11.1.2019 | 09:46
2808 - Hrossatað
Kannski er ég búinn að verða mér úti um sérstakan bloggstíl, með númeragjöfinni einkum og sér í lagi. Treysti mér varla til að fullyrða um neitt annað. Aðra get ég miklu fremur fjölyrt um. Til dæmis er mér engin launung á því að undanfarið hef ég einkum hrifist af þeim bloggstíl sem Jens Guð hefur tamið sér. Í gegnum tíðina hef ég þó haft fleiri mentora í þessum efnum, en ég læt liggja á milli hluta að nefna þá. 2808 blogg verða sko ekki til af sjálfu sér.
Man vel eftir mínum fyrstu bloggum hér á Moggablogginu. Áður hafði ég gert smávegis tilraunir með slíkt á PITAS.COM. Salvör Kristjana varð einna fyrst til að veita bloggum mínum athygli og kommenta á þau. Bloggkomment eru að sínu sínu leyti alveg eins og blessuð lækin á fésbókarfjáranum. Menn geta alveg orðið háðir þeim. Alltaf hef ég bloggað hér á Moggablogginu og er ekkert á leiðinni með að hætta því. Þeir eru greinilega farnir að skipta nokkrum hundruðum, sem varla láta hjá líða að lesa bloggið mitt. Enda er lestur ekki erfiður. Þó er eitthvað um það að erfiðlega gangi stundum að kenna slíkt og er það furðulegt. Þekki samt vel að börnum vaxi slík kunnátta mjög í augum. Svipað má um vísnagerð segja. Hún er ekki erfið ef menn leggja sig eftir slíku.
Talsvert hef ég velt því fyrir mér hve fyrirferðarmikil öll mín blogg yrðu ef þau væru prentuð út. Það held ég þó að verði seint. Eitthvað er um endurtekningar að ræða meðal minna blogga en þó held ég og vona að svo sé ekki í miklum mæli. Að minnsta kosti ekki í svo ríkum mæli að til vandræða horfi. Myndskreytingarnar hafa þó orðið sífellt fyrirhafnarsamari. Undarfarið hef ég einkum leitað í gamlar myndir, enda er ljósmyndadella mín á undanhaldi.
Sennilega er ég ekki einn um að fylgjast með Ófærðinni í sjónvarpinu. Merkilegast er þar að ekki ber mikið á ófærðinni sönnu og einu að þessu sinni. Þó ég geti ekki annað en viðurkennt að þessi þáttaröð er talsvert spennandi, átel ég stundum sjálfan mig fyrir að horfa á þennan samsetning. Í raun og veru er þetta ekki annað en það sem amerískar lögguseríur snúast yfirleitt um. Eini raunverulegi munurinn er sá að íslenska er töluð (oft illskiljanleg) í þessum þáttum og leikararnir eru íslenskir. Já, og svo má minna á það að hestaskítur er oftast nefndur hrossatað á íslensku.
Nú er orðið svo langt liðið á Janúar-mánuð og svo lagt síðan ér byrjaði á þessu blogginnleggi að ég verð eiginlega að fara að koma því frá mér. Ekki get ég að því gert þó það sé í styttra lagi. Það er bara svo lítið að frétta, þó Trumparinn sé ennþá einu sinni að æsa sig smávegis og með nýja árinu hefur sú gagnmerka breyting orðið á dauðanum sjálfum, að ríkið á núna innvolsið úr flestum Íslendingum. Ekki reikna ég með að ég hafi döngun í mér til þess að mótmæla þessu ofríki. Akkúrat í dag virðast flestir vera uppteknir af klukkunni. Ég er nú svo gamall að ég man greinilega eftir því að þegar ákveðið var að hætta þessari hringavitleysu með klukkuna (ætli það hafi ekki verið árið 1968 það var mikið breytingaár, var ekki hægri umferð tekin upp þá?) þá var ein aðalrösemdin sú að sennilega mundu flestar þjóðir hætta þessu fljótlega. Það hefur samt ekki orðið raunin og ég heyri ekki betur en sama röksemd sé uppi núna. Það er auk allra annarrra. Eiginlega byrjaði ég á þessu bloggi fyrir alllöngu en hef ekki komið því í verk að klára það. Set það bara upp eins og það er núna.
Athugasemdir
Það grömum augum gjarnan lít
sem gerir okkur gráhærð.
Þeir þekkja ekki skít frá skít,
sem skrifuðu þessa ófærð
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 11.1.2019 kl. 16:23
Ófærð núna enga lít
allan snjó þeir tóku.
Þekkja ekki skít frá skít
skrifararnir klóku.
Sæmundur Bjarnason, 12.1.2019 kl. 21:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.