2854 - Maduro, Barr og Pompeo

Dómsmálaráðherrann í stjórn Trumps bandaríkjaforseta neitar að mæta í yfirheyrslu hjá fulltrúadeild þingsins. Ég er ekki að segja að þetta sé merki um mikið ósamkomulag milli þings og ríkisstjórnar í USA. Það gæti þó leitt til stjórnlagaþrætu þar í landi. Sömuleiðis er ekki hægt að horfa með öllu framhjá hótunum utanríkisráðherra sama ríkis um að fara með hernaði gegn Venezúelabúum ef fyrirskipunum er ekki hlýtt. Hugsanlegt og jafnvel líklegt er að um allt þetta verði samið. Vonum það a.m.k.

Annars hefur dregist úr hömlu að koma Maduro Venezúelaforseta frá völdum. Við Íslendingar höfum lagt okkar lóð á þær metaskálar og ekki er hægt að horfa framhjá því að ríkisstjórninni þar hafa verið ákaflega mislagðar hendur við stjórnun ríkisins.

Þó ég sé langt frá því að vera einhver sérfræðingur í heimsmálum fer ekki hjá því að ég velti slíkum málum fyrir mér. Að mestu er ég sammála Hjalmtý Heiðdal um að rétta ráðið hefði verið fyrir Hatara að hunsa Sönglagakeppnina með öllu að þessu sinni. Sérstaklega ef tekist hefði að fá fleiri þjóðir með til þess. Alþjóðleg hunsun hefur hingað til gefist nokkuð vel. Sú leið var ekki valin og því er þýðingarlaust að velta því fyrir sér. Reiknum bara með og vonumst eftir að Hatarar standi sig vel. 

Ef ég á að bollaleggja um heimsmálin áfram fer ekki hjá því að ég staðnæmist við Assange. Þó hann hafi verið sakfelldur allharkalega fyrir að hafa komið sér hjá því að mæta fyrir rétti í Bretlandi er þar annað mál gegn honum sem úrskurður fellur víst í mjög fljótlega og skiptir meira máli. Það er framsalskrafa bandaríkjamanna. Ég held satt að segja að hann verði ekki framseldur. Hann er álíka úreltur og núverandi bandaríkjastjórn.

Einu dómsmáli enn bíð ég eftir að ljúki. Það er krafa ALC varðandi WOW-flugvélina. Held að bandaríkska fyrirtækið hafi gert mistök í því að hóta Íslendingum og að dæmt verði Isavia í vil í því máli. Þó dregur það hugsanlega úr slíkum líkum að forstjórinn er nýbúinn að segja af sér.

Svo er Íslandsmeistaratitillinn í körfubolta í veði í kvöld. Ég vona svo sannarlega að ÍR-ingar vinni. KR-ingar eru næstum því eins óþolandi og Valsarar.

Ýmislegt fleira ætlaði ég mér að minnast á, en sennilega bíður það bara betri tíma.

IMG 6926Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jóhannes var jafnan hér
japlið mitt að skoða.
Hefur kannski komið sér
með kveðskapnum í voða.

Sæmundur Bjarnason, 7.5.2019 kl. 09:32

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Fjarvist gerð er grunsamleg
þó gleði sólar njóti.
Öllum dögum eyði ég
úti að hlaða grjóti.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.5.2019 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband