2780 - Kashoggi og braggastrá

Með því að vaða svona úr einu í annað eins og ég geri má segja að úr verði argasta bull. Ekki vil ég þó samþykkja það, því ég aðskil a.m.k. með greinaskilum það sem mér finnst þurfa að aðskilja. Satt að segja nenni ég ekki að finna upp fyrirsagnir á allt sem ég skrifa. Fyrirsagnir finnst mér að hafi oft mest áhrif á aðra. Kannski lesa fáir mín blogg vegna fyrirsagnanna. Hef svosem enga hugmynd um það.

Ekki er annað að sjá en hvarf blaðamannsins í sendiráði Saudi Arabíu í Tyrklandi ætli að hafa talsvert mikil áhrif. Ekki minni á heimsmálin en braggastrámálin hafa hérlendis. Kashoggi hefur sennilega verið myrtur og ekki er að sjá annað en Saudar ætli að viðurkenna að hann hafi verið myrtur í sendiráðinu, en sennilega reyna þeir að segja að stjórnvöld hafi ekkert haft með það að gera. Hverjum verður kennt um veit ég ekki. Tyrkir hafa reynt að segja ekki frá því að þeir hafi eflaust allskyns njósnagræjur í þessu sendiráði eins og öðrum.

Braggamálið gæti orðið Degi dýrt og ekki dugir að hafa borgarstjórann sífellt veikan. Annars eru framúrkeyrslur landlægar hér á Íslandi og ekki síður hjá ríkinu en borginni og fleirum. Margt er þó með ólíkindum í braggamálinu. Vil samt ekki fara útí nein smáatriði þar en fjölmargir virðast hafa getað skrifað reikninga að vild. Eftiráskýringar og afsakanir í þessu máli eru lítils virði.

Veðurlagið nú í haust hefur verið heldur rysjótt. Spádómur um veturinn í heild er það samt allsekki. Frosthörkur hafa þó ekki verið miklar, en það gæti breyst. Þó ég viðurkenni alveg að veðurlag geti haft áhrif á ýmislegt, get ég ómögulega fegið mig til þess að gera það að sérstöku áhugamáli. Frekar er hægt að segja að bloggið almennt og fésbókin séu það.  

Tjáningarfrelsi og mannréttindi af ýmsu tagi eru það einnig. T.d. þótti mér mál Snorra í Betel mjög athyglisvert á sínum tíma og á margan hátt vera keimlíkt því máli sem nú er sem mest rifist um. Mér finnst mál kennarans við Háskólann í Reykjavík vera Háskólanum til vansæmdar ef ekki er hægt að slá því föstu að skoðanir umrædds kennara hafi haft áhrif á kennsluna. Ef þessar skoðanir eru ekki nýtilkomnar finnst mér ólíklegt að þær hafi allt í einu farið að hafa slík áhrif að nauðsynlegt væri að reka hann. Auðvitað kann vel að vera að fleira sé um að ræða í þessu máli og líklegast er að einhver tæknileg atriði eða annar tittlingaskítur ráði lyktum málsins.

Á margan hátt finnst mér slæmt að horfa uppá þær tölur sem koma á súluritið mitt ef langur tími líður að milli blogga. Þessvegna er það sem ég rembist stundum við að skrifa bara eitthvað á bloggið mitt jafnvel þó það sé lítils virði.

Á laugardaginn fórum við í afmælisveislu uppeftir til Bjarna því daginn áður varð Tinna níu ára. Veislan fór vel fram og þar var fiskisúpa framreidd og ýmislegt meðlæti. Fjöldi krakka (allt stelpur) var þar líka og daginn áður hafði hún eftir venju haldið uppá afmælið með bekkjarfélögunum í skólanum.

IMG 7745Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Borgarstjórinn er kominn með heymæði held ég, út af stráunum

Þorsteinn Siglaugsson, 16.10.2018 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband