2918 - "Kalak"

Fésbókarfræðin eru mér meira og minna hulin. Sumir virðast hafa sérmenntað sig í þessum fræðum og geta gert þar allan fjandann. Sumt af því sem er hvað flóknast þar skil ég bara allsekki. Mun hentugra að halda bara áfram að blogga. Þar er ég á heimavelli. Á það jafnvel til að hnoða saman vísu, ef einhver lætur svo lítið að ljóða á mig.

Um þessar mundir er ég að lesa bókina „Kalak“ eftir Kim Leine. Gefin út af nafna mínum árið 2018. Merkileg bók. Og ég sem les aldrei skáldsögur. Svona bækur eru víst oft kallaðar skáldævisögur. Mér finnst ekki að neinu máli skipti hvort það er satt eða logið sem þar er sagt frá. Höfundurinn hefur frá ýmsu að segja og oft er mesta furða hvað hann kemur miklu fyrir á fáum síðum. Rómantískar náttúrulýsingar eru sjaldan of langar og oft kemst höfundurinn vel að orði. Gott ef bókin er ekki þar að auki nokkuð vel þýdd. Hefði samt gjarnan viljað lesa hana á dönsku.

Nú er ég búinn að venja mig á að blogga miklu meira en ég hef gert að undanförnu. Kannski hefur „Intemittent fasting“ breytt mér að þessu leyti. Sumun vafalaust til mikils angurs, en vonandi er eihverjum sem líkar þetta betur. Ekki hefur lesendum mínum fækkað við þetta, eftir því sem Moggabloggsteljarinn heldur fram. Svo fæ ég líka einstöku sinnum áskoranir um að halda áfam að blogga. Ekki held ég samt að nota megi þessi blogg mín til tímasetningar á ýmsum atburðum í lífi mínu. T.d. komu krakkarnir o.fl. um síðustu helgi til að mála stofuna hérna. Áslaug var eitthvað að myndast við að hjálpa þeim, en ég er orðinn alveg ónýtur til slíks. Um síðastliðin áramót fékk Áslaug sér líka vinnustofu með öðrum niðri á Ægisbraut og málar þar núna af miklum móð. (Held ég)

Hef gaman (og vonandi gott) af að fara út að ganga á næstum því hverjum morgni. Sama hvernig veðrið er. Eins gott að það er virkilega snjólétt hér á Skaganum. Venjulega spyr ég símann minn hvernig veðrið sé áður en ég hugsa mér til hreyfings og fer ekki út ef mikil hætta er á hálku og roki. Mikil úrkoma (einkum rigning) leiðist mér líka. Hitastig skiptir mig litlu, enda auðvelt að klæða kulda af sér. Nú er líka farið að birta mun fyrr en verið hefur. Myrkrið finnst mér samt ekki skipta miklu máli heldur, nema hvað hálkublettir sjást mun verr þá.

Nú á dögum farsímans er það aðalspurningin hvort maður á að gefa sig á vald fjöldans og fara að pota í farsímann sinn eins og allir aðrir. Svo er líka hægt að neita því og gera bara það sem manni sýnist. Mér sýnist að láta farsímann og fésbókina sem mest eiga sig. Ekki vera að berjast við að vera öðruvísi en maður er. Ég er einrænn og verð bara að sætta mig við það. Hef þar að auki enga sérstaka hæfileika. Mínir hæfileikar voru kannski einhverntíma einhvers virði, en eru það ekki lengur. Nútildax snýst allt um að kunna sem best á fasímann sinn og pota í hann ef manni leiðist. Að koma t.d. inná læknabiðstofu nú um stundir er satt að segja þrúgandi. Allir eru niðursokknir í farsímana sína og geta greinilega hvorki né vilja sinna neinu öðru. Mér er svosem sama, en tek samt ekki farsímann minn fram heldur stari út í loftið eins og þar sé eitthvað að finna eða sjá.

IMG 6317Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæmundur, KALAK er til á dönsku í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu. Bókin er í kilju, létt í hendi.

P.S. Af hverju nefnirðu aldrei hvar myndirnar eru teknar? Eins og skáldið Tómas sagði: "landslag yrði lítils virði, ef það héti ekki neitt".

Ingibjörg Ingadóttir 24.2.2020 kl. 13:10

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ekki get ég að því gert
þó útúr þessu lesi,
að þú sért orðinn introvert
einn á Akranesi.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.2.2020 kl. 13:24

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Oftast hjá þér enginn er
ekki nokkur sála.
Alla daga Áslaug fer
út í bæ að mála

Helst að hafi fastan frézt
flest á fésbók týnist.
Gamall sem á grönum sézt
gerir sem þér sýnist.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.2.2020 kl. 15:13

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Fyrirgefðu Ingibjörg. Ég man nefnilega ekki alltaf hvar þær eru teknar. Sú með síðasta bloggi held ég að hafi verið tekin á Akureyri. Sama er að segja um þrjár eða fjórar þar á undan.

Þó mér hafi þótt Kalak nokkuð góð bók hugsa ég að mundi ekki vilja lesa hana aftur strax. Þar að auki er nokkuð langt að fara til borgar óttans til að fá lánaðar bækur.

Sæmundur Bjarnason, 24.2.2020 kl. 18:06

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Vísur mínar voða slappar
varla eru nokkuð spes.
Afar miklir orðatappar
yrkir kátur Jóhannes.

Sæmundur Bjarnason, 24.2.2020 kl. 18:09

6 identicon

Takk f. svarið. Það er hægt að panta bækur í millisafnaláni, bókasafmið næst þér getur pantað fyrir þig frá borginni, ef þig langar til að lesa einhverja  þar, sem ekki er til í þínu. Ég bý í 101 Rvík og finnst ekkert óttalegt við það. Það er þægilegt f. löggild gamalmenni að hafa þjónustu í göngufæri.

Ingibjörg Ingadóttir 25.2.2020 kl. 00:04

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Yfirleitt tala ég nú frekar um Reykjavík en um borg óttans. Umferðin þar finnst mér samt svolítið óttaleg. Annars er ágætt að búa á Akranesi. Það sem ég þarf er flest í göngufæri og svo er stutt til Reykjavíkur og afar snjólétt hér um slóðir.

Starfsfólks bókasafna leita ég sem minnst til. Af hverju veit ég ekki.

Myndirnar vel ég oftast síðast og finnst þær skipta litlu máli, stundum veit ég ekki einu sinni hvar þær voru teknar. Sú síðasta er samt frá Akureyri. 

Sæmundur Bjarnason, 26.2.2020 kl. 09:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband