2965 - SpaceX og óeirðir

Svandís og Kári virðast hafa samið frið. Kannski hafa þau haft í huga klámvísuna frægu:

Loksins hefur storminn lægt
ljúfur saminn friður.
Yfirsængin hægt og hægt
hreyfist upp og niður.

Óeirðirnar í Bandaríkjunum núna snúast ekki um stjórnmál eða einstakar persónur. Um er að ræða langa sögu lögregluofbeldis gagnvart hörundsdökku fólki og rasisma sem grasserað hefur þar lengi. Allt frá því að óeirðirnar miklu urðu þar um 1967 hefur rasismi verið áberandi þar, þó ýmsir hafi haldið að hann færi minnkandi. Svo er þó greinilega ekki. Kannski þrífst hann einkum meðal lögreglunnar,sem er að sjálfsögðu vopnuð þar eins og algengast er annars staðar en hér á Íslandi.

Um þessar óeirðir í ríkasta og voldugasta ríki heimsins er ég ekki fær um að tjá mig mikið. Hörmulegar eru þær samt. Kannski á Covid-19 veiran einhvern hlut að máli. Atvinnuleysi meðal svartra Bandaríkjamann og allar tölur og skýrslur hafa sýnt það á undanförnum árum að kynþáttahyggja á þar miklu fylgi að fagna og kannski hefur óréttlætið komið enn betur í ljós í þeim þrengingum sem Bandaríkjamenn hafa mátt ganga í gegnum eins og flestar þjóðir aðrar að undanförnu.

Oft er það svo að hægri mönnum er einkum kennt um rasisma. Á sama hátt má segja að vinstri menn séu og hafi oft haft ansi barnalega trú á jafnrétti og jöfnuði öllum til handa. Jafnvel að þeir aðhyllist kommúnisma, sem greinilegt er að mannkynið er ekki fært um að tileinka sér, eins og grenilega kom fram í Sovétríkjunum sálugu. Þó má segja að óeirðir þessar sé alls ekki pólitískar og vandséð er hvort Repúblikanar eða Demókratar græða á þessu ástandi. Ef nauðsylegt reynist hinsvegar að fresta kosningum þar í haust er þó hægt að segja að Repúblikanar græði á þeim atburðum sem eru núna að gerast þar vegna þess að þeir viðhalda þá líklega völdum í Hvíta Húsinu lengur en ella.

Í öllu svartnættinu í Bandaríkjunum er samt ljós punktur. Það er giftusamlegt geimskot SpaceX í gærkvöldi. Efast ekki um að rækilega verður sagt frá þessu í öllum fjölmiðlum hérna á eftir þar sem þetta er í fyrsta skipti sem einkaframtakið stendur frammi fyrir svona nokkru.

IMG 5868Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæmi, þú ferð ekki rétt með fyrstu línu vísunnar. Enda er alltof langt milli stuðla í þessari útgáfu þinni. Hélt þú hefðir lært meira hjá Snorra hér í den! 


Nú hefur storminn loksins lægt

... er vísar skráð í þeim heimildum, sem ég hef aðgang að.

kv.

Þorkell G. 31.5.2020 kl. 08:24

2 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

...ljúfur samist friður
Það er ekkert klám í þessari vísu. Þegar fólk sefur með sæng ofaná sér, þá andar það væntanlega rólega, og sængin fylgir andardrættinum og hreyfist hægt upp og niður.

Hallmundur Kristinsson, 31.5.2020 kl. 09:56

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, þetta er fljótfærnislegt hjá mér, ég viðurkenni það. Man samt ekki eftir að hafa lært mikið í bragfræði hjá Snorra á Hvassafelli.

Sæmundur Bjarnason, 31.5.2020 kl. 09:58

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Meðan ég var að svara Kela hefur Hallmundur sett sína athugasemd.

Klám er hægt að skrifa margar lærðar ritgerðir um. Mér finnst það ekki eingöngu felast í klámfengnum orðum, heldur verða til í hug viðtakanda.

Sæmundur Bjarnason, 31.5.2020 kl. 10:19

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Allt þar vestra er nú skítt,
enginn þar er friður,
ekkert við það er þó nýtt,
allt á leið er niður.

Þorsteinn Briem, 31.5.2020 kl. 11:29

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Rótin að óeirðunum var auðvitað morðið. Og það að morðingjarnir voru ekki einu sinni handteknir. Getur vel verið að slíkt sé eðlilegt þegar um lögreglumenn er að ræða, en ekki virðist nú fólk samt hafa tekið það gott og gilt.

En mig grunar að útgöngubönnin og atvinnuleysið eigi stóran þátt í hversu alvarlegar óeirðirnar eru orðnar. Og það sér ekkert fyrir endann á því.

Þorsteinn Siglaugsson, 31.5.2020 kl. 12:10

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Obama og Trump eru eins og svart og hvítt. cool

"Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hringdi í gær í Philonise Floyd, bróður George Floyd sem lést í haldi lögreglu í Minneapolis í síðustu viku.

Bróðirinn segir að þetta hafi ekki verið gott samtal, forsetinn hafi nær ekkert leyft honum að komast að.

Rætt var við Philonise Floyd á MSNBC í gær. Hann krefst þess að lögreglumaðurinn fyrrverandi sem þrengdi að hálsi bróður hans verði ákærður fyrir morð af yfirlögðu ráði."

Þorsteinn Briem, 31.5.2020 kl. 12:52

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Bandaríkin bregðast nú
burtu virðist friður.
Vondsleg mjög er veikin sú
verr er það og miður.

Sæmundur Bjarnason, 31.5.2020 kl. 13:14

9 identicon

Ég veit ekki til þess að forsetakosningum í Bandaríkjunum hafi verið frestað, jafnvel ekki í stríðinu, 1944, þegar Roosevelt var kosinn í fjórða sinn.

Hörður Þormar 1.6.2020 kl. 00:08

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Enn er vísan ekki rétt, því að orðinu "nú" er ofaukið í efstu línunni og skemmir hrynjandina. 

Svona hlýtur eina rétta vísan að hljóða: 

Storminn hefur loksins lægt; 

ljúfur saminn friður. 

Yfirsængin hægt og hægt 

hreyfist upp og niður. 

Minnir mig á lúmska vísu eftir hagyrðing frá Breiðdalsvík:  

Konan sýnir breitt mér bak

í bólinu um nætur. 

Sorgartárum í ljósgult lak

lítill snáði grætur. 

Ómar Ragnarsson, 1.6.2020 kl. 00:23

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hörður, við lifum á fordæmalausum tímum, eins of oft er sagt. Frá upphafi hef ég óttast mjög að Trump mundi seilast eftir eilífðarvöldum. Fyrsta skrefið í þá átt væri einmitt að fresta forsetakosningum. Átti þó fremur von á að slíkt yrði gert árið 2024. Held að þó sé komið í lög að forseti sitji einungis í tvö kjörtímabil, en því má breyta. Erfitt verður samt að fá þingið og Hæstarétt til að fallast á frestun núna.

Sæmundur Bjarnason, 1.6.2020 kl. 07:34

12 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ómar, nú-ið er ekki frá mér komið. Getur samt sem best verið forliður. Ég féllst bara á að óþarflega langt væri milli stuðla í fyrstu ljóðlínunni. Annars er bragfræði að miklu leyti komin undir framburði og tíma, frekar en réttritun og áliti bestu manna og allsekki höggvin í stein.

Sæmundur Bjarnason, 1.6.2020 kl. 07:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband