mikinn arð fyrirtækið greiðir og hverjar eru væntingar fjárfestisins um framtíðararðgreiðslur. Þetta er sérstaklega mikilvægt núna þegar lítið er um fjárfestingartækirfæri. Þetta á sérstaklega við ef menn eru að horfa á arðgreiðslur.
Það eru náttúrulega alltaf áhætta í fjárfestingum. Kannski eins og COVID hefur kennt okkur. Margt kann að hafa áhrif á rekstur fyrirtækja og arðsemi þeirra. Auðvitað þarf líka að taka tillit til getu fyrirtækisins til þess að viðhalda ákveðnum vexti inn í framtíðina, sjóðstreymi þess, vexti og væntum fjármagnskostnaði Þess utan skiptir verðlag máli og svo má ekki gleyma fórnarkostnaðinum við að fjárfesta ekki t.d. að leggja peninginn í bankann. Annars eru væntingar í öllu ....meirafífskenningin segir kannski að þeir sem taka ekki þátt á markaðnum tapa mest.
Mummi 15.9.2020 kl. 08:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.