2804 - Sjálfsævisaga

Hvar værum við stödd ef við hefðum engin nýjársheit? Auðvitað svíkjum við flest okkar nýjársheit. Þó það nú væri. Þau eru flest hvort eð er alveg óraunhæf. Ég gæti sem best lofað því að minnast ekki á Trump ræfilinn á næsta ári, en ég er alveg viss um að ég mundi svíkja það. Vinsældir hans innanlands eru vitanlega alveg furðulegar. Hins vegar virðist engum blöðum um það að fletta að meðal útlendinga er hann með óvinsælustu forsetum Bandaríkjanna sem um getur. Hvernig ætli standi á því? Hann hugsar bara um Bandaríkin kynni einhver að segja. En hafa Bandarískir forsetar ekki alltaf gert það? Eru Bandaríkjamenn ekki sjálfumglöðustu og óheiðarlegustu menn sem gengið hafa á þessari jörð. Er ekki allt stærst, best og mest í Bandaríkjunum? Það finnst þeim a.m.k. sjálfum.

Þetta blogg átti alls ekki að snúast um Bandaríkjamenn. Miklu fremur ætlaði ég að segja ykkur frá væntanlegu nýjársheiti mínu. Ég er nefnilega að hugsa um að skrifa sjálfsævisögu og byrja á henni á næsta ári. Auðvitað verður það bara uppkast. Miðað við það hve ég er úthaldsgóður við bloggskrifin og hve auðvelt ég á með að skrifa um allan fjandann þá ætti mér ekki að verða skotaskuld úr því að semja eina smá-sjálfsævisögu. Kemur ekki helvítis „skotaskuldin“ þarna eins og skrattinn úr sauðarleggnum einu sinni enn. Alltaf verður eitthvað til þess að glepja mig þegar ég ætla að byrja á einhverju stórfenglegu. Að sjálfsögðu yrði þessi sjálfsævisaga mín alveg stórkostleg og ekki er nokkur leið að ofmeta hana svona fyrirfram.

 Ekki lét ég fjandans „skotaskuldina“ glepja mig svo mjög að þessu sinni. Annars er áhugi minn á íslensku máli ekki nein uppgerð. Í þessari minni sjálfsævisögu, sem er næstum lokið, er þeim áhuga mínum gert hátt undir höfði. Svo má auðvitað ekki gleyma því að ég hef, með svolítilli aðstoð, gert Íslendingasögurnar aðgengilegar á Netinu og þarmeð sannað óbilandi trú mína á þeirri menningu sem við íslendingar höfum flestallir meðtekið með móðurmjólkinni. Greinilegt er að ég hef líka gott vald á orðatiltækjum og málsháttum, enda hef ég æfilanga reynslu af slíku.

Vitanlega gæti ég haldið áfram að fjölyrða um þessa væntanlegu sjálfsævisögu mína en hálfnað er verk þá hafið er eins og þar stendur, og auðvitað er ekki úr vegi að líta á þessa samantekt mína sem fyrst uppkastið að formála þeirrar merku bókar, sem hér hefur  stuttlega verið frá sagt. Þar sem ég er aftur farinn að tala um þessa bók, þá gæti ég sem best vikið fáeinum frekari orðum að þessum formála sem ég minntist á. Hugsanlega verður þessum orðum gjörbylt við frekari athugun. T.d. er ekki nokkur ástæða til að minnast á Trump Bandaríkjaforseta í þessum formála, sem kannski verður óhemju langur. Og rétt er að geta þess hér að ekki er víst að þessi bók komi út alveg á næstunni meðal annars vegna þess að ég reikna fastlega með að verða a.m.k. hundrað ára gamall.

Læt ég svo þessum hugleiðingum mínum lokið að þessu sinni og lofa því að hugsa betur um þennan blessaða formála. Auðvitað verður að vera bæði formáli, inngangur og aðfararorð að þessari títtnefndu bók enda er þar oft um einna mestan fróðleik um viðkomandi bækur að finna. Ég er líka mikið að hugsa um hvort ekki sé rétt að hafa atríðisorðaskrá í þessu verki. Sennilega verður ákvörðum um þann þátt að bíða eitthvað, enda liggur ekki lífið á að ákveða slíkt. Kaflaskiptingunni hef ég líka talsvert velt fyrir mér og satt að segja gæti Hveragerði sem best komið þar fyrir. Sannanlegt er að ég var með þeim fyrstu sem fæddist á þeim merka stað. Samkvæmt rannsóknum var ég þó af einhverju ástæðum ekki sá fyrsti.

Þennan bloggpistil samdi ég þegar ég varð andvaka um fjögurleytið síðastliðna nótt. Segið svo að andvökur geti ekki verið pródúktívar.

IMG 7411Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ætlar að bind inn bloggin sín
og bæta við "einhverjum myndum"
og hafana eins og Hagalín
helzt í tíu bindum.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.12.2018 kl. 20:40

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Sæmundur, þú verður ekki nema í mesta lagi fram að hádegi með ævisöguna, miðað við þennan andvökupistil, svo fremi þú vaknir á kristilegum tíma. Endilega skelltu í uppkast og nýttu síðan andvökustundir til lagfæringa, frekari pússningar og atriðaorðaskrár. Fyrir enga muni gleyma tilvísanalistanum, ef einhver er, því annars gætir þú lent í því sama og Hannes Hólmsteinn, hér um árið.

 Smelltu nú þegar inn á fésbókina kaupvænu tilboði af afurðinni, öll að sjálfsögðu fyrirframgreidd og sjáðu hvað gerist. Mér máttu hinsvegar senda gíróseðil, því ég greiði ekkert, nema fara í bankann og fá stimplaða kvittun frá gjaldkera, sem af einhverjum stórundarlegum ástæðum, stjórnendum bankanna virðist vera í óskaplegri nöp við og sjást varla orðið.

 Góðar stundir höfðingi sæll, með áramótakveðjum að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 29.12.2018 kl. 00:33

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hagalínssaga var helvíti góð
hjá honum gott að vera. 
Eltir mig jafnan sú andans glóð
af samt má kannski skera.

Sæmundur Bjarnason, 29.12.2018 kl. 15:20

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Halldór Egill, mér finnst þú vera óhóflega bjartsýnni fyrir mína hönd. Þetta með æfisöguna gæti samt verið athugandi í framtíðinni.

Hver veit nema ég safni einhverntíma saman því skásta úr blogginu mínu og setji það í bók. Nóg ætti efnið allavega að vera!!!

Sæmundur Bjarnason, 29.12.2018 kl. 15:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband