2938 - Bondí-ströndin

Veit svosem ekki um aðra, en mér finnst það léleg skipti varðandi veðurfar, að fá rigningartíð í staðinn fyrir kuldatíð. Mér er semsagt verr við bleytu en frost. En enginn gerir svo öllum liki, ekki Guð í Himnaríki. Finnst alveg vera kominn tími á vorið núna þegar Sumardagurinn fyrsti er á næstu grösum. Alltaf er nú sama vanþakklætið í þessari Íslensku þjóð, kóvítinn hefði verið mun leiðinlegri en hann hefur þó verið, ef vorað hefði vel. Læt svo þessum veðurspeglasjónum og faraldursfræði lokið, enda kann ég ekkert á slíkt.

Tveir eru þeir menn í heiminum sem ég vildi gjarnan losna við. Ekki með því að drepa þá, en með því að gera þá óskaðlega. Þessir menn eru Donald Trump í Bandaríkjahreppi og Steingrímur J. Sigfússon í alþingishreppi á Íslandi. Á margan hátt væri landhreinsun að því að losna við þá báða úr áhrifastöðum. Ekki er mér neitt illa við þá persónulega, en ég held að stjórnmál öll yrðu léttari og meðfærilegri ef þeir segðu af sér. Alls ekki er samt loku fyrir það skotið að maður losni við þá fljótlega. Vonandi samt við kóvítann á undan.

Tromparinn virðist vera að trompa sjálfan sig núna með því að skora á Bandaríkjamenn að óhlýðnast lögum fylkjanna. Annars finnst mér réttast að líta á þetta sem einskonar örvæntingu útaf kosningunum í haust. Kannski vonast hann innst inni til þess að svokölluð seinni bylgja komi af faraldrinum í Bandaríkjunum svo hann geti frestað kosningunum og stjórnað bara með tilskipunum. Það held ég að mundi eiga vel við hann.

Andskotinn sjálfur. Lék mig í tveggja leikja mát í einni bréfskákinni núna rétt áðan. Var meira að segja með peð yfir, en hvað var kóngurinn eiginlega að þvælast útá miðju borði og drottningarnar aktívar. Spurning hvort maður getur ekki kennt kórónuveirunni um þetta. Segi bara svona. Annars er mér svosem sléttsama þó ég tapi í bréfskákinni. Þetta er bara uppá grínið og skemmtunina. Svo er ég kominn í 20 skákir samtímis svo þetta er ekki annað en það sem búast má við.

Auðvitað getur varla verið að nokkur Íslendingur sé svo vitlaus að hann viti ekki uppá hár hvar Bondí-ströndin er. A.m.k. gera þeir ekki ráð fyrir því sem setja saman dagskrárkynningarnar hjá RUV. Auðvitað er hægt að spyrja Gúgla að þessu og kannski er þetta auglýsing fyrir þá þjónustu, svona öðrum þræði. Ekki geri ég samt ráð fyrir að þeir (hjá Gúgla) hafi borgað fyrir þetta.

Einhver hafði orð á því við mig, fyrir langa löngu, að ég ætti að gera hverja klásúlu hjá mér að sjálfstæðu bloggi, en ég nenni því ekki. Sumir skrifa samt eða blogga þannig. Starta jafnvel þræði á fésbókinni með stuttri klausu. Svo er líka á það að líta að þessar klásúlur hjá mér eru ákaflega misjafnar. Sumar gætu kannski staðist sem sjálfstæð blogg en aðrað allsekki. Margar standa í einhverju sambandi við það sem á undan er komið eða það sem á eftir fer.

IMG 6180Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband