2683 - Austurland að Glettingi

Kári Kaldalóns Frýs segir nú veðurfregnir: Appelsínurauð viðvörun er í gildi um allt land vegna þess að búast má við illviðri þar sem bæði verður snjókoma og svo hvasst að gera má ráð fyrir að bílar og annað lauslegt muni fjúka út um allar trissur. Einnig verður talsvert frost einkum í innsveitum og á botni stöðuvatna.

Kannski eru þetta svolítlar ýkjur hjá mér. Mér finnst samt að nóg sé komið af snjó og frosti í bili. Skil ekkert í Veðurstofunni að láta svona. Alveg finnst mér koma til greina að ákalla hnatthlýnunina svolítið. Þýðir hún kannski að kaldara verður hér á norðurhjaranum meðan það verður hlýrra allsstaðar annarsstaðar? Ég bara spyr.

Að mörgu leyti er það mikilsverðast í Sigríðarmálinu að það traust milli þings og þjóðar, sem ÓRG talaði svo fjálglega um virðist jafnvel fara breikkandi og einkum vera á milli framkvæmdvalds og löggjafarvalds. Þrjár stoðir má segja að séu á þeim völdum sem þjóðin hefur í reynd afsalað sér. Þar er um að ræða dómsvald, framkvæmdavald og löggjafarvald. Ekki er þó hægt að spyrja þjóðina ráða í öllum málum. Sú venja hefur skapast í flestum lýðræðisríkjum að gera slíkt aðeins á fjögurra ára fresti. Fram að þessu hefur það verið þannig hér á landi að framkvæmdavaldið hefur viljað yfirgnæfa hin tvö. Það er ekki gott. Vitanlega er best að þessar stoðir eigi gott samstarf og ekki þurfi að koma til deilna á milli þeirra. Slíkt er þó aldrei hægt að koma í veg fyrir með öllu. Mikilvægt er samt að koma sér saman um hverig hægt er að setja slíkar deilur niður. Kannski forsetinn sé heppilegur til slíkra verka.

Borgarlínan svonefnda er mál málanna í dag að mörgu leyti. Sjálfum finnst mér það undarlegt að ekki skuli enn hafa tekist að koma almenningssamgöngum sæmilega á rekspöl hér á höfuðborgarsvæðinu. Mörg tilhlaup hafa samt verið gerð til þess. Borgarlínan er það nýjasta. Ekki þarf að deila um að þar er um að ræða byltingarkenndustu og kostnaðarsömustu lausnina. Samt er allsekki hægt að ganga út frá því að hún takist betur en hinar. Vonandi er samt svo. Ekki er nefnilega annað að sjá en að ráðist verði í það verkefni. Kannski verður það eilífðarverkefni eins og Sundabrauin virðist ætla að verða og Miklabrautin var einu sinni álitin vera.

Það eina góða sem ég held að geti komið útúr einangrunarstefnu Trumps bandaríkjaforseta er það að áhrif bandaríkjamanna á heimsmálin muni fara minnkandi. Já, ég held að það gæti orðið til bóta vegna þess að þeir (bandaríkjamenn) virðast flestir halda að með því að vinna kalda stríðið hafi þeim orðið allir vegir færir. Svo er þó ekki, því ekki er hægt að sjá að heimurinn hafi batnað fyrir áhrif þeirra. Auðvitað er það ekki óumdeilt að heimurinn muni batna ef áhrif bandaríkjamanna minnka. Sumir eru beinlínis öndverðrar skoðunar. Engin leið er að skera úr um hvor skoðunin er réttari. Alheimsstjórn gæti verið svarið en hugsanlegt er að slíkt mundi hafa óþekktar hættur í för með sér.

IMG 0346Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband