2746 - Bílar og Trump

Ekki er nokkur vafi á því að rafbílarnir eru að taka yfir. Þó opinberir aðilar muni eflaust reyna að mjólka hleðslustöðvar eins og mögulegt er þá er lítill vafi á því að bílferðir muni verða talsvert ódýrari í framtíðinni. Eins og ástandið er núna virðist sem þeir sem í alveg nýjum blokkum eða einbýlishúsum búa hafi dálítið forskot vegna þess að bílana ætti að vera tiltölulega auðvelt að hlaða þar. Öðru máli gegnir um þá sem búa í eldri blokkum og gömlum einbýlishúsum. Þar mun víða dragast eitthvað að koma upp hleðsluaðstöðu fyrir alla. Víða getur hleðsla rafbílanna valdið einhverjum vandræðum, en eflaust verður ráðin bót á því fljótlega.

Drægni rafbíla, þyngd þeirra og verð, mun þróast fremur hratt á næstu árum og helsta vandamálið hjá flestum verður sjálfsagt HVENÆR rétt sé að taka stóra stökkið. Undanfarna áratugi hefur mikil framför orðið í bílasmíðum og vegalagningu hvers konar og rétt er að gera ráð fyrir áframhaldi á því. Alltaf virðist þeim þó fjölga sem líta á bíla sem leikfang, en ekki tæki til að komast á milli staða með. Stöðutákn er bíllinn líka alveg tvímælalaust.

Að komast í heimsfréttirnar er greinilega æðsta takmark sumra. En hvernig komast menn í heimsfréttirnar? Ef nógu mörgum fréttastjórum stórra fjölmiðla finnst eitthvað nógu merkilegt til að komast í fréttirnar, þá kemst það þangað og menn fá sína 15 mínútna frægð og gleymast síðan, nema einhverjum algjörum fréttanördum. Auðvitað finnst samt þessum fréttastjórum betra og þægilegra að skrifa eða láta skrifa fréttir um eitthvað sem þeir þekkja vel og búast við að aðrir geri líka. Þá eru skrifin næstum sjálfvirk, því hægt er að grípa til endurtekninga ef annað bregst. Hvernig verða þá stórir fjölmiðlar til? Það er margslungið og að sjálfsögðu koma peningar þar við sögu. Stríðsfréttir eru líka öðrum fréttum betri til að ná því marki. Þessvegna meðal margs annars, svosem vegna vopnasölufylkingarinnar (military industrial complex, einsog einu sinni var talað um) eru stríð og allskyns hörmungar nauðsynlegur fylgifiskur heimsfréttanna.

Í aðaldráttum er það samt sem áður ekki rétt hjá Trump bandaríkjaforseta að fjölmiðlar búi til fréttir. En magnið er svo mikið að með því að velja ávallt það sem kemur Trump illa birta miðlarnir talsvert skekkta mynd að raunveruleikanum. Þeir (miðlarnir) bjuggu Trump til og núna sjá þeir eftir öllu saman. Þessvegna og vegna persónuleika síns er hann orðinn svona óvinsæll a.m.k. utan bandaríkjanna. Sennilega er hann ekkert verri en aðrir forsetar USA hafa verið. Hann lýgur bara meira og er sjálfhælnari en flestir aðrir. Einnig er hann á móti flestum stærstu fjölmiðlum heims og finnst þeir of valdamiklir, sem þeir auðvitað eru.

Þó ég hérna á undan hafi varið Trump sjálfan að einhverju leyti, breytir það ekki því að ég er í grundvallaratriðum á móti honum, pólitískt séð. Vinstri stefnan er sú eina rétta. Það er t.d. alls ekki sanngjarnt og rétt að mjög lítill minnihluti fólks velti sér uppúr auðæfum heimsins, en allir hinir lepji dauðann úr skel. Þeir þurfa alls ekki að gera það (og gera reyndar ekki). Undanfarna heimsmeistaradaga hefur mér oft dottið í hug þetta með „brauð og leika“ sem Rómverjar (eða voru það Grikkir) til forna fílósóferuðu sem mest um.

IMG 7953Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki lengur er nú snauð,
íslensk þjóð í stuði,
bensíndælan bráðum dauð,
batterí í skuði.

Þorsteinn Briem, 16.7.2018 kl. 14:20

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ofsalega er hún snauð
íslensk þjóð í vanda.
Þó að Trump sé talsvert gauð
sem tæpast fær að standa.

Sæmundur Bjarnason, 17.7.2018 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband