2901 - Loftslag um áramót

Síðasta blogginnlegg frá mér var kannski aðallega í sparnaðarskyni gert. Þá þurfti ég ekki að skrifa neitt en gat samt sett upp sæmilega langt blogg. Annars er meðvirkandi ástæða kannski sú að ég hef verið að lesa gömul blogg eftir sjálfan mig og satt að segja hafa þau, stundum a.m.k., talsverð áhrif á mig. Kannski er ég einn um að sýnast þau oft vera ansi góð. Verst af öllu þykir mér ef lesendum mínum finnst ég endurtaka mig um of. Skrítinn vil ég samt gjarnan vera.

Í fyrsta skipti í áratugi, og jafnvel í marga mannsaldra, sér unga kynslóðin nú um stundir ekki fram á að hafa það betra en foreldrarnir. Þetta er mikilvægur punktur vegna þess að flestir líta sér næst og hafa litla sem enga möguleika til að skilgreina heiminn útfrá hagfræðilegum forsendum. Augljóst er samt að heimsmálin stefna í þessa átt.

Skýrasta og svívirðilegasta birtingarmynd þessa er þegar hinir ríku láta sig hverfa inn í eigin himnaríki, skjól eða verndarsvæði, hvort heldur er um að ræða innmúraðaðar lúxusvillur með vopnuðum vörðum- eða það sem verra er: Aflandsfélög og skattaskjól, sem eru í raun hagkerfi fyrir útvalda.

Einhvers staðar rakst ég á þessa skáletruðu klásúlu og tek mér það Bessaleyfi að birta hana hér. Ég treysti mér ómögulega til að orða þetta betur. Þess vegna tek ég þá áhættu að birta þetta eins og það kemur af skepnunni. Þetta er með öðrum orðum mín skoðun og afstaða.

Meðan pöpullinn sækir hins vegar fast að komast í þessi skattaskjól og hagkerfi fyrir útvalda er ekki von á miklum framförum í jafnræðisátt. Sem betur fer er sá úrelti hugsunarháttur á undanhaldi a.m.k. hér á Vesturlöndum og er framsókn þeirra Warren og Sanders í bandarísku forsetakosningunum eitt skýrasta dæmið til marks um það.

Vissulega er það svo að t.d. Bretland, Sviss og Luxemburg hafa byggt stóran hluta auðs síns á þjónustu og þjónkun við það þjófræði sem þrífst á Tortóluríkjum um allan heim. Á þennan þjófnað þarf að koma böndum. Engin meining er í því að þeir sem nægilega ríkir eru komist hjá því með öllu, eða að hluta, að borga sinn hluta til sameigilegra þarfa. Enginn á að þykja fínn fyrir það eitt að stela meira en aðrir.

Fyrir nokkrum árum (fyrir 2016 samt) fór ég í gönguferð á Nýársdag og fór af einhverjum ástæðum út í Nauthólsvík. Þá kom mér mjög á óvart að harðsnúinn hópur manna fór í sjóinn þrátt fyrir kalsaveður (eins og núna). Nú virðist þetta hafa snúist uppí einhverskonar furðufataball og sjónvapsatburð. Ekki tel ég það samt vera til neins álitshnekkis fyrir þetta framtak, en bendi aðallega á þetta sem dæmi um það hve fljótt siðir og venjur geta breyst.

Nú er semsagt komið nýtt ár og flestir eru uppfullir af kjaftavaðli  af því tilefni. En ekki hann ég. Hélt satt að segja að ég væri búinn að skrifa meira en raun ber vitni til að setja á „bloggið mitt“. Þar sem þetta skrifelsi er ekki mjög bundið þeim tíma sem það er skrifað á læt ég það þó flakka núna. Í dag er annar í nýári og þessvegn ágætt að blogga svolítið. Skaupið var svosem ágætt. Mest fabúlerað um loftslagsmál, eins og gera mátti ráð fyrir.

IMG 6449Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll,skólabróðir.

Svo vitnað sé áfram í ummæli mismerkra manna, þá las ég eftirfarandi ummæli í grein á erlendu máli, sem ég leyfi mér að yfirfæra í lauslegri þýðingu:

"Lífskjör í heiminum verður að jafna, ef ekki á að koma til stórstyrjaldar milli þeirra snauðu og þeirra auðugu. Lískjörin verða þó ekki jöfnuð með þeim hætti eingöngu að bæta kjör þeirra sem hafa það skítt, heldur líka með því að gera kjör þeirra lakari sem hafa það of gott. Jörðin ræður ekki við annað."

ellismellur 2.1.2020 kl. 15:38

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, þetta er alveg rétt. Sú staðreynd að mannkyninu hefur fjölgað alltof hratt á undanförnum áratugum gerir það óhjákvæmilegt að jafna að verulegu leyti niður á við og það gerir þetta miklu erfiðara.

Sæmundur Bjarnason, 2.1.2020 kl. 16:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband