2911 - Wuhan-veiran og Grindavíkur-gosið

Á hverjum degi kemur mér í hug einhver vísa. Tekur sér þar bólfestu og fer ekki. Sama hvað ég reyni. Oft hefur mér komið í hug hvort ég sé ekki alltaf að endurtaka sömu visurnar. Það held ég samt ekki. Yfirleitt finnst mér að ég ráði afar litlu um það hvaða vísur mér koma í hug. Rétt áðan kom mér t.d. þessi vísa í hug. Held að þetta sé gamall húsgangur. Ekki hef ég grænan grun um hvers vegna mér kom þessi vísa í hug:

Runki fór í réttirnar
ríðandi á honum Sokka.
Yfir holt og hæðirnar
hann lét klárinn brokka.

Alltaf er verið að predika yfir manni að vara sig á falsfréttum og allskonar svindli, en aldrei er minnst á öruggasta ráðið við þessu. Það er nefnilega að vera nógu tortrygginn og prófa helst aldrei neitt nýtt og vera auk þess sífellt á varðbergi og telja öll tilboð sviksamleg. Þetta hef ég prófað en auðvitað eru gallar á þessu líka. Já, það er vandlifað í veröldinni. Auðvitað er best að vera hæfilega allan andskotann, en það er bara stundum dálítið erfitt.

Afbökun málshátta og orðatiltækja getur oft verið bráðskemmtilegt tómstundagaman. T.d. las ég einhverntíma um daginn (sennilega á fésbók) að einhver talaði eða skrifaði í fullri alvöru um að skíta í lófana og hefjast handa. Líklega hefur verið átt við þarna, „að spýta í lófana.“ Sumir tala alltaf um að „ekki sé hundur í hættunni“ í staðinn fyrir hundrað, en hvaða hundrað ætli sé átt við þarna? Sumir vilja telja að þetta sé komið úr Bridsmáli og vissulega geta menn verið „í eða á hættunni“ þar en ég mundi halda að fremur sé átt við jarnðarhunduð þarna, hugsanlega stór hundruð sem mér skilst að séu jafnt og 120 nútildax. Þetta „nútildax“ er annars fremur smellið orð og vel skiljanlegt. Það minnir mig á enn eina vísu, sem er þannig:

4, 8, 5 og 7
14, 12 og 9
11, 13 eitt og tvö
18, 6 og 10

Hugsanlega er Wuhan-veiran á undanhaldi. Síðustu 24 tímana fjölgaði nýjum tilfellum ekki eins mikið og sólarhringinn á undan. Auðvitað getur þetta stafað af einhverjum mistökum í skráningu og ekkert er hægt að fullyrða um þetta núna. Kannski bæði Grindavíkur-gosið og Wuhan-veiran láti okkur í friði að þessu sinni, nóg er nú samt. A.m.k. sakar ekki svolítil bjartsýni nú í öllu svartnættinu.

IMG 6404Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband