2685 - AT, PCT og CDT

Nú er ég semsagt kominn í þann gírinn að ég blogga næstum á hverjum degi. Um daginn var ég eitthvað að tala um Keith Foskett og gott ef ég lofaði ekki að halda svolítið áfram með hann.

Ekki veit ég hvort það eru margir af lesendum mínum sem kannast við skammstafanirnar AT, PCT og CDT. En þær þýða a.m.k. í mínum huga. Appalachian Trail, Pacific Crest Trail og Continental Divide Trail. Allir þessir göngustígar eru í Bandaríkjunum og þar að auki gríðarlega langir.

Skemmst er frá því að segja að Keith Foskett er göngugarpur mikill, auk þess að vera prýðilegur rithöfundur. Í mörg ár hef ég haft mikinn áhuga á að lesa bækur um AT. Þangað til fyrir stuttu síðan hafði ég mest álit á bók Bill Bryson um það efni, sem mig minnir að hann kalli „Walking in the Woods“. Nú hefur Keith Foskett tekið við því sæti því í dvöl minni á Gran Canary um daginn las ég bók hans um AT og hafði áður lesið bók hans um PCT.

Bók Fosketts um PCT er mér ofarlega í minni. Ekki veit ég til þess að hann hafi farið eftir CDT enda er það fremur fáfarin leið a.m.k. miðað við hinar. Hins vegar hefur hann farið ýmsar leiðir á Bretlandi, en hann er enskur og hefur m.a. einnig farið um El Camino de Santiago sem er víst gönguleið á Spáni.

Trailmagic, trailangel, trailname og thru-hiker eru hugtök sem AT-farar þekkja mjög vel. Trailmagic er það kallað þegar fyrrverandi AT-farar fylla bíla sína af allskyns matvörum og ýmsu dóti, sem þeir vita af reynslu að göngumenn hafa áhuga á. Þessu dreifa þeir ókeypis með öllu til AT-fara og hafa ánægju af. Trailangels er þeir kallaðir sem fyrir slíku standa. Thru-hikers eru þeir kallaðir sem ætla sér að fara allar tvö til þrjú þúsund mílurnar sem AT nær yfir. Allar götur frá Georgiu í suðri til Maine í norðri. Einnig fara margir styttri vegalengdir eftir þessum stíg. Hann er vinsæll mjög. Trailname fá allir thru-hikers og jafnvel fleiri. T.d. er Foskett kallaður Fozzie. Sjálfir þurfa þeir að samþykkja nafnið en annars geta allir nefnt alla og úthlutað þannig trailnames.

Fjölyrði ég svo ekki meira um þetta að sinni en þetta gæti verið nóg efni í blogginnlegg. Ekki nenni ég að skrifa um fréttir dagsins enda þykja mér þær heldur ómerkilegar. T.d. er það greinilega óvinsælt hjá blaðamönnum að skrifa bakþankana í Fréttablaðið. Virðast vilja að Óttar Guðmundsson skrifi þá sem oftast því hann á það til að vera stórorður mjög.

Ráðherrar bera enga ábyrgð á neinu. Er ekki óþarfi að vera að borga þeim milljónir á mánuði í laun, þegar lágmarkslaun væru kappnóg fyrir þá? Reyndar má alveg halda því fram að þeir séu óþarfir með öllu. Væri ekki alveg nóg að ráðuneytisstjórar stjórnuðu ráðuneytunum? Forsætisráðherra er kannski ekki með öllu óþarfur, því einhver þarf að geta rekið ráðuneytisstjórana ef þeir reynast ómögulegir með öllu.

motorcycleEinhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband