2946 - Krumminn hjá Byko

Nú er ég meira og minna að detta í þann gírinn að blogga daglega. Ekki er það efnilegt. Varla get ég stytt bloggin mín meira. Gæti jafnvel farið að skrifa á fésbókina, ef þetta heldur áfram svona. Segi bara svona. Held að ég sé ekki svoo langt leiddur. Meina ekkert með þessu. Man eftir vörubílstjóra sem skrifaði eitt sinn á Imbu. Imba var tölva á Menntanetinu. Sagðist hafa meirapróf. Kannski sagðist hann bara vera meiraprófsbílstjóri. Er ekki viss. Gott ef hann hét ekki (eða heitir) Guðmundur Ólafsson. Svo var líka einhver Þór Eysteinsson alltaf að flækjast þarna, á Imbunni hans Péturs á Kópaskeri. Páll Baldvin sagðist vera skólabróðir hans. Altsvo Péturs. Sennilega eru allir þessir menn skrifsjúkir eins og ég. Hvort sem þeir hafa eitthvað að segja eða ekki. Ekki hef ég neitt að segja. Samt er ég sískrifandi. Bloggskrifin lærði ég að mestu af Hörpu Hreins og Jónasi Kristjánssyni. Ýmsir fleiri komu þar við sögu.

Eiginlega er ekki á nokkurn mann leggjandi að skrifa eingöngu á fésbókina. Sjáið hvernig það hefur farið með efnilega menn eins og Björn Birgisson í Grindavík og Sigurð Þór Guðjónsson. Þeir eru greinilega báðir skrifsjúkir eins og fleiri og gera varla annað en skrifa á fésbókina. Ekki held ég að þeir hafi samt hent mér af vinalistanum. Það hlýtur bara að vera einhver yfirsjón. Sennilega væri mér hollast að hætta þessu „name dropping“. Er ekki nógu góður í því.

Íhaldshrókur afleitur
innan sviga graður.
Þrammar áfram þrefaldur
Þorsteinn kvæðamaður.

Það var að ég held Þór Benediksson (bróðir Áslaugar) sem kenndi mér þessa vísu. Veit ekkert eftir hvern hún er.Gæti samt sem best átt við Þorstein Siglaugsson sem hefur gert talsvert af því undanfarið að kommenta á þetta blogg hjá mér. Jafnvel Steina Briem, sem einu sinni kommentaði oft hjá mér, en er talsvert fælinn og fór víst eitthvert annað.

Krummi hjá Byko á Selfossi er búinn að unga út eggjunum sínum. Sá í gærmorgun að hann var að éta eggjaskurn og skömmu seinna sá ég að hann var að sinna einum fimm ungum, sem voru komnir í hreiðrið hjá honum. Nóg að gera við að finna einhverja fæðu handa þeim.

IMG 6073Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband