20.6.2018 | 16:12
2736 - Úr gömlu bloggi
Er ég farinn að flýta mér einum of mikið við þetta blogg mitt? Kannski. Held að ég hafi gleymt að setja mynd með síðasta bloggi. Kannski ég gái bara að þessu. Gott ef ég gleymdi ekki einhverju fleiru.
Við Íslendingar erum stórskrítnir. Einu sinni vorum við handboltaþjóð, nú erum við knattspyrnuþjóð. Umfram allt erum við þó lítil þjóð, sem sífellt er að setja heimsmet miðað við fólksfjölda. Það gerðum við jafnvel Sigmundarlaus. Eftir að hann kom til skjalanna fjölgaði heimsmetunum að sjálfsögðu. Stundum voru það reyndar heimsmet sem engir aðrir vildu setja, en heimsmet samt.
Svo verða held ég alveg sérstakir Íslandsvinir allir sem láta svo lítið að taka eftir okkur. Það verður enginn frægur hér á landi nema einhverjir útlendingar kannist við hann. Þannig er það bara og hefur alltaf verið.
Í desember árið 2013 skrifaði ég eftirfarandi í bloggið mitt. Kannski er kominn tími til að endurtaka það:
Það var síðastliðið sumar sem um það var rætt að gera Ásgautsstaðamálið opinbert. Ekki svo að skilja að ekki hafi verið rætt um það fyrr. Aldrei hefur samt orðið neitt úr því að opinberlega væri um málið fjallað. Bloggið mitt er í þeim skilningi opinbert að þónokkuð margir eru vanir að lesa það. Jafnvel væri hægt að kalla það fjölmiðil af einhverju tagi, ef löngun væri til.
Eftir talsverðar rökræður var mér falið að kanna hvort fjölmiðlar hefðu e.t.v. áhuga á málinu. Meðal annars sendi ég fyrrverandi vinnufélaga mínum bréf um þetta. Svarið frá honum var á þá leið að þó helstu fjölmiðlar hefðu hugsanlega ekki áhuga á þessu væri tvímælalaust rétt að gera það opinbert. Þetta var í júlí í sumar. Af ýmsum ástæðum varð ekki úr neinum framkvæmdum þá. Ég tók samt saman helstu staðreyndir málisins í örstuttu máli.
Konan mín og systkini hennar eru erfingjar að níunda hluta jarðarinnar Ásgautsstaðir við Stokkseyri. Lögfræðingur í Reykjavík hefur verið með mál í gangi í mörg ár útaf misnotkun sveitarfélagsins Árborgar (og áður Stokkseyrar) á jörðinni. Fulltrúar sveitarfélagsins virðast leggja áherslu á að tefja þetta mál eftir megni. Það er ekki útaf vantrausti á lögfræðingnum sem ég birti þetta. Þarna er um sakamál að ræða sem á sér langa sögu og tengist húsbyggingum á Stokkseyri, sýslumannsembættinu á Selfossi og Bæjarstjórn Árborgar. Um er að ræða óheimila notkun lands, ólöglegar byggingar, skjalafals og hugsanlega ýmislegt annað.
Lögfræðingurinn hefur kært þetta mál til sérstaks saksóknara en mér skilst að hann telji þetta vera einkamál. Ég tel hinsvegar að skjalafals opinbers embættismanns geti ekki verið það.
Þau systkinin vilja gjarnan fá að vita hvers vegna sýslumaðurinn á Selfossi svarar ekki bréfum sem til hans eru sannanlega send. Þarna á ég við bréf sem lögfræðingur meginhluta erfingjanna að jörðinni hefur sent honum. Svo virðist sem málið sé strand hjá sýslumanni núna og hafi verið það alllengi.
Álit mitt á lesendum þessa bloggs er mikið og ein af helstu ástæðum þess að ég skrifa um málið hér og nú er sú að ég vil gjarnan fá ráðleggingar um æskilegt framhald þess. Allar þær fullyrðingar sem fram koma í þessari bloggfærslu er hægt að færa fullkomnar sönnur á með ljósritum og staðfestum afritum úr embættisbókum.
Þetta skrifaði ég semsagt fyrir bráðum fimm árum. Kannski er sumt eða allt af þessu fyrnt en af því ég var um daginn að lesa gömul blogg sem ég hef skrifað datt mér í hug að birta þetta aftur.
Engan bið ég afsökunar á þessu og á næstunni mun ég e.t.v. geta eitthvað um þau viðbrögð sem ég fékk við þessu.
Athugasemdir
Sæmundar er mikið maus,
margt þarf hann að skoða,
nú við Sigmund loksins laus,
ljót var öll hans froða.
Þorsteinn Briem, 20.6.2018 kl. 16:44
Með froðu sina Sigmundur
sífellt allra verstur.
Steini segir Sæmundur
sýnist vera bestur.
Sæmundur Bjarnason, 20.6.2018 kl. 22:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.