2849 - Notre Dame

Ég hef aldrei komið í Notre Dame kirkjuna og slepp þessvegna naumlega við að lýsa yfir hryggð minni og samstöðu með frjálsum Frökkum. Annars er þessi atburður ekki til að gera grín að. Samt er móðursýkin og gráturinn eftirtektarverður.

Hvernig sem á því stendur finnst mér þessi fontur ekki vera af réttri stærð. Tölvan heldur samt öðru fram og líklega verð ég að sætta mig við það. Síminn minn, eða réttara sagt Fitbitið mitt hélt því fram áðan að meðalhraði minn væri undir 10 mínútum per kílómeter. Þetta er ég alveg viss um að stendst ekki. Einu sinni gekk ég að vísu 5 kílómetrana undir 60 mínútum en það er liðin tíð. Nú er ég orðinn svo gamall að ég kemst með engu móti svona hratt áfram.

Í gamla daga sagði mamma alltaf að þar sem rottur væru þar væru ekki mýs. Þórarinn Þórarinsson sem kannski er Tíma-Tóta son skrifaði um rottur í bakþönkum Fréttablaðsins síðastliðinn föstudag. Í lokin segir hann:

„Þar sem er fólk eru rottur. Hefur alltaf verið þannig og verður alltaf, þannig að það verður bara að hafa það og ég verð að játa mig sigraðan í baráttunni við óttann og rotturnar.“

Þetta held ég að sé ekki rétt hjá honum. T.d. er ég nokkuð viss um að í alþjóðlegu geimstöðinni eru engar rottur. Jafnvel ekki einu sinni mýs. Þó er ég ekki alveg viss um að allir séu mennskir sem þar eru eða voru.

Í íslenskri fyndni eða íslenskum þjóðsögum er frá því sagt að kerling ein hafi mælt fram þessa vísu af gefnu tilefni.

Mörgum þótti málug ég,
mælti kerling skrýtileg.
Þagað gat ég þó með sann
þegar hún Skálholtskirkja brann.

Eiginlega er ekki hægt að blogga nútildax án þess að minnast á þriðja orkupakkann. Sennilega er ekki mikið um hann að segja. Minnir að ég hafi verið búinn að afgreiða hann fyrir nokkru.

Var að skoða gömul blogg og ýmislegt fleira sem ég fann svona hálfgert óforvarendis á tölvunni minni. Sömuleiðis er ég sífellt að fá einhverjar áminningar og þessháttar frá fésbókinni. Þó mér þyki hún yfigangssöm og fjandanum leiðinlegri stundum, þá get ég ekki annað en notað þessi ósköp. Það er næstum ómögulegt að hunsa hana. Kannski ég birti eitthvað gamalt hér á blogginu mínu. Alveg er ég hissa á því hvað ég hef verið frumlegur stundum.

Sem betur fer er fésbókin ekki fitandi. Þó styður hún hegðun sem valdið getur offitu. Þetta er efni sem ég á kannski eftir að fara betur ofaní í framtíðinni. Látum þetta nægja að sinni.

Annars er ég í nokkurskonar páskafríi frá bloggskrifum núna. Aðdáendur mínir (ehemm – þeir gætu verið nokkrir) eru beðnir um að örvænta ekki. Ég mun ná mér að fullu og skrifin koma aftur.

IMG 6953Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Aldrei tárum eyðir hann
engum játar trúar,
þegar kaþólsk kirkja brann
kunn sem, Vorrar frúar.




Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.4.2019 kl. 18:45

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þegar kaþólsk kirkjan brann
kunn sem Vorrar frúar.
Engum tárum eyddi hann
og engri játar trúar.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.4.2019 kl. 21:58

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ein er trúin ekki best
engum eirir siði.
Hníg til foldar fyrir rest
og fæ að hvíla í friði.

Sæmundur Bjarnason, 18.4.2019 kl. 22:29

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Hér að yrkir Hallgríms sið
og hvíluna upp svo reiðir.
Á skírdag ekki skirrist við
að skunda eigin leiðir.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.4.2019 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband