2694 - Haukur Hilmarsson

Auðvitað er sigur Sólveigar Önnu í stjórnarkjörinu í Eflingu (sem áður hét Dagsbrún og var kvenmannslaus félagsskapur, minnir mig – en það er önnur saga) talsvert merkilegur. Hætt er þó við að fljótlega fenni yfir þann sigur. Gott ef Sigurður Bessason var ekki einu sinni á svipuðum báti að þessu leyti og Sólveig Anna er núna. Annars er ég enginn sérfræðingur í kjara- og verkalýðsmálum þó ég hafi einhverntíma verið í fulltrúaráði einhvers staðar og jafnvel setið Alþýðusambandsþing. Furðulegt hvað Egill Helgason er sérfræðingur í mörgu.

Húrra. Ég hef stíl. Það er bara efnið sem er að fara illa með mig. Eiginlega ætti ég ekki að leggja svona mikla áherslu á að sýnast gáfaður. Ekki vera alltaf að skrifa um Trump bandaríkjaforseta og þessháttar vitleysu. Nær að skrifa um eitthvað sem skiptir máli. Hvort er stíllinn meira háður efninu en efnið stílnum. Veit það ekki. Sem betur fer hugsa ekki allir eins. Sumir hugsa ekki neitt. Þegar gáfufólki finnst þörf á því að gera grín að gömlu fólki minnist það oft á hægðirnar. Reyndar er það ekkert ómerkilegra umræðuefni en hvað annað. Til dæmis var ég áðan að lesa stórskemmtilega frásögn af frunsum. Eiginlega er það stíllinn og frásögnin sem gjarnan getur skipt miklu meira máli en efnið. Þessvegna er það áríðandi fyrir mig að hætta að skrifa um Trump. Svona geta sundurlausar hugsanir orðið að einhverju.

Þeir sem rugga bátnum, eða bátunum og ganga í berhögg við stjórnvöld eru oft kallaðir „aðgerðarsinnar“. Í munni sumra er það hið argasta blótsyrði. Sagt er að Haukur Hilmarsson hafi verið slíkur. Einnig er sagt að hann hafi fallið í Sýrlandi. Sennilega fyrsti Íslendingurinn sem lætur lífið í því skítuga stríði, sem sumir segja að sé runnið undan rifjum Sádi Araba eða jafnvel Bandaríkjamönnum. Lítill vafi er á því að innrásin í Írak árið 2003 var mikil mistök. Ekki kannast ég við að þekkja Hauk nokkuð, en Evu Hauksdóttur, mömmu hans, kannast ég svolítið við af Internetinu. Stundum (jafnvel alloft) les ég t.d. bloggið hennar. Hún er með öllu óhrædd við að setja þar flest það sem henni dettur í hug. T.d. lista yfir þau blogg sem henni þykir góð og líka þau sem henni finnst greinilega ómöguleg. Sem betur fer er ég (eða bloggið mitt) á hvorugum listanum.

Já, ég lifi eiginlega á fyrirsögnum. Tinna segir að ég sé fréttasjúkur og henni finnst amma sín vera það líka. Yndi mitt af hvers kyns útúrsnúningum er líka mikið. Ein fyrirsögn sem ég sá nýlega var höfð eftir Bill Gates sem illar tungur segja að sé, eða hafi verið, ríkasti maður heims: „Það kemur annað hrun, það er alveg öruggt“. Vitanlega er það alveg öruggt. Spurningin er bara hvort það verður í næsta mánuði eða eftir 200 ár. Margir hötuðust svo við Gates greyið að þeir gátu ekki notað Microsoft hugbúnað.

Það er þetta með íslenskuna. Það sem sumir kalla „headspace“ kalla ég venjulega „attention span“. Segið svo að enskan sé ekki að vinna á. Reyndar þekki ég bara skrifaða ensku, en talaða miklu síður. Hef prófað að tala bara íslensku við Charmaine (konuna hans Bjarna) og hún skilur hana bara ágætlega. Um að gera að senda þettta út í eterinn útaf attention spaninu. Er það annars stærra hjá ungu fólki?

Trump og Kim ætla víst að hittast. Aldrei fór það svo að ég kæmist hjá því að minnast á Trump.

IMG 0113Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Egill hvorki spikk né span,
speki er þar leki,
allt hjá honum of og van,
erind mikill reki.

Þorsteinn Briem, 9.3.2018 kl. 12:56

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Spikk og span - Hreint og fínt. Fínt og fullfrágengið. Dregið af þvottaefnistegundinni Spic and span."

Þorsteinn Briem, 9.3.2018 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband