2964 - Grímur eða grímur ekki

Ef ég blogga um nafntogaðar persónur, eða pólitík, tala nú ekki um ef ég held líka fram einhverjum vafsömum skoðunum þá bregst það varla að fleiri koma inná mitt blogg en venjulega. Einkum á þetta við ef mér tekst að koma þessu að einhverju leyti til skila í fyrirsögninni. Einu sinni var ég með aðsóknartölur útvortis, öðru hvoru a.m.k. en nú eru þær bara innvortis. Þori ekki að reyna að breyta þessu því ég gæti gert einhverja bölvaða vitleysu.

Eiginlega er mér alveg sama hvort margir eða fáir lesa þetta blogg mitt. Auðvitað vil ég samt að sem flestir lesi það. Annars væri ég varla að þessu. Ólíkindalæti eru minn stíll enda ólst afi minn upp á Látalátum í Landsveit. Er vanur að gera lítið úr öllu. Jafnvel sjálfum mér. Vitanlega er mér þó ekki alls varnað.

Einkennilegt að á Íslandi skuli andlitsgrímur varla sjást nema á heilbrigðisstarfsfólki í þessum kórónufaraldri. Sennilega er þetta eingöngu vegna þess að Þórólfur er á móti þeim. Sumsstaðar í útlandinu eru þær beinlínis fyrirskipaðar og flestir virðast hafa mikla trú á þeim. Svona eru nú Þórólfsáhrifin mikil. Skaði að hann skuli ekki hafa boðið sig fram til forseta. Hann hefði getað flogið til Bessastaða á vinsældum sínum.

Annars eru forsetakosningarnar að verða mesta rifrildisefnið í flestum miðlum núna. Ekki er líklegt að Guðmundur Franklín fái meira en svona 5 prósent atkvæða í mesta lagi, hvað sem öllum gerviskoðanakönnunum líður. Afganginn fær Guðni að sjálfsögðu enda hefur hann staðið sig sæmilega.

Hefði samt viljað sjá Kára eða Þórólf í þessari kosningabaráttu frekar en Guðna og Guðmund, en við því verður ekki gert úr þessu. Hætt er við að kosningabaráttan verði fremur linkuleg að þessu sinni. Engin þeirra sem næstum því felldu Guðna fyrir 4 árum vilja reyna aftur og er það skaði. Sennilega hefði ekki veitt af einum sannfærðum loftslagssinna í þessa baráttu. Orkupakkinn dugar líklega skammt. Það eru allir búnir að fá leið á honum.

IMG 5881Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Pótintáta president,
páfi Lyga-Sögu,
fær nú bara fimm prósent,
fífl í bjánaþvögu.

Þorsteinn Briem, 29.5.2020 kl. 21:21

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini alltaf lygalaus
lætur skína ljósið.
Eftir talsvert mas og maus
manninn þennan kjósið.

Sæmundur Bjarnason, 29.5.2020 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband