7.6.2019 | 21:34
2857 - Heimsendir
Bandaríska alríkisstjórnin ætlar á næstunni að athuga starfshætti tæknirisanna Amazon, Apple, Google og Facebook. Aðrir eru ekki á þessum lista. Væntanlega eru þeir ekki nógu stórir eða þá að þeir hafa verið rannsakaðir áður. Ekki held ég að þetta sé runnið undan rifjum Trumps, en sumir (þar á meðal ég) virðast hafa fyrir reglu að kenna honum um allt sem aflaga fer. Lítið álit mitt á og stöðug gagnrýni á Facebook er heldur ekki úr Trump-skúffunni. Eða það held ég a.m.k. að sé ekki. Að setja sjálfan sig á stall með öllum þessum risum er auðvitað sjálfhælni á hæsta stigi, en ég get ekki að því gert.
Forseti Íslands lætur sig hafa það að grilla til góðs. Sagt er að þessi heimsviðburður muni eiga sér stað á Kótilettunni, sem einu sinni var og er kannski enn nafnið á bæjarhátíðinni á Selfossi. Þeir voru svo seinir að koma sér upp einni slíkri að þeir fundu ekki betra nafn. Kannski ber að þakka Sláturfélagi Suðurlands þessa nafngift. Forsetinn lætur hafa sig út í allskyns vitleysu eins og að segjast ætla að banna ananaspizzur. Reyndar held ég að þessi grillun hans sé allra góðra gjalda verð. Einu sinni gengu menn til góðs, en það er víst liðin tíð. Næst verður sennilega annaðhvort gutlað eða gjammað til góðs og væntanlega mun ég ekki taka þátt í því frekar en öðrum forsetaviðburðum.
Loftlaus dekk sem geta ekki sprungið. Michelin hefur kynnt slík dekk, en þau verða ekki til sölu í verslunum fyrr en svona árið 2024. Hver nennir að bíða eftir því. Eiginlega finnst mér sem næstum því sé það orðið óþekkt fyrirbrigði að springi dekk. Öðruvísi mér áður brá. Einu sinni voru punkteringar svo algengar að engir voru svo vitlausir að leggja í langferð án varadekks. Nú heyrir maður varla minnst á punkteringar. Hætt er með öllu, held ég, að nota slöngur innan í dekk og þar með hafa hinar eiginlegu dreifbýlistúttur misst sjarma sinn og eru víst löngu orðnar ófáanlegar. Man að eitt sinn eignaðist ég einar slíkar. Hvítbotnuðu gúmmískórnir þóttu þó flottari.
Listrænar ambisjónir eru hættulegar. Kannski getur stundum gengið í íþróttum að gera það sem maður heldur að viðhlæjendur vilji en slíkt gegnur ekki í listum og bókmenntum. Þar dugar ekkert annað en þrautseigja og hæfileikar að viðbættri ótakmarkaðri ástundun. Ef listamenn ímynda sér að einhverju takmarki sé náð þá er eins gott að hætta strax. Að vera að streða við það alla ævi, að bæta sig í einhverju er til harla lítils ef hæfileikarnir eru ekki fyrir hendi. Ef sóknin eftir bætingu er ekki altumlykjandi er lítil von til þess að streðið sé til nokkurs.
Í sumum ríkjum Bandaríkjann hafa að undanförnu verið samþykkt margvísleg lög sem þrengja verulega að þeim sem vilja hafa fóstureyðingar sem frjálsastar. Viðurlög hafa sumsstaðar verið hert verulega og jafnvel engar undantekningar leyfðar. Margir búast við að Hæstiréttur Bandaríkjanna muni ógilda þessi lög og þeim hefur víða verið mótmælt. Saksóknarar margir hafa og lýst því yfir að þessum lögum verði ekki framfylgt.
Búist er við enn einum heimsendi 9. september næstkomandi en þá er búist við að allstór loftsteinn eða smástirni muni heimsækja okkur. CNN telur þó að ekki sé mikið að óttast. Kannski það sé enn ein falsfréttin þar að áliti Trumps. Þær eru víst nokkuð margar.
Athugasemdir
Undirritaður átti tengdamóður á Húsavík og í hverri viku fékk hún matvæli send heim úr kaupfélaginu.
Eitt sinn er ég var í heimsókn hjá þeim heiðurshjónum heyri ég frúna kalla niður í ljósmyndastofuna:
"Pétur! Heimsendirinn er kominn!"
Þorsteinn Briem, 7.6.2019 kl. 21:52
Akranes nú alveg flatt,
enginn sements skorsteinn,
ótrúlegt en samt þó satt,
sem ég heiti Þorsteinn.
Þorsteinn Briem, 7.6.2019 kl. 22:01
Þorsteinn Briem, afabróðir minn, sem undirritaður heitir í höfuðið á, var prestur og ráðherra á Akranesi.
Þorsteinn Briem, 7.6.2019 kl. 22:23
Steini kallast strákurinn
stundum eitthvað skárra.
Fallinn stóri strompurinn
stytta ósköp fárra.
Sæmundur Bjarnason, 8.6.2019 kl. 11:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.