2786 - Þaulsetnir þjóðhöfðingjar

Segja má að komandi (á þriðjudaginn næstkomandi) kosningar í Bandaríkjunum séu einskonar vinsældakosning fyrir Trump forseta. Nú er fyrsta kjörtímabil hans nákvæmlega hálfnað og að því leyti eru þessar kosningar hálfgerð markleysa að engin leið er að losna við Trump í þessum kosningum. Demókratar gera sér þó vonir um að vinna meirihluta í fulltrúadeildinni þar sem kosið er um alla fulltrúana. Með því móti gætu þeir gert Trump svolítið erfiðara fyrir á seinni hluta kjörtímabilsins. Aftur á móti eru litlar sem engar líkur á að þeim takist að hnekkja meirihluta Repúblikana í öldungadeildinni og sennilega vinna þeir enga stórsigra í þeim ríkjum þar sem kosið er um ríkisstjóra. Annars er Trump svo mikið ólíkindatól að hugsanlegt er að Repúblikanar vinni aftur í fulltrúadeildinni og verði líka með meirihluta þar eins og þeir hafa verið undanfarin tvö ár.

Þaulsetnir þjóðhöfðingjar. Allskyns lista fæ ég oft í tölvufréttunum mínum. Fæstir eru þeir forvitnilegir en þó eru undantekningar þar á. Fyrir fáeinum dögum fékk ég lista yfir 12 þaulsetna þjóðhöfðingja. Nei, Ólafur Ragnar var ekki þar á meðal. Helmingurinn var einhverjir árans soldánar sem ég hef aldrei heyrt nefnda áður. Hinn helminginn kannaðist ég við. Þar er efst á blaði Elísabet önnur Englandsdrottning en hún hefur víst ríkt í 66 ár. Númer tvö var Margrét önnur Þórhildur Danadrottning, sem sögð er hafa ríkt í 46 ár. Semsagt einum 20 árum skemur en Elísabet. Báðum hefur þó reynst vel að vera númer tvö af nöfnum sínum á þjóðhöfðingjastóli.

Aðrir á þessum lista sem ég kannaðist við voru: Carl Gústaf sextándi Svíakóngur sem verið hefur við völd í ein 45 ár. Akihito Japanskeisari sem ríkt hefur í 29 ár, Hans-Adam æðsti maður í Lichtenstein í 28 ár og Haraldur fimmti Noregskonungur í 27 ár. Þarna er semsagt aðeins að jafnast valdatíminn. Læt ég svo lokið þessari yfirreið.

Nú eru menn að mestu hættir að tala um braggann og Orkuveituna. Þessi mál eru við það að gleymast og menn eru farnir að tala um ósanngjarnar kröfur verkalýðsfélaganna. Ekki finnst mér þær vera ósanngjarnar ef litið er til þess hvernig stjórnendur bæði fyrirtækja og ríkisins höguðu sér í Hruninu og aðdraganda þess. Vissulega eru kröfurnar háar, en þeir sem minnst mega sín hafa hingað til verið látnir bera þyngstu byrðarnar vegna Hrunsins. Eina vopn þeirra smáu er samtakamátturinn. Andstæðingar þeirra geta valið úr vopnabúri sínu það sem þeir halda að sé áhrifaríkast. Oftast hefur það verið verðbólgan. Hún er auðveld í framkvæmd, en skilar sér dálitið misjafnlega. Stundum brennir hún verst þá sem fyrir henni standa.

Einu sinni orti ég vísu. Reyndar hef ég talsvert oft gert það. Þessi vísa var þó sérstæð að því leyti að mig minnir að hún hafi eitthvað tengst Hruninu (með stórum staf). Sennilega er hún því u.þ.b. tíu ára gömul. Þó ég mundi ekki allar mínar gömlu vísur man ég að þessi var svona:

Hér var milljón tonnum týnt
í torráðinni gátu.
Þjóðinni var svarið sýnt.
Sægreifarnir átu.

IMG 7680Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband