30.8.2020 | 11:50
2996 - Enn ein sagan og svolítið meira
Ég hef að mestu haldið mig við svokallað intermittent fasting frá síðustu áramótum. Sem megrunarráð er þetta þó lítils virði. Að vísu léttist ég talsvert til að byrja með, en það hefur að miklu leyti stöðvast núna. Ég er farinn að halda að til þess að ná einhverjum verulegum árangri í léttingu þurfi maður að sætta sig við að vera svangur í talsverðan tíma. Það kann að vera óeðlilega erfitt fyrir suma, en aðrir ættu alveg að geta sætt sig við það. Ekkert er mér vitanlega óhollt við það að vera svangur. Jafnvel langtímum saman. Líka skiptir kannski máli hve mikið er étið hverju sinni. Ef borðað er til þess að sem allra lengst verði þangað til maður verði svangur aftur er maður á hættulegri braut. Einnig virðist skipta miklu máli hvað borðað er. Brauð og kökur ættu alveg að vera bannvara. Ef hinsvegar er bara borðað þar til hungurtilfinningin hverfur ætti það í flestum tilfellum að vera nægilegt. Nóg um megrunaraðgerðir að sinni.
Nú er ég eiginlega dottinn í það að semja allskyns söguvitleysur og kannski ég noti bloggið mitt til að losna við þær. Hér er sú nýjasta:
EGILL Í KRÓKI
Þannig var að þó Sigurjón á Brekku væri hreppstjóri sveitarinnar, var hann ekki viss um hvað hann ætti að gera í málefnum fjölskyldunnar í Króki. Ekki var hægt að senda þau hreppaflutningum suður í sína heimasveit. Til þess voru þau alltof erfið í umgengni. Hann minntist þess að þegar þau komu í sveitina upphaflega voru þau bæði ákveðin í því að láta sér takast að verða þar sveitföst. Nú voru þau búin að eiga heima þarna í bráðum tíu ár og vantaði aðeins svona eins og eina viku eða einn mánuð til þess að ekki væri hægt lengur að reka þau í burtu.
Upphaflega voru þau bara tvö, en svo fóru þau að hlaða niður börnum. Líklega voru þau ein sex núorðið. Sigurjón vissi það ekki almennilega. En allavega var ómögulegt að láta þau, með alla þessa ómegð verða sveiföst í sveitinni hans Sigurjóns.
Meðan hann velti þessu fyrir sér á alla kanta, hélt hann áfram að moka skítnum. Furðulegt hvað rollurnar gátu skitið mikið. Á hverju ári þurfti að moka undan þeim. Sigurjón átti uppundir 100 fjár og var ákaflega stoltur að séraguðmundarkyninu sínu. Hann hafði lengi velt því fyrir sér hvernig hægt væri á fá kindurnar til að skíta minna, svo ekki þyrfti að moka undan þeim nema annað hvert ár í mesta lagi. Best væri auðvitað að ekki þyrfti að gera það nema þriðja hvert ár.
Til þess að minnka skituna úr fénu hafði hann látið sér detta ýmislegt í hug. Vel mætti hugsa sér að hafa fjárhúsin reisulegri og hærra undir loft. Því mundu samt fylgja ýmsir ókostir. Taðið yrði bara meira og jafnvel þyrfti að moka mun lengur. Annar möguleiki væri að gefa minna hey. Sigurjón hafði aldrei gefið fénu fóðurbæti svo ekki þurfti hann að spara þá gjöf. Nú datt honum í hug snjallræði. Hann gæti náttúrulega fækkað fénu. Auðvitað mundu þá minnka tekjurnar af fjárbúskapnum með því að dilkarnir yrðu færri á haustin.
Hann var samt allsekki búinn að gleyma hinu vandamálinu sem hann þurfti að fást við. Allt í einu sá hann að hægt væri að ráða bót á þessum vandamálum með sama ráðinu. Það var einmitt að koma haust og sláturtiðin að byrja. Hvernig væri að ræna öllum dilkunum frá þeim í Króki og leggja þær inn á sínu nafni. Hann gæti bara sagt að ærnar hefðu verið óvenju frjósamar þetta árið, ef einhverjum þætti dilkarnir furðanlega margir.
Hann hugsaði sig ekki lengi um heldur hentist heim að Króki og rak alla dilkan þaðan, sem svo vel vildi til að voru á beit í túninu, heim í vélageymsluna. Þegar hann var að reka þá síðustu inn þurfti Jón á Stóra-Hóli endilega að koma blaðskellandi fyrir húshornið. Hvað skyldi karlkvölina vanta núna hugsaði Sigurjón, en sagði bara:
- Sæll vertu. Hvaða ferðalag er á þér?
- Ég var nú eiginlega bara að svipast um eftir henni Mjallhvíti minni.
- Nú, er hún nú einu sinni enn farin að heiman?
- Já, en hún getur nú ekki hafa farið langi, eins og hún er nú orðin fótafúin.
- Það er aldrei að vita hverju þessar rolluskjátur geta fundið upp á, þega sá gállinn er á þeim.
- Æ, ég veit ekki. En er það sem mér sýnist að þú ætlir að reka til slátrunar dilkana hans Egils í Króki. Ég sá ekki betur en þú værir að reka þá inn í vélageymsluna þína.
- Ég er nú ekki viss um að þetta séu dilkarnir hans Egils.
- Nú, mér fannst ég þekkja þá. Má ég kannski sjá mörkin á þeim.
- Ha? Einmitt það já. Mörkin já. Svoleiðis já. Ég var eiginlega alveg búinn að gleyma því.
Og þannig vildi það til að Sigurjón gat ekki stolið dilkunum hans Egils í Króki. Auðvitað tókst honum að ljúga sig útúr vandaræðunum sem hann var kominn í, en Egill karlinn í Króki varð sveitfastur í hreppnum hans Sigurjóns.
Athugasemdir
Margir éta á sig gat,
uppá Skipaskaga,
ætíð graðga í sig mat,
með alltof stóran maga.
Þorsteinn Briem, 30.8.2020 kl. 12:48
Maginn stóri mælti svo:
"mikið hvað þið étið.
Lambaskanka tólf og tvo
talsvert gott er metið".
Sæmundur Bjarnason, 30.8.2020 kl. 13:21
Ágæt saga. En ég botna ekki í því hvers vegna hreppstjórinn vildi ekki hafa Egil í sveitinni. Hann virðist hafa verið gildur bóndi fyrst það var þess virði að ræna af honum rollunum. Þannig gaurar borga útsvar.
Haltu endilega áfram að setja saman sögur. En spáðu kannski aðeins í að skerpa á stílnum.
Þorsteinn Siglaugsson, 31.8.2020 kl. 00:47
Rolluskjáturnar voru allar í skuld, Þorsteinn minn. Þsð er til alltof mikils mælst að sögur sem þessar séu sennilegar, allt má útskýra, einhvern veginn. Hver var svo vitlaus að lána Agli fyrir þessum rollum. Um það má spyrja. En ekki er víst að svar fáist.
Sæmundur Bjarnason, 31.8.2020 kl. 15:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.