20.12.2019 | 09:24
2900 - Endurbirting
2900 Endurbirting
Held að það hafi verið árið 2013 sem ég skrifaði eftirfarandi blogg:
Það var síðastliðið sumar sem um það var talað að gera Stóra-Ásgautsstaðamálið opinbert. Ekki svo að skilja að ekki hafi verið talað um það áður. Aldrei hefur samt orðið neitt úr því að opinberlega væri um málið rætt. Bloggið mitt er í þeim skilningi opinbert að þónokkuð margir eru vanir að lesa það. Jafnvel væri hægt að kalla það fjölmiðil af einhverju tagi, ef löngun væri til.
Eftir talsverðar rökræður var ákveðið að ég sendi Láru Hönnu Einarsdóttur, sem er fyrrverandi vinnufélagi minn, bréf um þetta. Hún er vissulega orðin allþekkt og dregur yfirleitt hvergi af sér í málsvörn sinni fyrir lítilmagnann. Úr varð að ég skrifaði henni eftirfarandi bréf á Facebook:
Sæl og blessuð Lára Hanna.
Þú hefur svo sannarlega staðið þig vel í blogginu. Ert á margan hátt orðin málsvari lítilmagnans í íslensku þjóðfélagi. En ég er ekki að skrifa þér þess vegna. Svo er mál með vexti að ég er með bréf sem mig langar að senda þér. Í því eru upplýsingar sem kunna að vera viðkvæmar. Það sem ég er fyrst og fremst að velta fyrir mér er hvert þú vilt að ég sendi það. Netfangið altsvo. Helst vildi ég bara fá svarið hérna á fésbók, því ég fer svo sjaldan að skoða póstinn minn á Snerpu að meiri líkur eru á að slíkt fari framhjá mér þar.
Sæmundur Bjarnason
Þetta bréf var sent og samið í júlí í sumar. Lára Hanna svarað því strax um hæl og gaf mér upp netfangið sitt. Bréfið sem ég sendi henni þá var svona:
Ég sný mér bara beint að efninu og er ekkert með neinar krúsidúllur varðandi það.
Konan mín og systkini hennar eru erfingjar að níunda hluta jarðarinnar Ásgautsstaðir við Stokkseyri. Lögfræðingurinn Sigurður Sigurjónsson hrl. (í Kringlunni í Reykjavík ath. þeir eru tveir hrl. alnafnarnir) hefur verið með mál í gangi í mörg ár útaf misnotkun sveitarfélgsins Árborgar (og áður Stokkseyrar) á jörðinni. Fulltrúar sveitarfélagsins virðast leggja áherslu á að tefja þetta mál eftir megni. Það er ekki útaf vantrausti á lögfræðingnum sem ég sný mér til þín með þetta mál. Þarna er um sakamál að ræða sem á sér langa sögu og tengist húsbyggingum á Stokkseyri, sýslumannsembættinu á Selfossi og Bæjarstjórn Árborgar. Um er að ræða óheimila notkun lands, ólöglegar byggingar, skjalafals og hugsanlega ýmislegt annað.
Spurningin sem við erum að velta fyrir okkur núna tengist því hvort gera eigi mál þetta opinbert eða ekki. Hugsanlega mundum við gera það með opnun bloggsíðu eða Facebook-síðu um málið eða jafnvel með upplýsingum og ljósritum til fjölmiðla, ef þeir hefðu áhuga á að fjalla um málið.
Þar sem ég veit að þú kannar mjög vandlega þau mál sem þú hefur áhuga á, áður en þú hefst handa, vil ég gjarnan fá álit þitt á því hvað væri réttast að gera og hvernig væri best að undirbúa það. Hugsanlega er þetta mál mjög viðkvæmt á svæðinu sem um ræðir og þess vegna bið ég þig að sjálfsögðu að segja ekki öðrum frá þessu án þess að hafa fyrst samband við mig eða konu mína.
Lára Hanna svaraði því strax daginn eftir þannig:
Má ég bera málið undir Inga Frey hjá DV - án þess að nefna nein nöfn? Því miður er Kastljós í fríi fram í september, annars myndi ég kynna málið fyrir strákunum þar.
Mér finnst að þið eigið að gera þetta opinbert - alveg hiklaust.
Ég svaraði henni nokkru seinna og sagði:
Sæl Lára Hanna. Við höfum ennþá ekki gert neitt í málinu sem ég sagði þér frá fyrr í sumar. Mér skilst að Kastljós sé að koma úr fríi á næstunni og við værum mjög fegin ef þú vildir minnast á þetta við fólkið þar. Gagnvart þeim mundir þú ekki þurfa að gæta neinnar sérstakrar varúðar varðandi staðreyndir málsins, enda eru hálfkveðnar vísur ekki þeirra stíll. Ég er alls ekki að reka neitt á eftir þér, en ef Kastljós vill ekkert sinna þessu þá býst ég við að við reynum einhverja aðra leið og þessvegna vildum við gjarnan fá að vita um það eins fljótt og hentugt er.
Seinna reyndi ég svo að hafa samband við Láru Hönnu útaf þessu máli en það gekk ekki. Ég býst við að stórir fjölmiðlar hafi lítinn áhuga á þessu máli. Þetta skiptir mig samt nokkru og bloggið mitt er a.m.k. einskonar gluggaveggur þar sem ég get látið það sem mér sýnist. Og núna sýnist mér einmitt að setja þetta þar.
Eiginlega vilja þau systkinin bara vita hvers vegna sýslumaðurinn á Selfossi svari ekki bréfum sem til hans eru sannanlega send. Þarna á ég við bréf sem lögfræðingur meginhluta erfingjanna að jörðinni hefur sent honum. Svo virðist sem málið sé strand þar núna og hafi verið alllengi.
Allar þær fullyrðingar sem fram koma í þessari bloggfærslu er hægt að færa fullkomnar sönnur á með ljósritum og staðfestum afritum úr embættisbókum.
Kannski er núna sjö árum síðar kominn tími til að minna á þetta aftur. Ekki minnkar spillingin hér á landi.
Því miður á ég ekki von á því að margir nenni að lesa þessi ósköp. Kannski verður þetta til þess að þeim fækkar að mun þessum fáeinu föstu lesendum sem mér hefur tekist að koma upp með stanzlausu bloggi í fjölda ára, en það verður bara að hafa það.
Athugasemdir
Ég las þetta nú Sæmundur, kannski aðallega af einhverri áráttu til að lesa eitthvað svona skrítið sem ég botna ekkert í og á ekkert erindi við mig.
Gleðileg jól.
Þorsteinn Siglaugsson, 20.12.2019 kl. 13:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.