2842 - Verkföll og fl.

Nei, ég er svosem ekki alveg hættur að blogga. Samt er það svo að á því má þreytast eins og mörgu öðru. Ekki nenni ég að vera bergmál af því sem aðrir skrifa. Þó eru öll skrif þannig að betur má gera og þar að auki er engin hugsum með öllu frumleg. Fréttafíkn mín hefur ekkert minnkað og margt og mikið hefur verið í fréttunum að undanförnu. Mínar skoðanir á heimsmálunum hafa lítið gildi. Ef ég fabúleraði einkum í þessu bloggi um mig sjálfan og mitt líf mundi lesendum mínum sjálfsagt stórfækka. Þó veit ég allsekki hvort margir eða fáir lesa þessar hugleiðingar mínar og við hvað á að miða í því efni. Einu sinni (já, ég er búinn að blogga ansi lengi) áttu ýmsir það til að kommenta á mín skrif. Nú er það að mestu hætt. Sennilega fá flestir nóg af sinni skrifnátturu á fésbókinni. Sjálfum finnst mér hún eins og hver annar kjaftavaðall. Stundum merkileg en oftast hundleiðinleg. Hef stundum þegar mér leiðist óvenjumikið skoðað gömul eigin blogg og þau eru satt að segja oft býsna fróðleg. Fyrir mig altsvo. Ekki geri ég ráð fyrir að aðrir skoði þau.

Það er leiðinlegt að þurfa að segja það, en ég held að eitt helsta vandamál stjórnmálanna í dag sé það, að forsætisráðherrann okkar, hún Katrín Jakobsdóttir, sé bara heldur vitgrönn. Það sem ég hef fyrir mér í því er að hún er alltof eftirgefanleg við BB, sem greinilega er með skýra sýn á það sem hann helst vill. Ég er ekki svo skyni skroppinn að ég haldi að þau tvö vilji ekki þjóðinni allt það besta. Samt er það svo að KJ lætur alltof mikið eftir Steingrími (sem þykist eiga VG) og BB. Steingrímur hugsar um það helst og fremst að yfirgefa stjórnmálin með því sem hann telur sæmilegri reisn og peningum. Honum er fjandans sama um flest annað. Stóð sig samt sæmilega í endurreisn Íslands eftir Hrunið, en heldur ekki meir.

Skýrasta dæmið um hringlandahátt Katrínar og hina takmörkuðu hugsun hennar er að hún skyldi kjósa með Sigríði dómsmálaráðherra þegar vantraust á hana fyrir nákvæmlega það sama og mannréttindadómstóllin fordæmdi hana fyrir var til umræðu. Auðvitað má segja að loksins hafi hún séð ljósið þegar hún krafðist þess að Sigríður færi frá. Sennilega var það bara alltof seint. Kannski lafir þessi svokallaða ríkisstjórn okkar eitthvað áfram, en hún er rúin öllu trausti og fer áreiðanlega frá áður en kjörtímabilið er á enda. Læt ég svo lokið stjórnmálaskrifum mínum í þessu bloggi.

Umræður á fésbókinni um flóttamenn og hælisleitendur er orðin slík að ég forðast að líta þangað. Umræður um verkfallsmál eru keimlíkar þar, en þó öllu skárri. A.m.k. stundum. Þó Morgunblaðið sé lítið betra en fésbókin að flestu leyti, verð ég að hrósa þeim sem þar ráða ríkjum (eða ríða rækjum) fyrir fréttaskrifin. Þau eru miklu betri og ítarlegri þar en víðast hvar annarsstaðar. Einhverjir eru það sem jafnaðarlega lesa það sem nýlegast og best er á Moggablogginu. Alveg er mér sama þó það séu fyrst og fremst íhaldskurfar, sem á það skrifa. Yfirleitt eru þeir ekki á sömu skoðun og ég í stjórnmálum. Halda má því fram að ekki veiti af að kristna þá. Vinstri sinnuðum skoðunum biðst ég ekki afsökunar á.

IMG 7003Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Eins og dreypt sé edik í
og osti hleypt í fötu.
Í hugann greypt er þrykk af því
þegar gleypti Bjarni, Kötu.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 25.3.2019 kl. 13:35

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jóhannes í fötu fór
feiknalega stóra.
Í henni var kattar klór
frá KötuBjarnastjóra.

Sæmundur Bjarnason, 25.3.2019 kl. 16:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband