2832 - Sækýrin

Nú hefur mér loksins tekist að semja eitt stykki örsögu og fylgir hún hér með:

Sækýr eru merkilegar skepnur. Einu sinni þegar Jón á Hóli var að koma heim frá gegningum sá hann eina slíka. Hún var grá að lit eins og sagt er að þessar skepnur séu jafnan. Strax fór Jón að reyna að sprengja blöðruna sem var framan á nösunum á henni. Hann hafði nefnilega heyrt að með því mót mætti koma í veg fyrir að hún leitaði í sjóinn aftur.

Ef allt gengi síðan að óskum gæti hann kannski komið henni fyrir á auða básnum við hliðina á hinum tveimur beljunum sem hann átti. Samkvæmt sögusögnum voru sækýr mestu kostagripir.

Fyrr en varði tókst honum að komast milli kýrinnar og sjávarins og þá var mikið unnið. Kýrin var nefnilega ekkert ákaflega fljót í förum og Jóni bónda tókst eftir talsvert stímabrak að sprengja blöðruna.

Kýrin varð þá ljúf eins og lamb og leyfði honum að leiða sig inn í fjósið. Þegar þangað kom flýtti Jón sér að koma henni fyrir á auða básnum.

Hann tók nú í hendina á sjálfum sér og óskaði sér til hamingju með afrekið.

Því miður er saga þessi ekki lengri en fróðlegt hefði verið að vita hvernig kýrin reyndist. En hvernig sem leitað er í lausum blöðum frá Sighvati á Stóru-Móum hefur mér ekki tekist að finna niðurlag þessarar sögu. Og er það skaði.

- - - - - - - - - - - -

Pólitíkin er skrýtin tík. Eins og ástandið í þjóðfélaginu blasir við mér núna er ekki annað að sjá en Klausturvitleysan ætli að sigra. Ekkert hefur orðið úr háværum mótmælum feminista og annarra útaf þeim dónaskap sem hafður var í frammi á Klausturbarnum sællar eða vansællar minningar. Margir höfðu þá hátt um nauðsyn þess að hinir og þessir segðu af sér þingmennsku.

Ekkert hefur orðið úr því og verður sennilega ekki úr þessu. Sigmundur Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson eru þeir einu sem græða á þessu upphlaupi. Katrín litla tapar sennilega mestu. Hún er orðin alger ómerkingur orða sinna. Kannski BB hreki hana bara úr ríkisstjórninni og taka Simma í staðinn. Ekki kæmi mér það á óvart. Líka er hægt að búast við kosningum að áliðnu sumri. Mestu ræður þar hverning verkfallsmál skipast. Ég er ekki sérlega bjartsýnn á að þjóðarhagur verði hafður þar í fyrirrúmi.

Ég gæti haldið áfram að bollaleggja um þess skrýtnu tík, en sennilega þýðir það ekki neitt. Ólíklegt er að ríkisstjórnin taki sönsum og líklegast er að hún atist eitthvað áfram. Vorið og sumarir gæti liðið áður en hún gerir sér grein fyriri vanmætti sínum og sigri vinstri aflanna.

IMG 7075Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Örsögu samdi af einskærri elju
asskoti fína svo súpa verð hvelju,
en bendi samt á
að alls ekki má
uppnefna kýrina og kallana belju.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 26.2.2019 kl. 13:52

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Kynlegt margt í kýrhausi
og kindarlegt það gráa.
Bóndadurgur beinlausi
og beljukýrin smáa.

Sæmundur Bjarnason, 26.2.2019 kl. 16:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband