2864 - Blessað bloggið

Það hefur alltaf verið mitt vandamál í sambandi við þessi blessuð bloggskrif að ég hef átt í vandræðum með að takmarka mig. Þó hef ég bloggað ansi lengi eða síðan 2006 að því er Mogginn heldur fram og ekki efast ég um það. Talan í fyrirsögn bloggsins er áframhaldandi raðtala og það er sennilega markverðasta einkennið á mínu bloggi. Alla tíð hef ég bloggað á Moggablogginu. Meira að segja þegar Davíð Oddsson varð ritstjóri á Moggasneplinum þá hélt ég áfram þar. Enda er hann skyldur mér eða ég honum. En förum ekki lengra útí það.

Ættfræðigrúsk er ekki mín sterkasta hlið. Þó ég hafi, eða þykist hafa, vit á mörgu hefur mér gengið illa að takmarka mig við eitthvað ákveðið í blogginu. Mér finnst ég hafa smávegis vit á svo mörgu. Þetta á ég kannski sameiginlegt með flestum öðrum. Mínir mentorar í þessum efnum falla nú frá eða hætta að blogga í löngum bunum. Hafði t.d. mikið álit á Jónasi Kristjánssyni fyrrum ritstjóra og pólitískri þekkingu hans á mönnum og málefnum. Hans blogg las ég reglulega. Hann bloggaði að vísu eingöngu um stjórnmál og var stundum orðljótur og ákveðinn þar. Í mörgu öðru var hann einnig vel heima og skrifaði t.d. margar bækur. Svo dó hann, en sjálfur er ég „unglingurinn“ ekki nema 76 ára. Það er víst ekki einu sinni meðalævilengd íslenskra karlmanna, en þangað er ég áveðinn í að komast.

Þó ég viðurkenni alveg gagnsemi samfélagsmiðlanna svokölluðu og geti hæglega skrifað uppá að þeir séu einhver mikilsverðasta uppgötvun samtímans og breyti með róttæknum hætti öllum samskiptum fólks, er ég sannfærður um að hættan sem af þeim stafar sé raunveruleg. Auðvelt er og þægilegt að láta fésbókina, símann, tölvuna og allt þetta nýmóðins dót taka yfir líf sitt. En hvers virði er það eiginlega? Er ekki skömminni skárra að fást bara við það sem maður þekkir sæmilega. Mér finnst það. En ég er nú svo gamall, að það er ekki að marka.

Eiginlega hef ég, eða réttara sagt „við“, það á margan hátt betra fjáhagslega eftir að við komumst á eftirlaun og hættum að vinna. Auðvitað veit ég vel að þetta á ekki við um alla. Sumir hafa það meira að segja andskoti skítt. Fyrir þessari sæmilegu afkomu eru einkum tvær ástæður. Sú fyrri er að við þurfum ekki að greiða himinháa húsaleigu vegna þess að við eigum, a.m.k. að verulegu leyti, það húsnæði sem við búum í. Hin er sú að við eyðum afar litlu. Almennilegan ellistyrk frá ríkinu er alls ekki um að ræða. Eftirlaunin sem við höfum verið skylduð til að borga lífeyrissjóðunum svotil allt okkar líf, eru mun mikilvægari en sú hungurlús sem ríkisvaldið skammtar okkur eins og skít úr hnefa.

Að sumu leyti vorkenni ég þeim sem þurfa að vinna fyrir hverjum eyri sem þeir/þær/þau fá í sinn hlut. Aldrei, eða a.m.k. sjaldan, finnst mér að laun fyrir líkamlega vinnu séu of há. Afkoma fólks hefur batnað mjög verulega á þeim árum sem ég hef lifað. Sumir virðast þó taka sér mun hærri hlut en þeir þurfa án þess að hafa mikið fyrir því. Það er allsekki rétt að jafnaðarstefnan svo ekki sé nú talað um sósíalismann eða sjálfan kommúnismann, byggist á öfund í garð þeirra sem betri kjör og meiri peninga hafa. Á sama hátt er það alls ekki rétt að allir sem hafa það sæmilegt séu hið svokallaða „góða fólk“. Þetta er glósa sem hægrisinnar hér á landi hafa fundið upp. Vissulega er hún snjöll, en stjórnmál virðast núorðið mest snúast (a.m.k. hér á Vesturlöndum) um það hvernig taka beri á straumi flóttamanna. Þeir sem fyrir þeim ósköpum verða að þurfa (að eigin mati) að gerast flóttamenn eiga sjaldan val um annað. Og þó svo væri er engin leið að greina að hve miklu leyti efnahagur ræður því að fólk gerist flóttamenn.

IMG 6828Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Þú ert beðinn um að halda áfram. Þangað til þú ert allur. Verri bloggarar en þú eru til - og þú ert ekki sem verstur.

FORNLEIFUR, 15.7.2019 kl. 07:37

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Villi minn. Ég gleymi því ekki hvernig okkar kynni hófust. Þá valdir þú mér þau verstu skammaryrði sem finnanleg eru í málinu. Líka veit ég að þú lítur á þig sem sérstakan talsmann Ísraels-stjórnar og hagar oft málflutningi þínum á þann veg.

Hins vegar finnst mér oft mjög fróðlegt að fylgjast með skrifum þínum um fornleifafræði. Þar ert þú greinilega á heimavelli og nýtur þín mjög vel.

Þó við séum verulega ósammála um átökin milli Ísraels og Palestínu virði ég skrif þín mikils.

Sæmundur Bjarnason, 15.7.2019 kl. 13:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband