2917 - "Intermittent fasting"

Ekki bregst mér það. Alltaf skal ég vera í stuði til að skrifa meira þegar ég hef nýlega lokið mér af. Þ.e.a.s. ég hef nýlega Moggabloggað svolítið. Nú er fimmtudagsmorgunn hinn tuttugasti febrúar tvöþúsundogtuttugu. Þó ég sé í ágætis skrifstuði núna, hef ég satt að segja ekkert til að skrifa um. Helst að ég gæti sagt eitthvað frá „Intermittent fasting“. Já, þetta er enska og þýðir eiginlega að fasta svolítið eða öðru hvoru. Þetta hef ég stundað að mestu leyti svo að segja frá síðustu áramótum. Þetta virðist henta mér alveg sæmilega. Samt er það hálfómögulegt sem megrunaraðferð, en mér líður að mörgu leyti nokkuð vel með þetta. Kannski hefur það breytt mér verulega. Best að lýsa þessu svolítið.

Þetta er allsekki fundið upp af mér. Hefur verið stundað frá aldaöðli. Miklu einfaldara en allar þessar kalóríutalningar, margslungnu megrunaraðferðir og mataræðiskúrar sem höfða ekki til mín. Já, ég var alltof feitur. Búinn að koma mér upp sæmilegri ístru eins og einhverntíma hefði verið sagt. Vel yfir 120 kíló, en þó aldrei farið yfir 130 slík. Á tímabilinu frá svona klukkan átta á kvöldin og til hádegis daginn eftir borða ég alls ekki neitt. Drekk þó kjötsoð og kaffi en ekki í mjög miklu magni. Upphaflega fannst mér að ég þyrfti að bæta mér þetta upp með því að éta hraustlega um hádegið á hverjum degi. Þetta hefur þó smám saman rjátlast af mér og nú borða ég eins og ég er vanur þessa átta tíma sem ég hef til þess.

Eiginlega er ekkert meira um þetta að segja. Örugglega hentar þetta ekki öllum. Mér gengur þó ágætlega að neita mér um næringu þessar fyrirskipuðu klukkustundir. Það sem gerir mér þetta erfiðara en þyrfi að vera er að ég verð oft andvaka á nóttunni. Þá er stundum erfitt að stilla sig um að fá sér eitthvað. Það er samt komið upp í vana hjá mér og er ekkert óyfirstíganlegt vandamál.

Allskyns matarkúrar eru mjög vinsælir um þessar mundir. Ekki er ég þess umkominn að ráðleggja neinum neitt í þessum efnum, en ef menn (og konur) treysta sér til að vera svo að segja matarlaus verulegan hluta hvers sólarhrings er alls ekki vitlaust að prófa þessa aðferð. Auðvitað má sem best hafa klukkustundirnar hvernig sem vera skal. Hægt er vitanlega líka að lengja eða stytta tímabilin eða lengja eftir þörfum o.s.frv.

Í stað þess að fara út að ganga niður að Langasandi eða eitthvað fór ég að hlusta á hálftíma halvitanna í sjónvarpinu. Ég er nefnilega skíthræddur við hálku (datt í gær). Björn Leví virðist hafa einstakt lag á að pirra Bjarna Ben. Í stað þess að svara honum efnislega fór Bjarni bara í fýlu (eða kleinu) og fór að tala um mislita sokka og þessháttar. Ja, stjórnmálin hér á landi og virðing alþingis er greinlega komin langt niður.

Nú er þetta orðið hið sæmilegasta blogg svo það er best að hætta.

IMG 6327Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Bjarni sagði að hann væri í sitthvorum sokknum. Ætli hann hafi þá verið að meina að hann væri í báðum sokkunum? Hagyrtari maður en ég þyrfti að gera um þetta vísu.

Þorsteinn Siglaugsson, 20.2.2020 kl. 17:13

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Á sokkaleistum sýnist mér 
að sjáist Björn á þingi.
Í kvikmynd ekki kemst þó hér
þó kyrji mjög og syngi.

Sæmundur Bjarnason, 20.2.2020 kl. 21:54

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Bjarna finnst það vera fúlt
og frekja gagnvart flokknum,
hverjum leyfist koma í púlt
hvort í sínum sokknum.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 21.2.2020 kl. 11:37

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Bjarna finnst það vera fúlt
og frekja gagnvart sínum FLokki,
"kjána" leyfa að koma í púlt
klæddan sitt í hvorum sokki.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 21.2.2020 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband