10.2.2019 | 16:55
2823 - Bókasafn föður míns
Er nýbúinn að lesa bókina Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson. Þessa bók las ég spjaldanna á milli, sem er fremur sjaldgæft að ég geri núorðið. A.m.k. á þetta við um íslenskar bækur, eða eigum við að segja hlutgerðar bækur. Stundum klára ég bækur á Kyndlinum (sem er spjaldtölvan mín) en þær eru yfirleitt eða næstum alltaf á ensku. Ég fæ mér nefnilega einungis ókeypis bækur þar. Skipti talsvert við bókasafnið hér á Akranesi og glugga oft í bækur sem ég fæ þar, en les þær sjaldnast spjaldanna á milli. Hef oftast nær hálfgerðan antipata á skáldsögum og þó einkum krimmum, þó ég lesi þá svosem stundum. Eða hafi gert.
Þessi nefnda bók er um Ólaf Ragnarsson sem ég man vel eftir úr sjónvarpinu. Man að það kom mér svolítið á óvart þegar hann keypti Helgafell. Hafði nefnilega lesið talsvert um Ragnar í Smára og bókaútgáfuna Helgafell, en þekkti eiginlega ekkert til Vöku. Bókin þessi er mjög góð og bæði áhrifamikil og fyndin. Samsett er hún úr tilvitnunum og allskyns hugleiðingum án þess þó að vera endurtekningarsöm.
Við hjónin gáfum bæði Bjarna og Benna þessa bók í jólagjöf. Veit ekki hversvegna ekki Hafdísi, eflaust hefur Áslaug ráðið því. Bjarni dundar sér við bókasöfnun og Benni hefur alla tíð lesið mjög mikið. Bók þessi fjallar mikið um bækur og verðleysi þeirra auk þess að vera einskonar minningarbók um Ólaf.
Vitanlega gæti ég fjölyrt talsvert um þessa bók hér, en það er ekki minn stíll. Einmitt núna vil ég frekar tala um Kyndilinn. Þó ég noti þessa spjaldtölvu (Kindle fire fyrsta útgáfa) talsvert og komist á netið með henni nota ég hana aðallega til að fara með í rúmið og skoða bækur þar.
Þar get ég verið með aðgang að þúsundum bóka og er alveg laus við bókastaflana við náttborðið og í kringum það eins og einu sinni var. Ekki hef ég gert mikinn reka að því að fá nema ágrip og kynningu á íslenskum bókum þarna. Þar er bókasafnið betra.
Áhrifavaldar skilst mér að hafi að mestu komið í veg fyrir stækkun svokallaðrar auglýsingaköku sem hefðbundnum og öldruðum fjölmiðlum verður mjög tíðrætt um. Líka er það orðið áberandi víða á Internetinu, sem ég flækist svolítið um, hve íslenskar auglýsingar eru orðnar algengar þar. Sennilega sjá þær þó ekki aðrir en þeir sem hafa endinguna .is í því sem ég man ekki hvað heitir á tölvumáli. Kannski er það einkum yngsta fólkið, sem þó er orðið fullorðið, sem er á valdi þessara áhrifavalda. Og börn og unlingar hugsanlega líka. Annars þekki ég þá ekki neitt.
Fésbókin hefur stundum fengið það óþvegið hjá mér. Að sumu leyti finnst mér að það sem ég segi um hana geti svosem átt við um samfélagsmiðlana alla. Mér finnst t.d. ekki vitund óþægilegt að hugsa til þess að allir geti lesið allt það sem þar hefur verið skrifað gegnum tíðina. Allt sem ég læt frá mér fara geri ég ráð fyrir að allir sem minnsta áhuga hafa á því geti hindrunarlaust kynnt sér hvenær sem er.
Sumir virðast halda að samfélagsmiðlarnir svokölluðu séu alveg sambærilegir við tal eða ættum við kannski frekar að segja kjaftæði, sem bara er ætlað þeim sem það hlusta á. Svo er ekki. Sumir þessara miðla halda því fram að eftir svo og svo langan tíma sé því eytt, sem skrifað hefur verið eða birt, en hvaða sönnur eru fyrir því og geta ekki þeir sem vilja tekið afrit á þeim tíma?
Athugasemdir
Kindle er mikið þarfaþing. Ég bý við þann vafasama lúxus að sitja uppi með nokkur þúsund binda bókasafn, en Kindle gerir mér kleift að halda áfram að kaupa bækur eins og enginn væri morgundagurinn, án þess að þurfa að hafa áhyggjur af geymsluplássi.
Þorsteinn Siglaugsson, 10.2.2019 kl. 17:22
Fróður les um land og þjóð
lóð á vogar skellir.
Hlóðir andans grefur glóð
góða dóma fellir
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 10.2.2019 kl. 22:02
Nú skal hendu fríða hring
hugsun venda að semja.
Andans lendur allt um kring
æfðri hendi lemja.
Sæmundur Bjarnason, 10.2.2019 kl. 23:39
Já, Þorsteinn. Kyndillinn sparar ýmislegt, t.d. pláss. Hann er sko ekkert vafasamur.
Sæmundur Bjarnason, 10.2.2019 kl. 23:42
Umbreytt í sléttubönd hljóðar vísan svona:
Fróðir lesa um land og þjóð
lóðir á vogir skella.
Hlóðir andans grefur glóð,
góða dóma fella
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 10.2.2019 kl. 23:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.