12.12.2018 | 22:48
2799 - Reddast þetta nokkuð?
Eigi veit eg þat svo gjörla, en hitt veit eg að stjórnmálin snúast fyrst og fremst um mikil eða lítil afskipti stjórnvalda af hinum ýmsu málum. Það sem fyrst og fremst þyrfti að reddast núna eru loftslagsmálin og hnatthlýnunin. Einn helsti forsvarsmaður einkaframtaksins í heiminum, sjálfur yfir-Tromparinn eini og sanni hefur afneitað öllum hallelújakórum og vísindasamfélaginu að mestu leyti, sem segja að allt sé að fara til fjandans ef ekki sé það samþykkt að mannkynið alltsaman sé með athæfi sínu að ganga of nærri náttúrunni sjálfri. Þó ekki sé sú svartsýnisspá samþykkt af öllum nema Trump er því ekki að neita að miklu fylgi á sú spá að fagna. Best er auðvitað að reyna eftir mætti að leiða slíka spurningu hjá sér, þó sennilega sé ekki hægt að gera það endalaust. Næst á eftir lífsgátunni sjálfri er þetta eflaust sú allra mikilvægasta.
Ekki hef ég lagt það á mig ennþá að horfa á Flateyjargátuna í sjónvarpinu. Þó las ég bókina á sínum tíma. Held að sjónvarpsútgáfan fjalli um allt aðra hluti. Nenni samt ekki að gá að því. Er mikið að velta því fyrir mér hvort ég eigi að horfa á Ófærð II sem mér skilst að verði sýnd eftir áramótin. Yfirleitt er ég ekki hrifinn af sjónvarpsefni. Það er helst að ég horfi þar á fréttir. Svo fylgist ég svolítið með íþróttum og læt helst ekki Kiljuna framhjá mér fara. Kvikmyndir eru næstum á bannlista hjá mér eins og amerískir sakamálaþættir, sem ég forðast eins og pestina. Íslenskar kvikmyndir koma þó alveg til greina.
Kannski les ég allt of mikið á Internetinu. Þó hef ég talsverða andúð á fésbókinni. Fer samt þangað flesta daga, en yfirleitt ekki með símanum. Oft er Netið eina ráðið til að fylgjast almennilega með nýjustu kjaftasögunum. Sumar eru dagsannar en aðrar haugalygi. Hvernig á að þekkja það í sundur. Sá sem finnur auðvelda og handhæga leið til slíks í einkaframtakslandi verður eflaust forríkur.
Einelti og nauðgunartilburðir eru fordæmdir í mannlegu samfélagi og ekki dettur mér í hug að mæla slíku á nokkurn hátt bót. Slíkir tilburðir eru samt ótrúlega algengir í dýraríkinu. Sjálfur hef ég oft fylgst með slíku á meðal fugla og þó dýr éti hvort annað og ekki síst maðurinn a.m.k. önnur dýr þá virðast flestir horfa í gegnum fingur sér með það, sé það gert á vissan og viðurkenndan hátt. Þvíumlíkar venjur geta þó fyrirvaralaust breyst eins og sannast hefur á hvölunum. Einu sinni voru þeir réttdræpir hvar sem er og hvernig sem er, en nú er öldin önnur.
Stundum, einkum þó í auglýsingum og þáttum allskonar, er því haldið fram að bækur séu upphaf og endir alls góðs. Þvílík endemis vitleysa. Svo er alls ekki lengur. Að vísu verður að viðurkenna að mikið af þekkingu og afþreyingu þeirri, sem safnast hefur í kringum mannkynið á umliðnum öldum, er saman komið í bókum. Gömlum bókum vel að merkja. Lestur er að vísu ennþá nauðsynlegur og mikilvægur í allri þekkingarleit. Bækur, í hefðbundnum skilningi, eru þó óðum að missa sjarma sinn og víst er að mikið af þeirri þekkingu sem orðið hefur til á síðustu árum, mun aldrei á bækur rata. Vel getur þó verið að með því að láta safnheitið bækur ná yfir víðtækara svið en verið hefur megi e.t.v lengja líftíma þeirra nokkuð og svo hefur bókaútgáfa hvers konar sífellt orðið ódýrari og einfaldari m.a. með því að láta tölvur sjá um sem mest af þeirri vinnu sem til þarf.
Athugasemdir
Sæmundur.: Verð að viðurkenna að þessi pistill kemur við á fleiri stöðum en ég næ að melta, en vitandi það að þú ert heill og skarpur geng ég út frá því að pistillinn sé ekki svo slæmur. Kannski þetta með hvalina sem ég náði ekki alveg, en það er nú yfirleitt ekkert að marka mig, svo það telst nú varla með.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 12.12.2018 kl. 23:48
Þessi einhver mynd virðist nú vera af ansi veiðilegum stað. Mærti ég gerast svo djarfur að velta því á þig að upplýsa um staðinn? Gæti vel hugsað mér að eyða parti úr degi á stað sem þessum, girtur góðri flugustöng og nestispakka. Já og ef til vill smá bejóstbirtu, ef út í það er farið.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 13.12.2018 kl. 00:08
Megnið af þeim bókum sem eru gefnar út eru drasl og vitleysa. En það er leiðinlegt að svona margt fólk sói tíma sínum í að semja þannig lagað. Það væri betra að þetta fólk gerði eitthvað annað. En svona er það. Fólk er fífl og gerir mestan part tóma vitleysu.
Þorsteinn Siglaugsson, 13.12.2018 kl. 00:23
Þorsteinn.: Ef það,er eitthvað að plaga þig þessa dagana, má vel ræða það yfir rauðsprettu á Jómfrúnni. Það er bara synd að sjá hve neikvæður þú ert þessa dagana, annars eins ágætur og þú ert.
Halldór Egill Guðnason, 13.12.2018 kl. 00:52
Gætum jafnvel boðið Sæmundi með!
Halldór Egill Guðnason, 13.12.2018 kl. 01:04
Já, þú segir nokkuð, skólabróðir. Mér hefur skilist á yngri húsmæðrum sérstaklega, að bækur séu einhver versti óþrifnaður, sem komi inn á heimili. Þeim fylgi þungt loft, ryk og svo taki þær pláss í húsakynnum, sem betur væri notað í annað, allt annað. Fyrir nú utan að þær komi ekki nokkru kvikindi að nokkru gagni, því vilji fólk lesa, sé allt slíkt fáanlegt á Netinu og svo í síðasta lagi séu bækur alveg forljótar og eigi ekki að sjást á nokkru heimili út af estetíkinni einni saman.
ellismellur 13.12.2018 kl. 08:37
Halldór og Þorsteinn. Ég er virkilega ánægður með að sjá kommentin ykkar. Kannski eru hugmyndir mínar um bækur og hvali vanreifaðar. Geri kannski betur seinna. Í sem allra stystu máli þá álít ég rafbækur ekki vera bækur í venjulegum skilningi. Hvað hugmyndir mínar um dýradráp snertir er það efni í langar útskýringar, sem ég treysi mér ekki í núna.
Lifið vel og lengi.
Sæmundur Bjarnason, 13.12.2018 kl. 08:47
Ellismellur, sá ekki þitt komment áðan, en varðandi bækur sem stofustáss hef ég margt að segja og geri það kannski seinna.
Takk fyrir kommentið og óska þér alls hins besta.
Sæmundur Bjarnason, 13.12.2018 kl. 08:52
Tek þig á orðinu Halldór. Það er frábær hugmynd að hittast yfir rauðsprettu á Jómfrúnni og bölsótast þar
Þorsteinn Siglaugsson, 13.12.2018 kl. 16:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.