2783 - Alþjóðlega sinnuð pressa

Pressan er vinstri sinnuð. Eða a.m.k. alþjóðlega sinnuð. Á því er enginn vafi. Ekki er langt síðan Erdogan var mesti skúrkur sem sögur fóru af. Nú er öllu trúað sem frá Tyrkjun og honum kemur. Hugsanlega hagar þessi alþjóðlega sinnaða pressa dálítið seglum eftir vindi. Ég er samt með þeim ósköpum gerður að ég trúi öllu illu sem sagt er um stjórnvöld í Saudi Arabíu. Jafnvel að ég trúi stundum betur klerkastjórninni í Íran. Erdogan er háll sem áll og Tyrkir virðast vestrænni en okkur er oft talin trú um. Aðalgalli þeirra samkvæmt stórmiðlum á Vesturlöndum er að þeir eru flestir Múhameðstrúar. Sú trú er nútildags oftast kölluð Islamstrú. Mér finnst þetta Islam forskeyti sem sett er framan við allt mögulegt minna óþægilega mikið á orðið Ísland. En það er allt önnur saga.

Málfar má lengi deila um. Ég er ekki frá því að ungt fólk og unglingar nú á tímum skilji stundum ekki öll orð og orðasambönd sem ég nota. Tungumál breytast. Kannski er íslenskan að breytast meira um þessar mundir en hún hefur gert á síðustu öldum. Allsekki held ég að tökuorð, eða yfirleitt einstök orð, vegi þyngst í því sambandi. Heldur að málfræðin sé að breytast. Margir eru ágætlega að sér í íslenskri málfræði án þess að þekkja með nafni þau hugtök sem þar eru notuð. Man vel eftir því að í skóla þótti mér málfræðin hundleiðinleg. Kannski situr enn í mér að Gunnar Benediktsson sem eitt sinn kenndi í mínum bekk það sem mig minnir að þá hafi verið kallað íslenska (sennilega þó með zetu). Hann notaði að ég held mikið af tíma sínum til að berja í okkur stafsetningu.

Horfði nýlega á kvikmyndina sem kölluð hefur verið á íslensku „Lömbin þagna“ með Anthony Hopkins og Jody Foster. Aðallega var það vegna þess að ég hafði ekki horft á hana áður, en heyrt mikið um hana talað. Satt að segja fannst mér hún fremur léleg. Sæmilega spennandi þó, en á margan hátt er ég hræddur um að hún hafi elst fremur illa. Sennilega hefur hún þótt nokkuð góð á sínum tíma. Margar aðrar hryllingsmyndir eru mér mun ofar í minni, sumt í þessari mynd var t.d. óttalega barnalegt.

Steini Briem hefur nú látið heyra frá sér eftir athugasemdafylliríið um daginn. Veit ekki hvort ég á að búast við vísum eða athugasemdum frá honum á næstunni. Hann er skelfilega dyntóttur og lítur stórt á sig. Næstum eins og Donald Trump að því leyti. Andúð hans á Tromparanum og Jóni Vali Jenssyni held ég samt að sé ekki nein uppgerð. Óþarfi finnst mér að reita Jón Val til reiði á þann hátt sem hann gerði. Mér er alveg sama þó hann kalli mig gamlan og sérvitran kall og jafnvel fávita. Ég gæti svosem fundið að ýmsu hjá honum en geri það ekki.

Kosningabaráttan í Bandaríkjunum tekur á sig ýmsar skrýtnar myndir. T.d. heldur Trump og sálufélagar hans því fram að flóttamenn sem segjast vera á leiðinni til Bandaríkjanna yfir Mexikó séu á vegum demókrata og Georges Sorosar, sem sannarlega er einn af þeirra helstu styrktaraðilum. Þeir eiga að hafa borgað flóttamönnunum fyrir að hyggjast fara til Bandaríkjanna. Ekkert bendir þó til að þetta sé rétt.

IMG 7706Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband