2856 - Enn um málþófið

Að minum dómi er þess ekki að vænta að málþófið mikla sé á leiðinni í burtu. Að miklu leyti má líta á þetta sem einskonar störukeppni á milli Sigmundar Dvíðs og Steingríms Jóhanns og þar sem báðir eru þverhausar hinir mestu er þess ekki að vænta að þófinu linni alveg á næstunni. Þetta þykist ég skilja því ég er sjálfur þverhaus mikill og ég get alveg sett mig í þeirra spor. Ríkisstjórnin getur ekki hvitþvegið sjálfa sig og ætlast til þess að aðrir leysi málin fyrir hana. Að svo mæltu mun ég ekki tala meira um þetta málþófsmet, en fróðlegt verður að sjá hvor vinnur. 9 þingmenn geta hvenær sem er bundið enda á þessa vitleysu, en vilja það ekki.

 

Að kæra Trump Bandaríkjaforseta til embættismissis (impeach) er vitatilgangslaust, því ef hann hagar sér ekki þeim mun asnalegar á næstunni en hann hefur þó gert higað til, er engin von til þess að öldungadeildin fallist á embættismissi hans. Þvert á móti má gera ráð fyrir að sigurlikur hans í kosningunum næsta haust aukist umtalsvert ef hann verður kærður. Þó Demókratar hafi meirihluta í fulltrúadeldinni dugar það ekki til. Stjórnmál í Bandaríkjunum hafa oft verið minna flokkspólitísk en þau eru um þessar mundir. Framgöngu Trumps er að miklu leyti um að kenna. Hann hefur á ýmsan hátt aukið viðsjár milli manna, ekki síst á þingi og meðal stjórnvalda. Segja má ennfremur að framganga hans í alþjóðamálum hafi aukið stríðhættu í heiminum. Nú hefur hann boðað nýjar tillögur um lausn Palestínuvandamálsins og satt að segja búast menn ekki við miklu úr þeirri átt.

 

Kannski er hættan af skipulagðri glæpastarfsemi ofmetin hér á landi og kannski ekki. Ekki skil ég samt í að margir finni muninn á því að verða fyrir skipulagðri glæpastarfsemi og óskipulagðri. Óskipulagða (= innlenda - sbr. helvítis utanbæjarmennina) glæpastarfsemin held ég að sé alveg eins hættuleg og hin. A.m.k. fyrir okkur pöpulinn, en kannski ekki löðlegluna og þessvegna þurfum við að passa okkur sérstaklega á henni. Annars held ég að ríkislögreglustjóri sé allra manna hættulegastur. Ég átta mig bara ekki á því hvort hann er skipulagður eða óskipulagður.

 

Þrjár klausur í hverju bloggi er algjört lágmark að mínu viti. Samt er ég ekki meðmæltur því að tala bara og tala til þess eins að tala. Alveg sama máli gegnir um skrif hvers konar. Ekki er sniðugt að skrifa bara til þess að skrifa. Þessvegn er ég að hugsa um að hætta núna.

 

IMG 6903Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Sigtryggur vann!" cool 

"Hljómsveitir og tónlistarmenn, íslenskir sem erlendir, skemmtu á Röðli og auk þess að vera frægur fyrir Helgu á peysufötunum starfaði þar glímukóngurinn Sigtryggur dyravörður Sigurðsson.

Hann varð svo frægur að hljómsveit var skírð í höfuðið á honum og Þursaflokkurinn notaði einnig nafn hans í frægu lagi, Sigtryggur vann!"

Þorsteinn Briem, 3.6.2019 kl. 17:45

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stafkarlinn þar steyptist í,
Steingrímur með joðið,
eitrað Mývatn út af því,
ef þið bara skoðið.

Þorsteinn Briem, 3.6.2019 kl. 17:50

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hvað nefnast þeir sem málþófast svo ötullega að öðrum þingmönnum verður orða vant, ekki af undrun, heldur af því að þeir komast ekki í púltið. Ættu þannig menn ekki að kallast málþjófar?

Þorsteinn Siglaugsson, 3.6.2019 kl. 18:33

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini minn.
Ármann J. Lárusson vann Grettisbeltið oftar en Sigtryggur, en það er rétt hjá þér að glósan "Sigtryggur vann" er mjög þekkt.

Sæmundur Bjarnason, 3.6.2019 kl. 22:44

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Eltir Steini alltaf mig
ekki fæ ég skilið.
Yrkir núna og signir sig
soldið bak við þilið.

Sæmundur Bjarnason, 3.6.2019 kl. 22:46

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Siglaugsson, þeir sem hertaka ræðustólinn á alþingi á þann hátt sem Miðflokksmenn gera um þessar mundir gætu sem best kallast púltþjófar, en málþjófar er mjög gott orð. Minnir líka á málþóf.

Sæmundur Bjarnason, 3.6.2019 kl. 22:51

7 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Sé ekki varist þá tapast málið,  það er gömul saga og ný.

Hrólfur Þ Hraundal, 4.6.2019 kl. 16:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband