2712 - Trump og Nóbel

Íslensk stúlka brákaði stórutá í svefni í Sjanghæ. Þetta var fyrirsögn í vinsælum fréttamiðli. Mér finnst þetta fremur fáfengileg frétt. Þó skoðaði ég hana. Er þá ekki tilganginum náð? Kannski eru það fleiri en ég sem gera það. Samt er ég allsekki að gagnrýna stúlkukindina. Eflaust hefur hún ekki skrifað fréttina. Jafnvel verið á móti því að um þetta væri skrifað. Svona er nú samt fréttamatið hjá sumum. Er ég þá að gagnrýna fréttamiðilinn? Kannski. Já, eiginlega. Þetta sá ég á tímaritinu hans Eiríks Jónssonar. Kannski hefur sá sem skrifaði þessa fyrirsögn verið að gera grín að sjálfum sér. Hvað veit ég?

Enn er ég dálítið fastur í því að blogga næstum því daglega. Ég get bara ekki stillt mig. Sennilega les ég of mikið af bandarískum fréttum. Trump-manía mín er samt ekki að réna. Bandaríkjamenn eru ekki nema um 4% af heimsbyggðinni að fjölda til, en áhrif þeirra hafa hingað til verið mjög mikil og eru enn. Þó fara þau minnkandi.

Það nýjasta héðan frá Norðulöndunum, (af hverju skyldi ég nota stóran staf þarna?) er að Nóbelsverðlaununum í bókmenntum verður ekki úthlutað í ár. Ekki veit ég með vissu útaf hverju þetta er, en þetta er eflaust heitasta fréttin í heiminum núna. Og svo eldgosið á Hawaii.

Hlutverk ljósmynda og vídeómynda hefur breyst mikið að undanförnu. Segja má að hvorttveggja sé orðin miklu meiri almenningseign en áður var. Ritað mál er meira og minna að verða útelt þing. Þó hef ég ekki sagt skilið við það og held áfram að blogga eins og enginn sé morgundaginn. Þetta orðalag með morgundaginn er afar vinsælt núna og ýmislegt úr orðalagi dagsins á ég fremur auðvelt með að tileinka mér. Verr gengur með ýmsa tækni sem unga fólkið í dag hefur alveg á valdi sínu. Þó eru eflaust margir verr settir en ég að þessu leyti.

Ein ástæða þess að margir vinnuveitendur vilja gjarnan fá verðbólguna aftur er sú að þá þarf ekki að vera að lækka launin hjá fólki þó illa gangi. Nóg er að þrjóskast við að hækka. Eins og ástandið var fyrir nokkru (fyrir hrun) vildu fæstir hafa nokkuð að gera með taxta stéttarfélaga enda voru flestir eða allir yfirborgaðir. Það er auðvitað óskastaða vinnuveitenda. (Af hverju eru þeir veitendur – jafnvel tungumálið er þeim velviljað). Ómarktækir samningar við stéttarfélög og hæfileg verðbólga – sem auðvelt er að velta yfir á aðra - er einmitt það sem SA vill.

Þegar ég verð andvaka eins og átti sér stað í morgun fimmtudag (vaknaði um fjögurleytið) á ég um ýmsa kosti að velja. Ég geta farið í tölvuna. Ég get fengið mér bók að lesa. Ég get lesið eitthvað á spjaldtölvunni minni og þarf þá ekki að sitja í hálfóþægilegum stól. Ég get horft á sjónvarpið o.s.frv. Semsagt fjölmiðlun öll hefur tekið miklum stakkaskiptum. Hvað gerði fólk eiginlega hér áður fyrr þegar það varð andvaka? Samdi ljóð og sögur? Orti rímur? Í myrkrinu yfir veturinn hefur það verið erfitt án þess að eyða dýrmætu ljósmeti. Hvers vegna í ósköpunum sem ég ekki eitthvað? Nenni því bara ekki. Ég á ekkert sérstaklega erfitt með að setja saman vísur. Sumar þeirra eru meira að segja alveg sæmilegar. Þó ég segi sjálfur frá.

IMG 8241Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þú mátt ekki hætta en en það er gaman að lesa það sem þú skrifar. Einskonar frétta korn.

Valdimar Samúelsson, 4.5.2018 kl. 09:40

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Eirík telur apakött,
alveg má gagnrýna,
allt hans sorp er út í hött,
einkum þó í Kína.

Þorsteinn Briem, 4.5.2018 kl. 15:33

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Stephan G. samdi Andvökur þegar hann var andvaka. Það tókst bara vel.

Þorsteinn Siglaugsson, 4.5.2018 kl. 19:34

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini er með stolið skott
stundum allt í fína.
Úlpan hans er alltaf flott
einkum þó í Kína.

Já, ég veit. Þetta er lélegt.

Sæmundur Bjarnason, 5.5.2018 kl. 09:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband