2935 - Enn um kóvítann. (Hvað annað?)

Tvennt er það sem veldur mér nokkrum heilabrotum í sambandi við þennan árans vírus. Það er ofuráhersla sú sem sumir leggja á að andlitsgríma sé notuð og svo líka þetta með malaríulyfið, sem á að vera svo hættulegt fyrir kóvítann.

Er annars ekki sjálfsagt að kalla þennan óvin mannkynsins númer eitt kóvíta. Sumir tala reyndar um nýju kórónuveiruna, en mér finnst það of vingjarnlegt.

Kóvíti minnir á ansvíti, jafnvel helvíti. Að ekki sé minnst á víti og vítaspyrnu, sem flestir þekkja. Sumir gætu rekist á bévítans kóvítann eða orðið fyrir honum.Vítavert er í öllu falli að mæla með honum.

Það hlýtur að vera ömurlegt að drepast um þessar mundir. Jarðarförinni frestað og allt eftir því. Skrokkurinn sennilega settur í kæligeymslu, ef þær eru ekki allar fullar. Minningarathöfn haldin einhverntíma seinna, ef aðstandendum finnst taka því. Eins vist að þær verði legíó. Nei takk, ég vil ómögulega drepast núna. Kannski seinna.

Tökum nú upp léttara hjal. T.d. mætti minnast á veðrið. Samt er óvíst að það sé nokkuð léttmeti. Hugsanlega er einhver dulin merking í því hjá sjónvarpinu að hafa Spaugstofugrín strax á eftir kóvít-fréttum. Hver veit?

Annars er ekkert vitlaust að hafa léttmeti á boðstólum á eftir alvörunni sjálfri. Þeir sem ekki sjá alvöruna í Covid-19 er ekki við bjargandi. Sennilega er þetta mesta alvaran á eftir heimsstyrjöldunum tveimur á síðustu öld. Ansi fáir þeirra sem núlifandi eru muna eftir þeirri alvöru sem þeim fylgdi.

Hrunið fyrir svona rúmlega 10 árum var óttalega smáskítlegt í samanburði við þessi ósköp sem við erum nú að lenda í.

Á margan hátt er þetta samt ekki svo mikið mál fyrir mig. Það er að segja ef veiruskrattinn nær mér ekki eða þeim sem næst mér standa. Líkurnar á því fara snarminnkandi, sem betur fer.

Ef sumarið verður dægilegt eins og alveg er leyfilegt að vona verð ég nokkurnvegin ánægður. Eflaust er samt ekki öllum svo farið. Líka getur vel farið svo að lífskjör mín versni verulega í kjölfar þessarar veiru. Það er þó ekki neitt verulega fyrirkvíðanlegt fyrir mig, því líf mitt er af ýmsum orsökum farið að styttast talsvert í annan endann.

Ég er samt fjarri því að fyllast einhverri Þórðargleði útaf þessu öllu saman. Til þess þykir mér alltof vænt um afkomendur mína og þá sem standa mér næst af ýmsum ástæðum. Jafnvel get ég ósköp vel skilið þá sem vegna föðurlandsástar eða einhverra slíkra tilfinninga vilja veg eftirlifenda sinna sem mestan.

IMG 6208Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Örn Einar Hansen

Menn eiga að taka sér til fyrirmyndar Taiwan ... þeir lokuðu á Kína, strax í byrjun Janúar. Á sama tíma og kommúnistar um allan heim, töluðu fyrir að halda Kína opnu ... því allt væri gott mál. Um 5 miljónir manna, flúðu út um allan heim frá Wuhan og tóku með sér veiruna.  Taiwain, hefur færri sýkta og færri látna ... en Ísland.

Taiwan, er tug miljóna þjóð ... það er kanski einhver lærdómur, sem Ísland getur tekið af þeim. Til dæmis, að taka ekki við blóðpeningum frá Kínverska kommúnistaflokknum, og tala máli þeirra.

Örn Einar Hansen, 10.4.2020 kl. 04:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband