2711 - Katrín, Jónas og Páll

Nú er ég á góðri leið með að falla í það gamla hjólfar að blogga á hverjum degi. Jafnvel þó ég hafi svosem ekkert að segja. Slíkt ber að varast. Betra er að blogga almennilega og þá sjaldnar. Best er auðvitað að blogga alls ekki neitt.

Vissulega er það svo að Katrín Jakobsdóttir liggur nú greinilega undir feldi. Þ.e.a.s. næst þegar hún kemur fram opinberlega skiptir það sem hún segir og hvernig hún segir það verulega miklu máli. Bæði fyrir hana og VG. Hugsanlega fyrir ríkisstjórnina einnig

Þessir blessuðu (eða bölvuðu) auglýsendur eru að verða alltof ríkir. Undanfarin a.m.k. tvö eintök af Fréttablaðinu staðfesta þetta. Þ.e.a.s. utan um sjálft blaðið var fjögurra síðna kálfur með auglýsingum frá sama aðilanum. Moggafjandann sé ég aldrei. Hann hlýtur að græða grimmt á þessu.

Einhverntíma í kosningabaráttunni 2016 var Donald Trump spurður hver væri hans aðalráðgjafi í utanríkismálum. „Það er ég sjálfur“, svaraði hann. Þessi árátta hans um að treysta alltaf sjálfum sér best, er á margan hátt að fara með hann. Ákvarðanir hans (einkum í utanríkismálum) eru oft stórskrýtnar. Þegar verst lætur gætu þær jafnvel stefnt heimsfriðnum í hættu. Þessvegna er fundar hans með Kim Jong-un, sem hugsanlega er jafnvitlaus og hann, beðið með mikilli óþreyju.

Ekki held ég samt að hann (Trump) verði kærður til embættismissis, eins og reynt var með Bill Clinton greyið. Framhjáhald sannaðist að vísu á hann og eitthvað þessháttar væri áreiðanlega hægt að sanna á Trump, en ekki er að sjá að slíkt hafi endilega áhrif á embættisfærslu hans. Á endanum gæti hann þó skotið sjálfan sig í fótinn með Twitter eða á annan hátt. Forsetaembættið sem slíkt mun samt eflaust taka Trump-legum breytingum í framtíðinni.

Sko, ekki gat ég stillt mig um að láta Trump-ljós mitt skína. Sem betur fer er lítið að marka þessar heimspólitísku vangaveltur mínar. Aðrir mega mín vegna halda áfram með þær. Sumar þeirra eru þannig að vel mætti hugsa sér að byggja samsæriskenningar á þeim ef ekki væri byggt á neinu öðru.

Ég vil helst skipta sem allra mestu af pólitík dagsins í hægri og vinstri. Auðvitað veit ég ósköp vel að margir telja þessa skiptingu úrelta. Á vinstri vængnum tel ég Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóra vera fremstan skribenta, en á þeim hægri Pál Vilhjálmsson kennara. Mér finnst þeim báðum hætta til að vera of öfgakenndir. Vitanlega er þessi hægri/vinstri skipting ekki einhlít nema í sumum málum. Opingáttarmenn og einangrunarsinna má líka skipta mönnum í eftir afstöðu þeirra til útlanda. Ég held að Þorvaldur Gylfason hafi haldið slíku fram og svo hef ég líka heyrt því haldið fram að allir séu í rauninni framsóknarmenn eða ekki.

IMG 8242Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki Kata er nú þunn,
aldrei hefur lekið,
ef hún loksins opnar munn,
eftir verður tekið.

Þorsteinn Briem, 2.5.2018 kl. 15:39

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Vinstri grænir virðast mér
vera að hafna nafni.
A undan Kötu enginn fer
enda fyrir stafni.

Sæmundur Bjarnason, 2.5.2018 kl. 16:25

3 identicon

Mannorðmorðin dynja á,

mörgum góðum mönnum,

fráleitt er að finna þá,

sektinni, fyrir sönnun.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir 2.5.2018 kl. 17:49

4 identicon

Sæmi minn. Allir geta gert sitt besta til að segja frá hvernig mannorðsmorðin fara fram. Það er víst frekar óvinsælt og dauðadóms-dauðadæmandi verkefni.

Eða hvað?

Of illa borgað, og ekki síst of hættulegt fyrir einstaklinga og fjölskyldur á Íslandinu lögmanna og réttarríkisins-svikula?

Ég hef lært margt á lífsins vegferð.

Síðustu 10 árin hef ég lært hvernig Ísland er falsvelferðarríki, og vanþróaðasta og lögmanna/réttarkerfis sviknasta ríki, sem um hefur verið skrifað og talað í jarðarheiminum.

Þvílíkur lærdóms-sálarangistar-andvökunætu-reynslu lærdómur!

Aftökudómur opinberast fyrir alla (saklausa og seka), sem ekki hlýða handrukkurum undirheimalögmanna/svartamarkaðs-ræningjanna og dómsstólalyginnar spillingarstjórum?

Er ekki ennþá þáttur á Stöð 2, sem kallast: Ísland í dag?

Hvað eru sannleikans þáttastjórnendur að hugsa þar á blekkinga-bæ?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir 2.5.2018 kl. 18:13

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Anna. Verðum við ekki bara að taka þátt í leiknum? Sumir tapa eins og í öllum leikjum. Er ekki lífið einn allsherjarleikur? Sumir tapa, aðrir fljóta ofaná og enn aðrir raka saman peningum. Allir tapa samt á endanum.

Veit ekkert lengur um Stöð 2. 

Sæmundur Bjarnason, 3.5.2018 kl. 05:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband