2784 - Nei, ég er ekki dauður

Gleymdi víst að stækka síðustu mynd. Nenni samt ekki að leiðrétta það. Að mörgu leyti er það að verða mest fyrirkvíðanlegt í sambandi við bloggið að ná í myndirnar. Þarf nefnilega að fara nokkuð langt til að ná í þessar myndir og tími ekki að kaupa mér meira pláss á Moggablogginu. Látum þetta laxera enn um sinn.

Atli frændi lætur stundum ljós sitt skína í Morgunblaðinu og vísar stundum í greinar þar. Satt að segja er ljósið oft nokkuð skært. Sjálfum þykir mér síður en svo ástæða til þess að vera áskrifandi að Morgunblaðssneplinum. Stundum skrifar hann annarsstaðar, jafnvel á fésbókina. Auk þess bendir hann oft á athyglisverðar bækur o.þ.h. Að öllu samanlögðu vildi ég alls ekki missa af fésbókarvináttu hans. Apropos fésbókarvinátta, hvers virði er hún svona yfirleitt? Samtals á ég víst meira en 800 fésbókarvini, Að undanförnu hefur bæst verulega í fésbókarvinahópinn og sem betur fer virðist ekki fara mikið fyrir þeim sem þar óska eftir vináttu. Kannski er fiskur undir steini. Hvað veit ég?

Heldur Katrín að hún geti rekið Bjarna? Kannski heldur hún að hún geti í krafti embættis síns flæmt hann úr embætti. Svo er þó ekki. Meðan hann er formaður Sjálfstæðisflokksins er hann ósnertanlegur og það er viss ómöguleiki að koma honum frá. Reyndar er það furðulegt að hann skuli ennþá vera formaður flokksins, en það er ekki vinnandi vegur að koma honum í burtu.

Framtíðin er fangelsi þeirra sem aldrei vilja breyta neinu. Að sjá framtíðina fyrir sér sem eitt allsherjar fangelsi er dálítið skerí, en samt er það svo að sumir vilja aldrei breyta neinu. Aðrir vilja umfram allt breyta breytinganna vegna og á margan hátt er sú afstaða skiljanleg. Til dæmis væri kannski hægt að breyta til baka ef breytingin er algerlega misheppnuð. Kannski væri það ekki hægt en þá mætti sennilega breyta og breyta þar til maður væri sæmilega ánægður. Allt breytist, meira að segja ég sjálfur. Ekki dettur mér í hug að halda að ég sé sá sami og ég var fyrir fimmtíu árum. Hvað hef ég t.d. verið gamall þá? 26 ára. Já, ætli það ekki.

Talsvert er nú orðið umliðið síðan ég bloggaði síðast. Sennilegast er rétt að senda frá sér einhver fáein orð svo allir haldi ekki að ég sé dauður. Ég finn bara ekki hjá mér neina hvöt til þess að láta ljós mitt skína, enda er skinið með daufasta móti þessa dagana. Kannski lagast þetta hvað líður.                     

IMG 7701Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband